Með tilkomu verslana eins og Costco og Stórkaupa gefst almenningi nú kostur á að halda veislur sem áður var bara á valdi fagmanna að útbúa. Hægt er að kaupa tilbúna rétti, bæði smárétti og sætmeti, sem einungis þarf að setja í ofninn og hita eða setja tilbúna á borðið. Þetta einfaldar allan undirbúning gífurlega og minnkar stress og streitu og gestgjafar geta tekið á móti gestum sínum áhyggjulausir.
Veitingar sem falla fermingarbarninu í geð
Veitingarnar í fermingarveisluna vefjast fyrir mörgum því ekki er víst að smekkur fermingarbarnanna og félaga þeirra sé sá sami og gestanna í veislunni. Flestir leyfa fermingarbarninu að ráða en oft er smekkurinn einhæfur og ekki víst að hann falli að smekk gestanna sem flestir eru eldri en gestgjafinn sjálfur. Þá eru góð ráð dýr og sú hætta skapast að reyna eigi að gera öllum til hæfis og þá er það regla frekar en undantekning að veitingarnar verða allt of miklar.
Kökuboð
Fermingarbarnið á eflaust uppáhaldstertu og þá er hún auðvitað bökuð eða keypt. Margir taka það ráð að búa til rice-crispies kransaköku því þær falla fermingarbarninu oft betur í geð en marsípankransakaka og er auk þess mjög falleg á fermingarborðinu.
Pönnukökur vinsælar
Gamaldags pönnukökur með sykri eru oftast það fyrsta sem klárast í fermingarboðum því bæði þeir sem yngri eru og eldri njóta þeirra undantekningarlaust. Svo má með lítilli fyrirhöfn þeyta rjóma og skera niður litfögur ber og hafa á borðinu fyrir þá sem vilja.
Hugmyndir að réttum sem kaupa má tilbúna
Óhætt er að treysta því að flestum líkar eftirfarandi smáréttir: litlar hakkbollur, kjúklingaspjót, djúpsteiktar risarækjur, beikonvafðar döðlur, ostapinnar. Mörgum
finnst gaman að útbúa eitthvað sjálfir og þá er tilvalið að útbúa ólífuostakúlur og skinkuhorn með fyrirvara og frysta. Meðaltal af smáréttum á hvern gest eru 13 bitar svo einfalt er að reikna út magnið miðað við það. Meðalfjöldi kökusneiða úr hverri köku eru 12. Hver gestur borðar að meðaltali 2-3 sneiðar. Óhætt er að fara eftir þessum útreikningum sem fagmenn hafa fundið út að eru raunhæfir. Allt umfram er hætta á að lendi í ruslinu.