Wilhelm Wessman svaraði eftirfarandi, þegar hann var spurður um ástæður þess að hann gaf kost á sér í þessi málaferli: „Þegar kom að því að ég hæfi töku eftirlauna, varð mér fyrst ljóst hvernig ríkið tekur ófrjálsi hendi ævisparnað okkar. Ég neita að kalla greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum „ellilífeyri“. Eftirlaun eru áunnin réttindi sem ég hef öðlast með því að greiða í lífeyrissóð VR í fjörutíu og fimm ár og skatt frá 16 ára aldri og er enn að. Ég tók þátt í stofnun eins af lífeyrissjóðunum á almenna vinnumarkaðinum og var í samninganefnd Vinnuveitendasambandsins – nú SA – og þekki því tilganginn með stofnum lífeyrissjóðanna 1969. Þeir voru ekki stofnaðir til að niðurgreiða greiðslur frá TR heldur til að vera viðbót við greiðslur frá TR. Þeir þjóna sama tilgangi og sú fyrirhyggja að safna á bankareikning eða fara aðra fjárfestingaleið til að safna í handraðann til efri ára. Að skerða greiðslur frá TR um 45% hjá fólki í sambúð og 56,9% fyrir einbúa eftir að búið er að greiða skatt af greiðslum frá TR og lífeyrissjóðum, tel ég rán á sparnaði landsmanna. Ég hóf að vinna að þessu máli í hruninu með skrifum og viðræðum við forystumenn verkalýðsfélaganna og Forseta ASI. Þegar Grái herinn var stofnaður 2016 gekk ég til liðs við GH og hef barist fyrir þessu máli þar. Ég bauð mig strax fram sem kandídat til að fronta málið fyrir GH. Mér var fljótlega ljóst að niðurstaða í þessu mál næðist ekki fram með samningum, þar sem stjórnvöld eru ófáanleg til að ræða það. Eina leiðin sem er fær,er dómstólaleiðin“.
Ingibjörg H Sverrisdóttir, Sigríður J Guðmundsdóttir og Wilhelm W.G. Wessman