Esther Helga Guðmundsdóttir er ástríðufull manneskja og hún hefur þörf fyrir að vinna við það sem hún brennur fyrir. Í áratugi hefur hún boðið uppá meðferðir við matarfíkn og átröskunum, ásamt öðrum fíknum. Hún hefur meðan annars nýtt 12 spora módelið í þeim meðferðum. Hún hefur því góða innsýn í hversu áhrifaríkt það prógram getur verið fyrir þá sem kjósa að vinna eftir því.
Esther Helga verður fyrirlesari hjá Emotions Anonymous samtökunum 1. október n.k. þar sem hún fer yfir 12 spora prógramm EA samtakanna og hvernig það nýtist m.a. fyrir þá sem vilja vinna að tilfinningalegu jafnvægi og heilbrigði. Samtökin eru að bjóða uppá og byrja með sporavinnu í framhaldi af þessari kynningu sem verður haldin í Digraneskirkju, einnig verður hægt að vera með á þessum fundi með Zoom fjarfundabúnaði.
„Emotions Anonymus-samtökin eru tólf spora samtök,“ segir hún. „Þau hafa verið hér á landi í nokkuð mörg ár en ekki áberandi. Ný deild hóf göngu sína í vor í Digraneskirkju og vonast er til að þegar fólk fær vitneskju um þetta frábæra starf, að það nýti sér samtökin. Undanfarið hafa samtökin verið að þýða verkefnabók frá EA-heimssamtökunum sem kennir fólki að leiða og styðja hvert annað í gegnum EA-sporavinnuna, en þar liggur grundvallartækni sem getur umbreytt tilfinningalegum vanda.
Við þurfum öll að takast á við erfiðleika, en margir festast í sárum tilfinningum, gremju og reiði. Þau upplifa sig fórnarlömb aðstæðna og ráða ekki við að stíga útúr þessum vítahring. Í sporunum 12 búa leiðbeiningar sem hjálpa einstaklingum að stíga út úr tilfinningalegri þráhyggju og öðlast ró. EA-samtökin geta nýst fólki almennt til að öðlast og viðhalda heilbrigði í líðan og tilfinningum og læra að lifa með óleystum vandamálum. Allir eru velkomnir á fundi EA og þar hittist fólk á öllum aldri. Allt sem þarf til er löngun til að byggja upp tilfinningalegt heilbrigði og öðlast sálarfrið. Í samtökunum er boðið upp á nafnleynd, trúnað og kærleika.“
Fíknivandi getur valdið tilfinningalegum misþroska
„Við getum verið í alls konar viðjum og þessar viðjur stjórnast af því að eitthvað triggerar ákveðna líðan og tilfinningar“ heldur Esther Helga áfram. „Síðan, ef við höfum deyft líðan okkar með t.d. mat, áfengi, vímuefnum eða hegðunum eins og tilfinningaþráhyggju og meðvirkni, þá höfum við misst af því að læra að takast á við vandamál sem upp koma. Við kunnum ekki að takast á við tilfinningar okkar og spólum alltaf í sama farinu. Við náum ekki að takast á við sársauka, gremju, ótta og kvíða. Við upplifum vanmátt og eina leiðin sem við þekkjum er að sökkva okkur í hegðun og neyslu sem tímabundið svæfir vanlíðanina.
Fíkn eða árátta, hvort sem hún er inntöku- eða hegðunartengd, hefur bein líffræðileg áhrif á og kveikir á verðlaunastöðvum heilans. Það er eitthvað vont að gerast og ég fer bara og fæ mér snúð, allar kökurnar í bakaríinu eða dett bara í það. Við lærum að svæfa allar tilfinningar og tökumst ekki á við þær þannig að þegar við vöknum úr doðanum, höfum við ekki verkfæri, höfum ekki þroskast á eðlilegan hátt til að takast á við lífið og tilveruna. Það má segja að fíknivandinn sé misþroski. Ég veit ekki um neinn sem ekki hefur þurft að glíma við eitthvað. Við höfum öll lent í alls konar og það hefur áhrif á tilfinningalíf okkar. Í lífi mínu og starfi get ég vitnað um hversu ómetanlegt 12 spora starf er, það gefur okkur tól til að takast á við lífið og tilveruna.“
Esther Helga er M.Sc. sérfræðingur í kennslu og meðferðum við matarfíkn og átröskunum, hefur rekið MFM miðstöðina frá árinu 2006 og er enn á fullu að vinna. Hún hefur að eigin sögn glímt við matarfíkn og átraskanir, en hefur verið í stöðugu fráhaldi og bata við vandanum í tuttugu og tvö ár.
