Rúmlega þrjú þúsund manns 70 ára og eldri höfðu einhverjar atvinnutekjur á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun. Á þessu ári er gert ráð fyrir að tælega 3.800 ellilífeyrisþegar verði með einhverjar atvinnutekjur.
Rúmlega 29 þúsund manns eru 70 ára og eldri hér landi. Í kjölfar fjármálahrunsins var frítekjumarkið lækkað með lögum í 40 þúsund á mánuði, en var svo hækkað aftur fyrsta júlí í fyrra.Nú mega þeir sem eru 70 ára og eldri hafa 109.600 krónur í atvinnutekjur á mánuði án þess að það skerði ellilífeyrinn.
Rúmlega 1100 í ár
Við lagabreytinguna í fyrra fjölgaði talsvert í hópi þeirra sem hafa hámarksatvinnutekjur án þess að þær skerði ellilífeyrinn. Frá því í nóvember 2011 til nóvember 2012 voru þeir 538. Frá því í nóvember 2012 til nóvember 2013, fjölgar þeim í 906. Ekki er ljóst hversu margir eru með hámarksatvinnutekjur í ár en samkvæmt tekjuáætlunum er gert ráð fyrir að þeir hafi verið rétt rúmlega 1100.Hópurinn sem er með einhverjar tekjur það er tekjur frá nokkur þúsund krónum og uppundir 110 þúsund á mánuði er mun fjölmennari. Samkvæmt upplýsingum frá TR voru tæplega 1800 með einhverjar atvinnutekjur fyrir tveimur árum, þeim fjölgaði í 2100 á síðasta ári ári og í ár er gert ráð fyrir að 2.700 manns, 70 ára og eldri verði með atvinnutekjur.