„Vannæring, einmanaleiki allan sólarhringinn, einangrun, enginn til að ræða við, depurð, kvarta ekki, enginn að hugsa um þau, ótryggt fæðuöryggi, fæðuframboð lítið, slæmt næringarástand, vilja ekki láta hafa fyrir sér. Vannæring leiðir af sér pirring, óróa, minnisleysi, þunglyndi, kvíða og minnkaða hreyfifærni,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson Flokki fólksins í fyrirspurnatíma á Alþingi í vikunni og bætti við að þetta ætti við um þá sem hefðu minna en 200 þúsund á mánuði til ráðstöfunar og væru á aldrinum 77 til 93 ára og væru að útskrifast af öldrunardeild Landspítalans.
Guðmundur spurði heilbrigðisráðherra Svandísi Svavarsdóttur hvað væri verið að gera í málefnum þessa hóps. Heilbrigðisráðherra svaraði og sagði. „Ég vil segja í fyrsta lagi að eftir að hafa gegnt embætti heilbrigðisráðherra í ríflega 14 mánuði hef ég dregið út úr nokkur mál sem mér finnst ítrekað koma fram að sé ekki nægilega skýrt fyrir komið í íslenskri heilbrigðisþjónustu og þar er m.a. heilbrigðisþjónusta við aldraða. Af þeim sökum hef ég sett það mál sem sérstakt forgangsmál á yfirstandandi ári, á árinu 2019, og hef nú þegar átt fundi með lykilaðilum í heilbrigðisþjónustu við aldraða. Þá sagði ráðherra „þingmaður fer víða í fyrirspurn sinni og ræðir um vannæringarmál sem snúast að hluta um forvarnamál og í raun um heilsuvernd aldraðra, sem við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á.“