„Ég stofnaði einnig, ásamt öllum helstu fagaðilum í heiminum, INFACT skólann (Alþjóðlegan skóla fyrir fagfólk í meðhöndlum á skjólstæðingum sem fá greiningu á matarfíkn) sem ég stjórna og þar kennum við fagfólki og vinnum markvisst að því að fá viðurkenningu á matarfíkn sem fíknisjúkdómi,“ segir hún. „Við höfum nú þegar sent umsókn til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í þeirri viðleitni, við fengum neitun þá og erum að endurskoða þá umsókn. Svo er verið að vinna í að senda umsókn á amerísku geðlæknasamtökin fyrir samþykki fyrir „ultra processed food addiction“ sem fíknivanda, svo það er mikið í gangi.
Hjá INFACT kennum við meðferðarúrræði sem hafa verið stunduð við matarfíkn sem fíknisjúkdómi í yfir 40 ár. Þetta eru sambærileg úrræði og byggja á sömu gildum og notuð eru við öðrum röskunum og fíknivanda.
Hingað til hefur mest verið unnið með ofþyngd með megrunar- eða heilsuúrræði í huga og fáir í heiminum unnið með meðferðarúrræði sem líta á vandann sem fíknisjúkdóm vegna þess að við höfum ekki enn fengið þessa viðurkenningu. Ég er þess vegna búinn að vera með nefið svolítið ofan í grasrótinni og það er pínulítið þreytandi en ég ætla að þrjóskast áfram eitthvað í viðbót. Við erum búin að útskrifa næstum hundrað og þrjátíu manns inn í þessa nýju starfsgrein sem viðurkenndur matarfíknifræðingur svo ég fer að verða bara nokkuð ánægð með minn hlut í þessu prógrammi.“
Spennandi frumkvöðlastarf
Esther Helga segir að bæði séu margar rannsóknir í gangi og yfirþyrmandi niðurstöður til úr öðrum sem styðji það að matarfíkn sé sjúkdómur sambærilegur við aðra fíknisjúkdóma.
„Það hefur verið mjög spennandi að taka þátt í þessu og ýta þessu úr vör. En svo þurfa aðrir yngri að taka við og gera meiri rannsóknir. Ég nenni því ekki,“ segir hún og hlær.
En hún hefur ekki bara hugsað um heilsuna og reynt að hjálpa fólki að ná bata heldur einnig andann og þá upplyftingu sem hægt er að fá úr söng og tónlistariðkun.
„Já, mín fyrsta háskólagráða var í óperusöng og tónlist við Indíanaháskólann í Bandaríkjunum. Ég var með í Óperusmiðjunni, stofnaði Söngsmiðjuna sem síðar varð Söngsetur Estherar Helgu og stundaði söngkennslu og kórastarf mjög lengi. Ég hætti ekki að starfa við það fyrr en ég náði bata. Ég var mjög lasin af átröskun og matarfíkn allan þann tíma. Um leið og ég náði bata vissi ég að ég vildi gera eitthvað í þeim málum. Ég fór að leita að námi þar sem ég gæti lært af fólki og fann ACORN en þau voru að byrja með tilraunakennslu þar sem þau kenndu meðferð við matarfíkn. Ég tók þátt í því starfi og þau hafa síðan verið samstarfsaðilar mínir og áttu þátt í stofna INFACT skólann ásamt fleira fagfólki víðar að.
Ég var líka eiginlega búin að fá nóg í tónlistarstarfinu. Ég var frumherji þar líka og hafði boðið upp á námskeið fyrir laglausa og lagvísa, námskeið í söngleikjasöng og setti upp Grease og gerði margt skemmtilegt. Ég hitti ennþá fólk sem var hjá mér í söngnámi og það er alltaf jafngaman að hitta gamla nemendur en það voru mörg hundruð manns sem lærðu hjá mér á þessum tíma. Margir þorðu í framhaldinu að fara í kóra og halda áfram að vinna með söngröddina sína og láta drauma sína rætast. Ég fann hins vegar aðra ástríðu en það var meðferðir við matarfíkn. Sjálf fékk ég ekki meðferð því það var enga að fá. Ég er nokkuð viss um að hefði ég fengið greiningu og leiðbeiningu fyrr hefði ég ekki þurft að þjást svona lengi. Það er hreinlega niðurbrjótandi fyrir einstakling að glíma við matarfíkn og átröskun og ná aldrei tökum á vandanum því hann fær ekki réttar leiðbeiningar og meðferð.“
Áföll og fíkn er sitt hvort
Undanfarið hafa orðið miklar framfarir bæði í viðhorfum til fíknisjúkdóma og hvernig meðferð er veitt við þeim meðal annars er unnið með tengsl áfalla og fíknar. Fylgist þið með þessu hjá MFM miðstöðinni?
