Höfum við óheilbrigð viðhorf til matar?

Vesturlandabúar eiga í flóknu sambandi við mat. Í fyrsta sinn í sögunni er of mikið af honum og ofgnóttin blasir við alls staðar. Að auki eiga flestir nóg fé til að kaupa hvað sem þá langar í og ísskápar og skápar því fullir af alls konar mat. Margt er þó skondið í þessu samhengi og hér á eftir að bent á nokkur atriði.

Matarsóun

Matarsóun er hugtak sem forfeður okkar og -mæður þekktu ekki. Þá var allt borðið og allt nýtt. Maturinn þurfti að vera verulega skemmdur til að honum væri hent. Við hins vegar kaupum heilan blómkálshaus og notum helminginn af honum í uppskrift, restin verður ónýt í ísskápnum. Ávextir standa í skál á borðinu og mygla þar vegna þess að krakkarnir á heimilinu kjósa fremur kex. Fyrir svo utan allar sósu-, sultu- og meðlætiskrukkurnar sem renna út á tíma í ísskápnum. Hið sama gildir um mjólkurvörurnar og margt fleira mætti benda á. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum til að stöðva matarsóun og leiðin til þess er að skipuleggja betur innkaupin, nýta afganga og gæta þess ævinlega að nota allt áður en það rennur út á tíma.

Það er ekki gott að lenda í vítahring ofáts og offitu

Ofát

Við borðum flest alltof mikið af skyndimat og óhollustu. Lausnin á því er að skipuleggja máltíðir fram í tímann og gæta þess að velja hollari mat. En þyngdaraukning og ofþyngd stafa af mörgum og flóknum þáttum. Meðal annars má nefna á svokölluðu forbreytingaskeiði og breytingaskeiði kvenna eykst oft matarlyst þeirra og löngun í sætindi. Það stafar af þverrandi estrógeni og prógesterónbirgðum í líkamanum. Það getur skipt máli að vera meðvitaður um að svo geti verið og vinna gegn því. Rannsóknir hafa einnig sýnt að þeir sem bæta auðveldlega á sig og eiga erfitt með að losa sig við aukakíló hafa minna magn af leptíni í líkamanum en hinir en það hormón stjórnar því hvenær fólk fær þá tilfinningu að það sé mett. Hormónahlutföll í líkamanum geta læknar mælt og þekking á stöðunni gefur manneskjunni vald til að bregðast við og skilja viðbrögð sín.

Lífsstíll

Svo undarlega sem það hljómar eru það iðulega þeir sem verst eru staddir efnahagslega hér á Vesturlöndum sem minnstan aðgang hafa að hollum og næringarríkum mat. Hann er nefnilega dýrari en óhollustan og oft aðgengilegri líka. Þessu þurfa stjórnvöld að breyta og hér á landi gera ráðstafanir til að lækka verð á grænmeti, heilkorni, ávöxtum og öðru heilsufæði. Íslendingar hafa möguleika á að vera sjálfbærir hvað varðar framleiðslu á grænmeti með því að fjölga gróðurhúsum og finna leiðir til að selja þeim orku ódýrt. Stríðið í Úkraínu hefur einnig fært okkur heim sanninn um hve mikilvægt er að auka kornrækt hér á landi.

Eitt af því sem gerir nútímamönnum erfitt fyrir er líka hve sýnilegur alls konar matur er. Veitingahús eru alls staðar, auglýsingar frá þeim og framleiðendum sömuleiðis og í nánast öllu afþreyingarefni kemur matur við sögu til að binda fólk saman, gleðja það og skapa tengsl. Þetta er vissulega þannig í raunveruleikanum líka en kannski leggjum við ofuráherslu á matinn. Það þarf ekki alltaf að borða þegar komið er saman, margt annað er hægt að gera til að efla tengslin. Það skýtur líka svolítið skökku við að á sama tíma og alltaf er borið fram snakk í partíum eða matur þegar vinir hittast er fjölskyldan hætt að setjast saman að matarborði á vissum tímum. Margir fjölskyldumeðlimir borða á hlaupum milli vinnu og tómstunda og gæta þess vegna ekki að því hvað eða hve mikið þeir borða. Næringarfræðingar hafa þess vegna margir boðað afturhvarf til gamalla siða og hvatt fólk til að meðvitaðrar næringar eða mindful eating. Í því felst að setjast niður og gefa sér tíma til að borða og njóta matarins með öðrum orðum ekki gera tvennt eða þrennt í einu. Það nægir að borða og gera ekkert annað en það á þeirri stundu.

Hreyfing

Við vitum öll hvað hreyfing er mikilvæg en samt ver nútímamaðurinn mestöllum sínum tíma sitjandi við tölvu, skrollandi í síma, fyrir framan sjónvarp eða með spjaldtölvu í fanginu. Það er hægt að flétta margvíslega hreyfingu inn í rútínu dagsins, ganga eða hjóla þegar þarf að sækja þjónustu innan síns hverfis, ganga alltaf upp stigana fremur en að taka lyftu, taka stuttan göngutúr í hádeginu og standa upp reglulega, teygja sig og gera léttar jógaæfingar. Margt smátt gerir eitt stórt.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.