Borða yfir sig frekar en að henda mat

Hættir þér til að klára alltaf af diskinum af því þér finnst erfitt að henda mat? Jafnvel þó það þýði að þú standir á blístri? Þannig er spurt í grein á vefnum Sixty and me og hér á eftir fylgir endursögn af greininni sem fjallar um þetta.

Ef þú ert manneskja sem er komin yfir sextugt, hefur þú líklega alist upp við að þurfa að klára matinn þinn, vegna þess að; „Fátæku börnin í Afríku fá ekkert að borða“. Þetta var örugglega vel meint hjá foreldrum okkar og líklega höfðu þeir trú á því að það væri slæmt ef við borðuðum ekki nóg.

Vandinn er að margir á þessum aldri burðast enn með þessa tilfinningu hálfri öld síðar. Okkur líður illa ef við þurfum að leifa af matnum, borðum ekki allt af diskinum og þurfum kannski á endanum að henda matnum. Það er ferlegt tilhugsun.

Auðvitað er ekki hægt að mæla með því að mat sé hent og sóað, en að halda áfram að troða í sig mat, þegar menn eru orðnir saddir, er verra en að henda honum. Með því að halda endalaust áfram að borða er verið að nota líkamann sem ruslafötu.

Það er nefnilega þannig að líkaminn veit uppá hár hvað hann þarf mikla fæðu til að halda heilbrigði og eðlilegri þyngd. Hann sendir okkur merki um hungur þegar hann vantar eldsneyti og þegar nóg er komið, sendir hann boð til heilans um það. Ef menn hlusta á þessi skilaboð líkamans, borða þeir ekki yfir sig og halda sér í kjörþyngd.

En mörg okkar eru hreint ekkert að hlusta. Við borðum af margvíslegum ástæðum, ekki endilega vegna þess að við erum svöng. Og við hættum ekki heldur að borða þó við séum orðin södd.

Foreldrar okkur sögðu okkur að klára af diskinum

Ástæða þess að margir hætta ekki að borða þegar nóg er komið, er að þeim finnst rangt að henda mat. Foreldrar þeirra kenndu þeim að það gerir maður ekki, samanber hungruðu börnin í Biafra.

Skoðum þetta nánar.

Menn borða nóg og líður vel. Eftir situr samt tilfinngin sem þeim var innrætt í bernsku, þannig að þeir halda áfram að borða þó það sé engin þörf á því. Allt vegna þess að þeir vilja klára af diskinum og telja rangt að henda matnum í ruslið.

Segjum sem svo að menn fari eftir því sem þeim var kennt. Haldi áfram að klára allt af diskinum og líkaminn fer að safna þessum umfram kalóríum upp sem fitu. Menn halda því áfram að borða og líður á endanum eins og þeir séu að springa. Ef fólk gerir þetta að vana, bætir það stöðugt á sig. Hætta á að fá hjartaáfall eða slag eykst og það gera einnig líkurnar á að fá krabbamein og sjúkdóma sem tengjast offitu.

Hvort er betra; Að henda mat sem líkaminn þarfnast ekki eða borða hann og missa heilsuna? Spurningin er ekki flókin og svarið einfalt.

En hvað með öll börnin sem svelta? Þau myndu hvort eð er ekki fá afgangana frá okkur, eða hvað? Þú ert ekki að hjálpa neinum með því að borða matinn sem verður afgangs. En þú skaðar sjálfan þig með því.

Eru skammtarnir of stórir?

Flest veitingahús í Bandaríkjunum bjóða uppá fáránlega stóra matarskammta. Stundum duga þeir fyrir tvær til þrjár manneskjur. Þegar fólk fer á matsölustaði þar sem það borgar fyrir matinn, finnst því ennþá meira atriði að klára af diskinum.

En er það þess virði?

Það er bara þannig, að stundum verðum við að leifa af matnum. Sættum okkur við það og munum að það er betra fyrir heilsuna, en að halda áfram að borða þegar við erum orðin södd. Mörgum finnst það áreiðanlega erfitt. Þeir hafa vanist þeirri hugsun frá öndverðu að menn eigi að klára matinn og það megi alls ekki henda honum.

Ef menn vilja losna við aukakílóin og halda þeim svo fjarri, þurfa þeir að endurskoða þessar hugmyndir sem foreldrarnir innrættu þeim sem börnum. Þær voru fjarri öllu lagi þá og eru það ennþá. En hvernig getum við þá komið í veg fyrir matarsóun? Hér eru þrjár hugmyndir.

Setjum minni mat á diskinn

Ef menn eru að borða heima er auðvelt að setja minni mat á diskinn. Byrjaðu á að setja á hann um tvo þriðju af því sem þú skammtar þér venjulega. Það er alltaf hægt að bæta við, ef menn eru svangir.

Hættum að borða þegar við erum södd

Ef þið eruð á veitingastað hættið að borða þegar þið eruð orðin södd og takið afganginn með heim í kassa. Flestir afgangar bragðast ágætlega á öðrum degi. Sumir láta setja helminginn af matnum í kassa áður en þeir taka til matar síns á veitingastaðnum, þannig að þeir freistist ekki til að klára skammtinn.

Hugsum málið

Næst þegar ykkur finnst þið verða að klára af diskinum til að þurfa ekki að henda matnum, minnið ykkur á að það er verra að borða mat sem við höfum ekki þörf fyrir, en að henda honum í ruslið. Annars sitjum við uppi með fitulag og stefnum heilsunni í voða.

Ritstjórn október 5, 2021 07:00