„Að sjálfsögðu og vissulega þarf að vinna með áföllin en fyrst þarf að vinna með fíknisjúkdóminn,“ segir hún með áherslu. „Það er númer eitt, tvö og þrjú. Þetta er sitt hvort. Áfall er áfall og fíkn getur sannarlega þróast sem afleiðing af áfalli en það er sérstakur sjúkdómur sem þarf að vinna með. Sumir skilja ekki þennan mun og telja að nóg sé að vinna með áfallið og þá sé allt komið. En svo er ekki. Ef við höfum þróað með okkur fíknisjúkdóm hafa orðið ákveðnar breytingar í heilanum. Það hafa orðið persónuleikabreytingar og til að ná bata þurfum við prógramm sem hjálpar okkur að snúa þeim breytingum við.
Fólki getur gengið vel í megrunum og meðferðum sem það fær, en getur svo ekki viðhaldið árangrinum. Það kemur alltaf einhver rödd sem segir: Nei nú getur þú stjórnað þessu, þú getur fengið þér, þú trúir þessu, færð þér og svo fer allt í sama farið.“
Líklega þekkja flestir einhvern sem glímir við offitu eða átröskun. Nú eru komin lyf sem margir nota og sumir fara í aðgerð á meltingarvegi. Í sumum tilfellum halda þessar leiðir einnig bara tímabundið rétt eins og megrunarkúrarnir.
„Það er enginn eins,“ segir Esther Helga. „Í öllum tilfellum ætti fólk hins vegar að fá greiningu á vandann og ef greiningin er fíknisjúkdómur þá þarf að taka á honum. Að skera innyfli úr fólki eða setja það á lyf dugar ekki eitt og sér því síðan þegar það hættir á lyfjunum eða kemur út í lífið hefur ekkert breyst nema að lyfin geta haft varanleg áhrif á líkamann. Það eru miklar aukaverkanir af þessum lyfjum fyrir marga. Það er enn ekki alveg bitið úr nálinni með það enn. Margir sem fara í „ermi“ eða „hjáveituaðgerðir“ þróa svo með sér alkóhólisma og aðrar fíknir.“
Nútímafólk er vel upplýst um fíknisjúkdóma og allir vita að þeir sem glíma við fíkn þurfa að halda sig frá hugbreytandi efnum. Menn geta hins vegar ekki haldið sig frá mat. Menn verða að borða, en við þurfum ekki að borða „allan“ mat?
„Það er ekki hægt að kenna fólki sem er fíkið í ákveðin matvæli að borða þau í hófi. Þess vegna þarf að halda sig frá þeim rétt eins og gildir um aðra fíkn. Hér áður borðuðum við einfaldlega ekki þann mat sem við neytum í dag. Þetta er ekki einfaldur sjúkdómur. Við verðum fyrir áfalli í æsku og leitum í t.d. tiltekin matvæli okkur til huggunar. Það er búið að búa til ávanabindingu í svo mikið af þessari matvöru sem við neytum í dag og mörg þessi matvæli eru allt að átta sinnum meira ávanabindandi en kókaín. En rétt eins og fólk drekkur vín og ætlar ekki að verða alkóhólistar ætlum við ekki að þróa með okkur matarfíkn en við gerum það samt. Sumir geta strammað sig af en aðrir ekki.
Okkur leið illa og við fengum okkur þessi efni og þau breyttu líðan okkar. Þá festist sú minning í heilastofninum, gamla heilanum, og í hvert sinn sem mér líður ekki vel, er gröm, óttaslegin, pirruð eða man eftir einhverju sem hefur komið illa við mig. Þá man heilastofninn eftir hvað við gerðum til að breyta þeirri líðan. Það var snúðurinn. Í rauninni án þess að fólk sé meðvitað um það man það snúðinn. Jafnvel þótt það hafi ekki fattað almennilega hvernig því líður. Það bara fer og fær sér snúð. Síðan verður ferillinn þannig að við fáum okkur alltaf snúð þegar okkur líður ekki vel og við viljum alltaf halda áfram að fá þessa vellíðan. Heilinn er hins vegar ekki gerður til þess að dópamínvakar séu endalaust að framleiða vellíðunarboðefni þannig að við erum sífellt að leitast við að viðhalda ástandi sem er ekki eðlilegt heilastarfseminni. Þegar það gerist bila þessir móttakarnir og hætta að gefa okkur vímu en minningin lifir og við verðum að halda áfram að fá okkur efnið þótt við fáum ekki djúsinn sem við sækjumst eftir. Það endar svo með að við verðum að fá okkur til þess að vera bara svolítið normal,“ segir hún að lokum en þeir sem vilja fræðast um starfsemi MFM miðstöðvarinnar og starf Estherar Helgu geta farið inn á https://www.matarfikn.is/ og https://www.infactschool.com og lesið sér til. Auk þess eru allir velkomnir á kynningarfund Emotions Anonymous, 1 október 2024 í Digraneskirkju kl. 17-18.30. Þar mun Esther Helga kynna 12 spora starf sem hefst í framhaldi af fundinum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.