Tengdar greinar

Falið leyndarmál í fjölskyldum

Í áhugaverðri grein eftir Kim Holsey á vef Sixty and me, kemur fram að gífurlegur fjöldi kvenna lendir í þeim ógöngum að erfitt reynist að “slíta naflastrenginn” eftir að börnin verða fullorðin.

Allar fjölskyldur mæta áskorunum og mismunandi málum að vinna úr. Þetta eru ekki alltaf alvarleg vandamál en allir þurfa að greiða úr einhverjum flækjum sem upp koma.

Á sama tíma og börnin eru orðin fullorðin og fara að takast á við lífið eru mæður þeirra að fara í gegnum skeið í sínu lífi sem tengist oftast töluverðum breytingum, enda kallað breytingaskeiðið.

Nú segja fræðingar að hormón sem líkami kvenna framleiðir á meðgöngu og kemur af stað óstjórnlegri verndunarþörf, sé viðvarandi í líkama þeirra í allt að þrjátíu ár. Þetta þýðir að einmitt þegar börnin eru á þrítugsaldri og á leiðinni út í lífið eru mæður þeirra oft að fara í gegnum erfitt skeið. Lífið hefur gengið sinn veg á mismunandi hátt. Börnin hafa fundið sinn farveg, inn í líf þeirra er kominn einstaklingur með nýjar þarfir og þrár sem þeirra eigið barn þarf að uppfylla og þá verða mæður stundum útundan. Lífið hefur þá tekið á sig aðra mynd en móðirin sá fyrir sér. Lífið getur orðið erfitt á þessum tímapunkti og það er ekki til neitt sem heitir  “venjuleg eða eðlilegt” fjölskylda. Sú fjölskylda er einfaldlega ekki til.

Að skilja við uppkomin börn

Konur eru gjarnan í hlutverki “þess ábyrga” þegar kemur að samskiptum í fjölskyldum. Mæður vilja vera verndandi í hverju tilviki og taka ábyrgð ef eitthvað fer úrskeiðis í lífi barna þeirra. Þegar táningar lenda á veggjum í lífinu, eins og yfirleitt gerist, vilja mæðurnar taka við sársaukanum svo börnum þeirra líði betur. Og það er nákvæmlega sama tilfinningin sem eldri konur finna í garð fullorðinna barna sinna. Þær setja sjálfar á sig þá pressu að þær eigi að taka á sig alls konar byrðar og þegar inn í líf þeirra hafa komið stjúpbörn á leiðinni geta hlutirnir orðið verulega flóknir. Upp geta komið tilvik í lífi barna okkar sem við höfum nákvæmlega enga stjórn á.

Og þá getur komið upp sá tími að við hugsum sem svo að frekar en lemja sjálfar okkur niður fyrir það sem við höfum enga stjórn á sé nú kominn tími til að segja skilið við uppkomin börn okkar. Þá hefst tími þar sem sársauki og eftirsjá kemur upp á yfirborðið alveg eins og þegar hjónaskilnaður á sér stað.

Nýja fjölskyldan eða foreldrarnir

Það munu verða tímar þar sem augljóst er að börn ykkar eru nauðbeygð til að taka afstöðu til þess hvort þau eiga að láta sína eigin nýju fjölskyldu eða foreldra sína ganga fyrir. Við verðum að skilja að það hefur ekki svo mikið með okkur að gera heldur er að verða til nýtt jafnvægi í lífi barna okkar og við verðum að virða það og stíga til baka. Sama hversu erfitt það er. Við verðum að semja frið við sjálfar okkur þótt nú sé lífið ekki í þeim farvegi sem við héldum að það yrði eða kysum helst. Við höfum reynt að gera okkar besta og meira verður ekki gert. Mestu máli skiptir að vera í friðsamlegum samskiptum við börn okkar og fjölskyldu þeirra en alls ekki reisa veggi sem verða ekki rifnir niður þótt þessi skilnaður þurfi að eiga sér stað. Það getur tekið mörg ár að græða sár sem verða við hjónaskilnað og flestir segja: “Ég myndi aldrei skilja við börnin mín.” En þegar öllu er á botninn hvolft getur það verið það eina sem þú getur gert til að halda andlegri heilsu og “þú getur gert það” segja þeir fræðingar sem hafa fengist við þetta vandamál árum saman. Að skilja við fullorðin börn okkar er oft það eina sem við getum gert til að viðhalda andlegri heilsu. Við verðum að komast á þann stað að við samþykkjum ástandið eins og það er. Þá verðum við að samþykkja að börnin okkar muni verða hluti af lífi okkar á annan hátt en verið hefur. Það gerist ekki yfir nótt og við verðum að finna leið til að græða hjartasárin. Við getum ekki falið okkur á bak við þá blekkingu að hlutirnir verði eins og þeir voru eða eins og við vildum helst að þeir væru.

Höldum andlegri heilsu

Við verðum að sjá hvernig við höldum andlegri heilsu þrátt fyrir allt og allt. Það gerum við með því að sætta okkur við að börnin okkar fengu vængi eftir að við vorum búin að undirbúa þau fyrir lífið og að það getur aldrei verið í okkar höndum  hvert flugið var tekið.

Þýtt af vef sixtyandme.com

Ritstjórn september 8, 2020 13:20