Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður og rithöfundur skrifar.
Dag einn er líða tók að hausti átti ég leið um Smáralind og datt í hug að líta inn í verslunina HM. Þar hafði ég á vordögum keypt mér skemmtilega röndóttan bol sem hafði sýnt sig í að vera mjög nytsamur. Nú sá ég fram að kaldan vetur og ekki væri úr vegi að mæta honum í sæmilega myndarlegri og hlýrri peysu. Á leið minni að peysum af slíkri gerð gekk ég framhjá borði sem á voru skór af ýmsu tagi. – Já – kannski væri viturlegt að fá sér kuldaskó.
Ég virti fyrir mér úrvalið og mitt á milli leggjaprúðra leðurstígvéla með rennilás sá ég skó með gylltri skreytingu ofan á og afskaplega þykkum botnum. Ég horfði á þessa skó. Tók þá síðan af borðinu og svei mér þá – þeir smellpössuðu og voru meira að segja þægilegir sem ekki er endilega raunin þótt skór séu í fínasta merki og rándýrir. Þessir voru á hóflegu verði. Á milli hægri og vinstri skóar var mjó svört teygja. Ég gekk stuttum skrefum að spegli og brá í brún. Skórnir voru afskaplega þykkbotna, ekki varð annað sagt. Ég virti fyrir mér spegilmynd mína. Var það svona sem ég vildi líta út til fótanna er vetra tæki?
Eitt var víst, þessir skór voru á við skaflajárn fyrir hest, ég myndi varla vera völt á fótum í þessu skótaui.
Hikandi gekk ég nokkur stutt skref, jamm, þetta voru þægilegir skór. Eins og hendi væri veifað sló þeirri ákvörðun niður í huga minn að ég ætti að kaupa þessa skó og hiklaust gekk ég svo á þeim að afgreisluborðinu og hélt á gömlu strigaskónum mínum í sitt hvorri hendi.
„Þú verður að fara úr skónum svo ég geti skannað þá,“ sagði vel máluð og vingjarnleg afgreiðslustúlka og horfði á mig rannsakandi gegnum frumskóg langra augnhára.
„Já, auðvitað, þetta var bara svo mikil skyndiákvörðun,“ sagði ég afsakandi og fór úr skónum.
„Já þannig! Þú mátt skila þeim ef þú passar að slíta ekki teygjuna á milli þeirra,“ sagði stúlkan. Ég kinkaði kolli og svo voru skórnir skannaðir inn í tölvuna, borgaðir og út fór ég á gömlu strigaskónum.
„Varstu að kaupa þér skó?“ sagði maðurinn minn þegar ég var komin heim og farin að máta þykkbotna skóna fyrir framan spegil í stofunni.
„Já, hvernig finnst þér þeir?“ sagði ég.
„Ja – þeir eru myndarlegir,“ sagði hann.
„Ætlarðu að ganga í þeim?“ bætti hann við eftir að hafa virt skóna fyrir sér nokkra stund.
„Já, það var nú hugmyndin, líst þér ekki á það,“ sagði ég ofurlítið vandræðaleg.
„Ég veit það ekki, þeir eru ekki líkir þeim skóm sem þú ert vön að ganga í,“ sagði hann eftir nokkra stund dálítið undirfurðulegur á svip.
„Nei, en ég verð miklu stærri í þeim og ég hugsa að ég verði mjög stöðug á þeim í hálku,“ sagði ég.
„Jamm – slíttu ekki teygjuna ef þú skyldir vilja skila þeim,“ sagði eiginmaðurinn og gekk fram í eldhús.
Ég var enn að vappa fram og aftur um stofurnar stuttum skrefum svo teygjan slitnaði ekki þegar dóttur mína á fertugsaldri bar að garði.
„Vá, varstu að fá þér skó!“ sagði hún í viðurkenningartóni.
„Já, en kannski skila ég þeim, þeir eru með svo þykkum botni, kannski nota ég þá ekki,“ sagði ég.
„Út af hverju?“
„Af því að þeir eru með svo þykkum botnum, kannski eru þeir ekki fyrir mig,“ sagði ég og settist. Ég var satt að segja farin að sjá nokkuð eftir hinum fljótfærnislegu skókaupum, líklega hefði ég frekar átt að kaupa þykka vetrarpeysu.
„Ég veit ekki til að það séu nein aldurstakmörk á skóm,“ sagði dóttir mín og horfði á skóna. Ég sá í spegli hve hikandi ég var á svip.
„Mamma, þeir eru flottir. Þú skalt eiga þá og ganga í þeim, slíttu bara teygjuna,“ bætti hún við í mjög svo uppörfandi tóni.
Niðurstaðan varð að ég sleit teygjuna og fór á mannamót í skónum daginn eftir.
„Sonardóttir mín á svona skó,“ sagði gamall samstarfsmaður minn við mig meðan við vorum að fá okkur kaffi í bolla.
„Já, en ég frétti samkvæmt áreiðanlegum heimildum það eru engin aldurstakmörk á skóm,“ svaraði ég af bragði og gekk föstu skrefum á þykku skóbotnunum í sætið mitt. Síðan hef ég notað nýju skóna mikið og líkar æ betur við þá. Maður skyldi passa sig að dæma sjálfan sig ekki úr leik með aldursfordómum. Það lærði ég af títtnefnum skókaupum.