“Þeir eru menn eins og við”

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Sumarið  1971 vann ég á sumarhóteli úti á landi.  Eins og títt var þá, og er enn að einhverju leyti, var þetta sumarhótel í heimavistarskóla.  Ég vann í gestamóttökunni. Á þessum árum var annar blær yfir ferðamannastraumnum til Íslands en sá sem er í dag. Ferðamennirnir komu nær alfarið yfir sumarmánuðina  og flestir komu frá Vestur-Evrópu, mest frá Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi, og svo frá Bandaríkjunum. Okkur fannst bandarísku ferðamennirnir bestir, því þeir greiddu okkur gjarnan ríflegt þjórfé, þegar þeir gerðu upp reikninginn.

Gestakomur á hótelið gengu í bylgjum, stundum var það yfirfullt og svo komu dagar þar sem fáir eða engir gestir dvöldu á hótelinu.  Einn rólegan dag, þegar hótelið var næstum tómt, komu tveir óvelkomnir og óvenjulegir gestir að gestamóttökunni og báðu sér gistingar. Þetta voru tveir ungir menn, fremur lágvaxnir, með kolsvart hár, dökkbrún augu og brúnan hörundslit.  Ég áttaði mig fljótt á því, að þetta voru hermenn frá herstöð Bandaríkjamanna í Keflavík af fillipískum ættum, en á þessum árum gátu ungir menn frá Fillipseyjum öðlast bandarískan ríkisborgararétt með því að gegna herþjónustu í bandaríska hernum.  Þeir spurðu mig hvort ég hefði laust herbergi og án þess að hugsa mig frekar um, þá játaði ég því. En um leið og ég hafði gert það, fór um mig sú ónota tilfinning, að ég hefði gert eitthvað rangt. Þó enginn hefði orðað það við mig, þá skynjaði ég, að gestir af þeirra tagi væru ekki velkomnir á hótelið. Þeir voru ekki aðeins dökkir á lit, þeir voru líka hermenn í bandaríska hernum, en bandarískir hermenn voru ekki vel séðir gestir á opinberum stöðum á Íslandi á þessum árum. Til að takmarka skaðann, þá úthlutaði ég þeim versta og óvinsælasta herbergið á hótelinu, sem var innst á gangi á jarðhæð hússins.  Þeir fáu gestir sem voru á hótelinu þennan dag, voru á annarri hæð og myndu ekki, að ég taldi, hafa óþægindi af þessum óvæntu gestum.

Skynjun mín reyndist rétt. Þegar hótelstýran uppgötvaði að ég hafði leigt út herbergi til hörundsdökkra hermanna, varð hún æva reið og kallaði mig inn á skrifstofu og skammaði mig fyrir að hafa gert það.  Ég, sem var ung og óreynd, átti erfitt með að verja mig og réttlæta minn gjörning, en mér til láns, þá gekk eiginkona skólastjóra heimavistaskólans, sem bjó í húsi rétt hjá, inn á skrifstofuna og spurði hvað um væri að vera. Hótelstýran útskýrði málið og eftir að heyra um hvað það snérist, gekk kona skólastjórans upp að skrifborði hótelstýrunnar þar sem hún sat, hallaði sér fram að henni og sagði setningu, sem festist í huga mér og situr þar enn. Hún nefndi hótelstýruna á nafn og sagði með festu, “Veistu það að þetta eru menn eins og við.”

Þetta atvik hefur sótt mjög á huga minn að undanförnu, nú þegar flóttamenn frá fátækum og oft stríðshrjáðum löndum, streyma til norðurs, bæði til Evrópu og til Bandaríkjanna, í leit að hæli.  Viðbrögð margra vesturlandabúa eru af svipuðum toga og  hótelstýrunnar forðum. Að margra mati eiga þessir gestir ekkert erindi hingað inn, þeir eru okkur óæðri, og nærvera þeirra er óæskileg, ef ekki skaðleg. Trump forseti hefur gengið svo langt að halda því fram að þeir séu upp til hópa nauðgarar, glæpamenn og hryðjuverkamenn.  – En sem betur fer eru til aðrir, sem hugsa eins og kona skólastjórans, og telja að flóttafólkið sé, eins og við, líka menn. – Sú vitneskja veitir mér von.

Ég hef engum sagt þessa sögu fyrr en nú, nema manninum mínum. Ég skammaðist mín lengi mikið fyrir þetta atvik.  Skömm mín var tvöföld: Ég skammaðist mín fyrir að hafa ekki gert það sem ég átti að gera og neitað þessum mönnum strax um herbergi á hótelinu. Ég skammaðist mín líka fyrir að hafa beitt þessa menn misrétti og visvítandi sett þá í óvinsælasta herbergi hótelsins, þegar mörg betri herbergi stóðu tóm. – Ekki  löngu áður höfðu íslensk hjón lent í sama herbergi og þeir, en þá var hótelið fullbókað og ekkert annað herbergi í boði. Eftir að hafa litið á herbergið komu þau til mín, öskureið, skiluðu lyklunum, sögðust ekki láta bjóða sér annað eins  og strunsuðu út af hótelinu.

 

 

Inga Dóra Björnsdóttir mars 25, 2019 07:07