Lambakjötsréttur ættaður frá Indlandi

Nú er sláturtíð að ganga í garð og auðvelt er að verða sér úti um gott lambakjöt. Hefðburndnir íslenskir réttir eru góðir og flestir eiga uppskriftir að slíkum réttum í fórum sínum en hér er sérlega skemmtilegur indverskur réttur sem íslenskt lambakjöt fer mjög vel í en einnig má nota kjúklingakjöt í þennan rétt.

700 g lambakjöt, innralæri eða kjúklingakjöt

3 laukar

2-3 tsk. kóríanderfræ

1 tsk. chili pipar

30 g cashew hnetur, saxaðar

8-10 hvítlauksrif, söxuð

1 1/2 dl ab mjólk

1 1/2 dl rjómi

1/8 tsk. saffran duft

1/2 tsk. garam masala krydd

1 tsk. salt eða eftir smekk

1/2 bolli olía til steikingar

Saxið einn og hálfan lauk, blandið kóríanderfræjum, chili pipar og söxuðum hnetum saman við og bætið svolitlu vatni saman við. Leggið kjötið í löginn og stráið salti yfir. Látið standa í lokðu íláti í tvo klukkutíma. Skerið síðan laukinn sem eftir er í sneiðar og léttsteikið ásamt söxuðum hvítlauknum og látið á disk. Steikið marínerað lambakjötið eða kjúklinginn í olíu á pönnu við vægan hita ásamt lauk og kryddi úr maríneringunni þar til vökvinn hefur gufað upp. Blandið ab mjólkinni saman við og látið þetta sjóða við vægan hita í 40 mínútur. Ef notaður er kjúklingur er óhætt að stytta þennan tima í 25 mínútur. Blandið nú steikta lauknum og hvítlauknum saman við. Látið réttinn síðan í eldfast mót, hellið rjómanum yfir og stráið saffran duftinu yfir það. Stráið síðan garam masala duftinu yfir og látið bakast í ofni í 15 mínútur við 120 gráður á celsius. Stráið söxuðum kóríander laufum yfir kjötið og berið fram með naan brauðum, fást tilbúin í stórmörkuðum.

Jógúrtsósa:

1/2 l ab mjólk

1/4 tsk. salt

1/4 tsk. sykur

1 tsk. cumin fræ

1/2 rifin agúrka

paprika eða steinselja til skrauts

Blandið öllu saman og berið fram með lambakjötsréttinum. Gott er að bera hrísgrjón fram með þessum rétti.

Ritstjórn september 11, 2022 19:21