Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar
Ég er í eðli mínu frekar jákvæð og hef alltaf litið á það sem mikilvægan eiginleika. Í gær skipti lýsingarorðið jákvætt um merkingu og varð allt í einu mjög neikvætt. Ég fékk símtal þar sem mér var tjáð að sýnið mitt hefði reynst jákvætt. Ergo – ég er með Covid. Þetta var útkoman úr hraðprófi fyrirtækis úti í bæ. Ég beðin um að fara á Suðurlandsbraut næsta dag og fá PCR-próf því til endanlegrar staðfestingar að ég væri jákvæð.
Tilveran hrundi. Ég fór strax inn á heimasíðu covid.is og sá að ég ætti að vera í einangrun í 14 daga, má ekki hitta fólk, má ekki fara út í göngu. Ekkert. Ég sem er fullbólusett og finn ekki fyrir neinum einkennum og finnst ég sjaldan hafa verið hressari. En inni í mér grasserar Covid. Ég horfði á mig í spegli og fannst ég ekki þekkja sjálfa mig í sambýli við þennan nýja óvin. Það er eitthvað mjög ógeðfellt við þetta ástand. Þetta getur ekki verið satt. Ég sem er búin að passa mig og virða allar varúðarreglur frá fyrsta degi í Covid.
Hvað nú? Mér finnst ég vera eins og fangi í þröngu búri. Fyrir utan gluggana er sumarið á harðahlaupum. Reyniberin orðin brún sem er merki um síðsumar. Í ísskápnum er ostbiti, smjördós og tvær krukkur af sultu. Í skúffunni er þurrkað mango, pasta og pakki af kexi og nokkrir súputeningar. Dreggjar af kaffi í krús. Þetta ætti að duga í einhverja daga. Ég er heldur ekki svöng og langar ekki í neitt. Mig langar mest til þess að leggjast í dvala næstu tvær vikur.
Eftir svefnlausa nótt, í svitakófi og með höfuðverk, læðist ég út með grímu og Covid-stimpil á enninu. Ég fer í endalausa röð fólks sem var að fara í PCR-próf. Í huganum bið ég unga strákinn sem tók sýni úr nefi og koki að fara varlega þar sem ég væri jákvæð. Á leiðinni heim fann ég sterkt fyrir því að ég væri að fara í síðustu gönguna mína næstu vikur.
Þegar heim er komið skrifa ég þennan pistil til þess að dreifa huganum. Ég er þegar búin að þurrka af og moppa gólfin og svara tölvupóstum sem ég hef ekki svarað af ýmsum ástæðum. Enn er klukkan bara 10.00 á fyrsta degi af fjórtán. Nú bíð ég eftir beinni útsendingu kl. 11.03 með Þríeykinu sem ég var löngu hætt að hlusta á. Kannski er ráð að gúggla færar leiðir til þess að ná sálarró. Það er sennilega eina vopnið í biðinni. En fyrst verð ég að ná ró til þess að geta farið að leita leiða til þess að öðlast hana. Þetta er nokkurs konar pattstaða og sálarró hefur aldrei verið mín sterka hlið. Mér er til efs að mér takist að finna hana í þessu óvænta sambýli við erkifjandann.
Klukkan tikkar og ekkert SMS frá heilsugæslunni um niðurstöður. Klukkan verður 12.00, 14.00, 16.00. Ég fæ loks SMS á sautjánda tímanum um að mín bíði skilaboð á Heilsuveru. Titrandi reyni ég að komast inn á umrædda síðu, en hún lá niðri af álagi. Eftir hálftíma stress tekst mér loksins að komast inn: Þú ert ekki með Covid-19, en það þýðir ekki að þú getir ekki fengið sjúkdóminn síðar. Þvílíkur léttir.
Í þessu ferli opnuðust augu mín fyrir því hvernig er að fá tilkynningu um að maður sé með Covid-19. Fréttir staðfesta að full bólusetning er ekki trygging og því er eins gott að fara varlega og halda sig til hlés enn um skeið. Nú get ég aftur horfst í augu við mig í speglinum og upplifi að líf mitt sé aftur í lit, en ekki í svart-hvítu.