Veit ekki hvort ég verð að syngja 100 ára

Ragnar Bjarnason, eða Raggi Bjarna, er fyrir löngu orðin goðsögn í íslensku tónlistarlífi. Mikið hefur verið fjallað um feril hans og fyrir nokkrum árum var gerð heimildamynd um hann sem heitir, Með hangandi hendi.

Byrjaði að syngja 18 ára

Ragnar sem er Reykvíkingur í húð og hár hóf söngferilinn 18 ára gamall á dansleik á Hótel Kea með RS Tríóinu. Þar með var teningunum kastað og síðan hefur Raggi Bjarna sungið með fjölda hljómsveita og tónlistarmanna. Á hljómdiskum sem hafa verið gefnir út í tilefni afmælisins, er að finna vinsæl lög og perlur sem hann hefur gert ódauðleg. Hver man ekki angurværðina í „Svífur yfir Esjunni“, eða stríðnina í laginu, „Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig?“.   Þetta eru bara tvö dæmi af mýmörgum vinsælum lögum sem hann söng, en á nýju diskunum er auk þeirra að finna dúetta sem Raggi hefur sungið með öðrum og nokkur lög sem ekki hafa verið gefin út áður, svo sem lagið „Í draumi með þér“.

Þúsundir fóru út að dansa um helgar

Ragnar fékk diskinn í hendur í vikunni og þegar Lifðu núna sló á þráðinn til hans sagði hann að það væri gaman að hlusta á fyrstu lögin sem hann söng kornungur. „þetta lagast eftir því sem líður á plötuna“ sagði hann svo. Raggi Bjarna hefur í áratugi fylgst með skemmtanalífi landsmanna í gegnum sönginn. Hann söng til dæmis og spilaði í 19 vetur á Hótel Sögu, en á þeim árum fóru milli 3000 og 4000 manns út að dansa um helgar.

Með og án stjórnmálamanna

Sumargleðin fór svo um landið í 15 sumur og var geysilega vinsæl. Ragnar stofnaði hana ásamt Ómari Ragnarssyni. „Ég var búinn að vera að skemmta úti á landi með Sjálfstæðisflokknum og kynntist því hversu vinsælt það var. Svo ég sagði við Ómar „ Ef það er hægt að gera þetta með stjórnmálamönnunum, er líka hægt að gera það án þeirra“. Við héldum svo áfram í sveitinni í mörg ár, þar til sú hugmynd kviknaði að vera líka með þessa skemmtun í Reykjavík og það sló alveg í gegn“.

Nýleg mynd af Ragga Bjarna

Nýleg mynd af Ragga Bjarna

Enginn friður fyrir Ragga Bjarna

Ragggi skýrir velgengni sína í söngnum með því að hann hafi alltaf verið að. „Það hefur ekki verið neinn friður fyrir mér“, segir hann. „Ég er búinn að gefa út plötur, ferðast og syngja endalaust. Ég var svo heppinn að vera með lög sem slógu í gegn og var til dæmis fyrstur til að syngja lag Oddgeirs Kristjánssonar „Ég veit þú kemur“. En svo datt ég út úr þessu og fór að reka bílaleigu“. Það var Þorgeir Ástvaldsson sem hvatti Ragnar til að vera með afmælistónleika þegar hann varð sjötugur og þá má segja að söngferillinn hafi rokið af stað aftur af fullum krafti.

Fékk tvöfaldan tónlistarskammt

Ragnar sem á 80 ára afmæli  mánudaginn 22.september , segist taka hvern dag fyrir sig. Hann sé ekki lengur að leggja drög að tónleikum eftir ár. „Ég veit ekki hvort ég verð enn að syngja þegar ég verð 100 ára“, segir hann og hlær. En ferill Ragga er orðinn langur og farsæll. Tónlistin er honum í blóð borin. Kannski fékk hann tvöfaldan skammt því móðir hans Lára Magnúsdóttir söng líka með hljómsveit Bjarna föður hans um tíma og söng í kórum í mörg ár. Það var því mikið æft á heimilinu. Systkinin voru þrjú, en elsti bróðir Ragnars Ómar Örn, veiktist og lést aðeins 14 ára gamall.

Ragnar Bjarnason hefur sungið fyrir okkur í rúm sextíu ár. Á þessum tímamótum sendir hann kveðju til allra landsmanna. Tónlistin hefur verið stór þáttur í lífi hans og ætti að vera stór þáttur í lífi allra Íslendinga, segir hann.

 

Ritstjórn september 19, 2014 13:35