Sætavísa í Austurbæjarbíói

Rut Þorsteinsdóttir um svipað leyti og hún var sætavísa í Austurbæjarbíó

Rut Þorsteinsdóttir um svipað leyti og hún var sætavísa í Austurbæjarbíó

Ég man hvað mér þótti þetta spennandi starf“,  segir Rut Þorsteinsdóttir sem vísaði til sætis í Austurbæjarbíói í Reykjavík á sjötta áratugnum,  þegar hún var 14 ára.  Hún segir að fram að því hafi þetta almennt verið strákastarf.  En unglingar höfðu allar klær úti til að útvega sér vinnu og það þótti sérstaklega spennandi að vinna í bíó.

Gaman að ganga um með vasaljós

Rut hafði töluvert fyrir því að krækja sér í sætavísustarfið og byrjaði á því að kynnast konunni sem sá um sælgætissöluna í  Austurbæjarbíói.  Hún kynntist líka miðasölu konunum og dyravörðunum og að lokum rann upp sú stund að hún fékk vinnu við að vísa til sætis. Henni fannst virkilega gaman að ganga um með vasaljósið eftir að búið var að slökkva í salnum og segir að miðar í almennum sætum hafi verið vinsælir, en það var líka hægt að kaupa sér miða í „betri sæti“.

Myndir Doris Day eftirminnilegar

Hluti af því hvað starf sætavísunnar var spennandi, var að það var hægt að sjá allar kvikmyndasýningar í húsinu ókeypis, en á þessum tíma höfðu unglingar hreint ekki mikil auraráð.  Rut sem var mikið fyrir söng og dans, eru myndir með Doris Day sérstaklega eftirminnilegar, enda söngva- og dansmyndir. Svo var Roy Rogers auðvitað ómissandi á sunnudögum. Hún átti búnt af leikaramyndum, en mikið var gert af því að skiptast á þeim.

Svavar var svo skemmtilegur

En Austurbæjarbíó sem var byggt um miðbik síðustu aldar,  þótti glæsilegt hús og þar voru haldnar alls kyns skemmtanir.  Svavar Gests sá til að mynda á tímabili, um bingó í Austurbæjarbíói sem Rut segir að hafi verið mjög vinsæl.  Vinningarnir voru hafðir á borðum á sviðinu.  Rut segir að á þessum tíma hafi ekki verið mikil afþreying í boði almennt.  Engar voru tölvurnar og sjónvarpið var ekki byrjað.  „Það var fullt út úr dyrum hjá Svavari“ rifjar hún upp „Hann var svo skemmtilegur!“

 

 

Ritstjórn september 26, 2014 14:11