Það ræðst í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur hvort ríkinu tekst að fá máli Gráa hersins vegna skerðinganna vísað frá. Skerðingarnar í almannatryggingakerfinu hafa verið mjög umdeildar áratugum saman. Mál Gráa hersins snýst um hvort það standist eignaréttarákvæði og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að skerða ellilífeyri vegna lífeyrissjóðsréttinda með þeim hætti sem gert hefur verið á umliðnum árum. Það er að segja um 45% af lífeyristekjum og um tæp 57% þegar tekið er tillit til heimilisuppbótar. Ríkislögmaður hefur gert athugasemdir við formhlið málsins. Í greinargerð hans er ekki gerð krafa um frávísun en fullyrt að vísa beri málinu frá dómi án slíkrar tillögu. Hvað dómarinn gerir í málinu ræðst eftir hádegið í dag, þegar fjallað verður um það í Héraðsdómi. Um 45.000 manns hér á landi eru 67 ára og eldri. Þeir fá ekki allir greiðslur frá Almannatryggingum eða TR, enda er nokkur hópur manna sem hefur það háar tekjur, að hann fær engar greiðslur þaðan. Aðrir fá tekjur sínar ýmist bæði frá lífeyrissjóðum og Almannatryggingum (TR), eða eingöngu frá Tryggingastofnun eigi þeir engin lífeyrisréttindi. Mikil óánægja með skerðingarnar, er ástæða þess að Grái herinn telur brýnt að fá úr málinu skorið fyrir dómstólum. Verði málinu visað frá Héraðsdómi, mun Grái herinn kæra þá niðurstöðu til Landsréttar.
Það verður spennandi að fylgjast með máli Gráa hersins á morgun.