„Það er mikilvægt að drekka nóg yfir daginn, með aldrinum minnkar þorstatilfinningin gjarnan en þörfin er engu að síður sú sama. Ágætt er að miða við að drekka að minsta kosti 3-4 glös af vatni á dag, en magnið fer auðvitað eftir því hversu mikið er drukkið af öðrum drykkjum og hversu vel fólk nærist,“ segir Óla Kallý Magnúsdóttir, næringarfræðingur hjá Heilsuborg. Óla Kallý segir að áfengi og lyf geti haft áhrif á upptöku næringarefna úr fæðunni. „Áfengi er hitaeiningaríkt en næringarsnautt orkuefni og fellur því ekki undir næringaríka matinn sem mælt er með fyrir aldraða. Sá næringarskortur sem mest er tengdur áfengi er B-vítamínskortur. Áfengi veldur auknu álagi á lifur og getur því truflað úrvinnslu ýmissa efna, ekki síst ef álag á lifur er töluvert fyrir vegna lyfja sem taka þarf við hinum ýmsu sjúkdómum. Skynsamlegt er að stilla áfengisneyslu í hóf en það gildir jú alla ævina,“ segir Óla Kallý. Hún segir að ýmis lyf geti sömuleiðis haft áhrif á næringarupptökuna.
Áhrif lyfja á næringarupptöku
„Ýmis lyf geta á sama hátt og áfengið valdið álagi á lifur sem nær þá ekki að vinna úr öllu því sem henni ber. Lyf geta einnig truflað frásog ýmissa næringarefna og maturinn getur líka haft áhrif á frásog lyfjanna. Oftast er tekið fram í fylgiseðlum lyfja hvort þarf að gæta sérstaklega að mataæði samhliða lyfjatökunni. Sum lyf þarf að taka með mat og sum þarf að taka á fastandi maga, önnur má ekki taka með mjólkurvörum og þannig mætti lengi telja. Með því að borða fjölbreytta fæðu og dreifa henni á nokkrar máltíðir yfir daginn ætti að vera hægt að komast hjá því að lyfin trufli næringarefnin svo einhverju máli skipti,“ segir hún. Margir tala um að bragðskyn þeirra breytist með aldrinum og Óla Kallý segir að það sé rétt. „Bæði bragðskyn og lyktarskyn getur breyst, næmi getur hreinlega minnkað með aldrinum en einnig getur þetta verið einkenni sjúkdóma eða aukaverkun lyfja.“