Nú er hægt að fá mjög góða íslenska tómata, bæði kirsuberjatómata og stærri tómata. Mjög gott er að láta þá þroskast vel á borði áður en þeir eru sneiddir niður í þetta salat sem einstaklega gott er að bera fram með fiski eða bæta í það hráskinku og bera það fram sem léttan málsverð með brauði, til dæmis hvítlauksbrauði.
500 g ferskir tómatar, sneiddir
1 rauðlaukur, fínt sneiddur
Maldon salt að vild
1 msk. hunang
1 búnt steinselja, gróft skorin
2 msk. balsamedik
4 msk. ólífuolía
2 hvítlauksrif
80 g möndluflögur, ristaðar
6 sneiðar hráskinka ef vill, t.d. frá Serrano
parmesan ostur sneiddur yfir
Skref 1
Sneiðið tómatana í fremur þunnar sneiðar og raðið á stóran disk ásamt lauksneiðunum. Dreifið maldonsalti og hunangi yfir og látið standa í allt að 30 mín. eða á meðan edikssósan er útbúin.
Skref 2 — edikssósa útbúin
Setjið steinselju, edikið, olíuna, hvítlauksrifin, helminginn af möndluflögunum og salt í matvinnsluvél og maukið saman. Ef blandan verður þykk þá skuluð þið bæta nokkrum dropum af vatni saman við.
Skref 3
Þræðið hráskinkuna inn á milli tómatsneiðanna og lauksins ef hún er notuð. Dreypið salatsósunni yfir og dreifið afganginum af möndluflögunum yfir og svo sneiddum parmesanostinum.