Maðurinn sem hrakti McDonald’s frá Íslandi er kominn á þing til að berjast fyrir íslensku borgarana — einkum eldri borgarana. „Réttur þeirra er fyrir borð borinn,“ segir hann fullur af ákefð, en hann er aldursforseti nýkjörins þings. „Ég er 72 ára og hef nú verið ráðinn í fjögurra ára vinnutörn. Ég verð 76 ára þegar þessu lýkur og þá er allt eins víst að ég haldi bara áfram. Það er eitthvað bogið við það samfélag sem sendir fólk um sjötugt heim þótt það hafi fulla heilsu og vilji gjarnan vinna. Þessu verður að breyta. Leyfum þeim að vinna sem vilja vinna. Burt með skerðingarnar!“
Blaðamaður Lifðu núna situr fyrir Tómasi Tómassyni, kenndum við Tommaborgara, í anddyrinu í WorldClass í Laugum. Dagskrá þingmannsins er orðin þéttskipuð, en það má iðulega hafa hendur í hári hans í ræktinni. Tommi hefur sinnt líkamsrækt frá árinu 1982 og það má margt út af bregða ef hann ekki mætir í ræktina. „Ég byrjaði í WorldClass 1986, aðeins ári eftir að fyrirtækið var stofnað, og hef verið þar síðan nánast í hverri viku.“ Hann segist reyna að fara fjórum sinnum í viku. „Ef maður fer einu sinni eða tvisvar getur maður haldið sér í horfinu, ef maður fer þrisvar er maður í þokkalegum málum, en sá sem fer fjórum sinnum í viku nær raunverulegum árangri. Takturinn skiptir máli.“
Góður sigur í kosningunum
Flokkur fólksins fékk góða útkomu í kosningunum laugardaginn 25. september sl., en hann bætti við sig næstflestum þingmönnum, eða tveimur. Annar þeirra er Tommi, oddviti í Reykjavík norður. Flokkurinn ætlar að útrýma fátækt og óréttlæti á Íslandi, svo að allir fái lifað mannsæmandi lífi. „Lífsgæði eru ekki einkaréttur útvalinna,“ sagði m.a. í kosningastefnu flokksins.
Ætlar ellilífeyrisþeginn að berjast fyrir réttindum eldri borgara? „Já, það ætla ég að gera og það er á stefnuskrá flokksins að leiðrétta ýmsan órétt sem eldra fólk er beitt,“ segir Tommi.
Hann segir að vaxandi meðalaldur þjóðarinnar kalli á róttækar aðgerðir sem þoli enga bið. „Það er ótrúlegt að Alþingi skuli koma í veg fyrir atvinnuþátttöku eldri borgara með því að skera niður atvinnutekjur þeirra með svo ofsafengnum hætti að fjárhagslegur ábati af atvinnu eldra fólks verður nánast enginn.“ Þetta segir hann að stangist á við allar rannsóknir sem sýni að vinna og virkni á efri árum stuðli að betri heilsu, dragi úr einangrun og hafi almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara.
Afnema skerðingar vegna atvinnutekna
„Eitt af okkar stærstu baráttumálum er að afnema skerðingar á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna. Það þarf alls ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð,“ segir Tommi. Hann er þess fullviss að ríkissjóður geti haft fjárhagslegan ávinning af slíkri aðgerð. „Sagan kennir okkur að samfélagið allt græðir á því ef allir sem vilja og geta unnið fái að vinna sína vinnu og greiða sína skatta.“
„Greiðslur frá Tryggingastofnun eru þannig núna að fólki eru skammtaðar 260–270 þúsund kr. á mánuði og það dugir varla,“ bætir hann við. „Það er á stefnuskrá okkar að eldri borgarar, ásamt öryrkjum og öðrum sem minna mega sín, hafi a.m.k. 350 þúsund kr. á mánuði, skatta- og skerðingalaust, eins og Inga Sæland hefur sagt. Þetta gerist auðvitað ekki bara með því að ýta á einhvern takka, góðir hlutir gerast hægt og nú er nýtt kjörtímabil okkar flokks að hefjast þar sem við munum halda áfram að berjast fyrir þessum umbótum.“
Tommi lætur sig einnig búsetuúrræði eldra fólks varða. „Það þarf að passa upp á það að eldra fólk búi á þeim stað sem passar því á hverjum tíma, þannig að þeir sem geti búið heima hjá sér og vilji það fái að gera það eins lengi og þeim er kleift. En þeir sem geta ekki búið heima hjá sér en þurfa ekkert endilega að fara á hjúkrunarheimili, þeir þurfa að hafa einhver úrræði í millitíðinni.“
Ekki slæmur kostur í ríkisstjórnarsamstarfi
Nú hafa nokkrir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks varpað fram þeirri hugmynd að flokkarnir bjóði Flokki fólksins til viðræðna um ríkisstjórnarsamstarf ef samningaviðræðurnar við Vinstri græna renni út í sandinn. Værir þú hlynntur slíku samstarfi?
