FÖSTUDAGSBAKA með skinku og grænmeti frá Ernu Svölu.

Nú líður að tíma þar sem kjöt er oft fyrirferðamikið í máltíðum. Þá er tilvalið að búa til grænmetisböku til tilbreytingar síðustu dagana fyrir jólin.

Bökubotn:

250 g hveiti,

125 g smjör

1/2 tsk. salt

1 eggjarauða

2-3 msk. kalt vatn

Setjið hveiti, smjör, salt og eggjarauðu í matvinnsluvél og hrærið vel. Ísvatni bætt saman við og hrært þar til deigið er orðið að einni heild. Best er að kæla deigið í 1-2 klst.

Bökusneið með grænmeti og fetaosti.

Fletjið deigið út og leggið í 25 cm bökuform þannig að það þeki bæði botn og hliðar. Stingið í deigið með gaffli og forbakið við 180°C í u.þ.b. 15-20 mín.

Fylling:

1 stór pakki skinka, skorin í bita

1/3-1/4 kúrbítur, sneiddur

álíka stór biti af vorlauk, gróft saxaður

1 tsk. ólífuolía

salt og svartur pipar

1-2 hnefafylli af spínati sem búið er að skola vel

3-4 egg, fer eftir stærð

u.þ.b. 1 dl rjómi

rifinn ostur, gjarnan bragðmikill s.s. Cheddar

salt og pipar 

ferskt tímian, fínt saxað

Dreifið skinkunni jafnt yfir forbakaða botninn. Léttsteikið kúrbítinn og vorlaukinn, kryddið og dreifið jafnt yfir skinkuna. Þerrið spínatið vel og leggið yfir. Þeytið eggin vel saman, bætið rjómanum, rifna ostinum og kryddinu saman við og hellið yfir grænmetið.

Bakið bökuna í miðjum ofni við 180 °C í u.þ.b. 30-40 mínútur eða þar til hún er orðin gullinbrún og falleg.

Berið fram með fersku salati og kaldri sósu (t.d. grísk jógúrt, harissamauk, aromat og hunang)

 

 

 

 

Ritstjórn desember 15, 2017 11:11