„Ég tel mjög líklegt að stjórnarflokkarnir nái saman. Þeir hafa verið ánægðir með sitt samstarf og það má eitthvað mikið ske ef það slitnar upp úr viðræðunum. En við erum ekki slæmur kostur, nema síður sé, og það væri áskorun fyrir okkur að taka þátt í slíku samstarfi. Það eru þrír flokkar með 6 þingmenn og einn með 5 þingmenn. Píratar og Samfylking eru frá, af því að þeir hafa hafnað samstarfi við Sjálfstæðisflokk. Þá erum við eftir, ásamt Viðreisn, sem hefur 5 þingmenn. Það yrði þá öðrum hvorum þessara flokka, vænti ég, sem boðin yrði þátttaka. Ég vænti þess að það væri einfaldari kostur að velja okkur en Viðreisn, út af Evrópumálunum. Ég hugsa að við verðum samningsfús svo framarlega sem okkar stefnumál verða tekin til greina,“ segir Tommi.
Fyrirtækjarekstur í 40 ár
Tommi hefur víðtæka reynslu af atvinnurekstri en hann hefur staðið í fyrirtækjarekstri í rúm 40 ár. Búllan, sem hann rekur nú, hefur verið til í 17 ár. „Sonur minn er með mér í þessu núna og hefur svona snyrtilega ýtt mér aðeins til hliðar, þannig að ég er orðinn meira upp á punt. Það er mjög þægilegt að þurfa ekki að vakna á hverjum morgni og djöflast alveg fram undir miðnætti. Ég þarf að vísu að standa nýja vinnuvakt á þinginu núna, en ég fagna því bara. Ég er við ágæta heilsu og hef mikla orku og hlakka til að takast á við þingstörfin.“
Búllan vinsæl í Evrópu
Hamborgarabúllan er á 8 stöðum á Íslandi, nýjasti staðurinn var opnaður í síðustu viku í Spönginni í Grafarvogi. „Við erum frekar bjartsýn og finnum fyrir góðri áru í Grafarvogi,“ segir Tommi.
Búllan er einnig á 8 stöðum í nokkrum borgum Evrópu, þrír staðir eru í Berlín, tveir í London, einn í Oxford og tveir í Kaupmannahöfn. „Við vorum komin til Rómar þegar Covid skall á og þá brást allur rekstrargrundvöllur svo að við lokuðum þar. Síðan vorum við byrjuð í Noregi en lentum í erfiðleikum og ákváðum að hætta. Gengi Búllunnar hefur hins vegar verið lyginni líkast í Kaupmannahöfn, London og Berlín.“
Notalegt að eldast
En hvernig hefur Tomma gengið að eldast? „Ef maður viðheldur heilsunni, passar sig á að sofa nóg, drekka mikið vatn og borða hollan mat, þá er notalegt að eldast. Við megum ekki borða hamborgara á hverjum degi, en við megum borða hann stundum samviskulaust ef við hreyfum okkur vel.“
Tommi segir að það séu margir ótvíræðir kostir við það að eldast. „Maður getur verið með barnabörnunum eins og maður vill, en síðan skilar maður þeim bara aftur og segir „takk fyrir, gaman að vera með þér“ og pabbi og mamma sjá um afganginn.“
Hvers vegna við erum öll eldri borgarar
Tommi segist vera mjög spenntur fyrir því að setjast á þing og þakklátur fyrir tækifærið sem kjósendur hafa gefið honum. „Ekkert sem er einhvers virði í þessum heimi er auðvelt. Ég er vanur að hafa vindinn í fangið og þetta verður bara framhald af því,“ segir hann hvergi banginn.
„Lífið er ungs manns gaman, er stundum sagt. Þeir sem eru núna ungir að árum og óreyndir komast fyrr en þeir halda á ellilífeyrisaldur. Þess vegna erum við öll eldri borgarar. Gleymum því aldrei.“