Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar
Ég fór aldrei í nærbuxur né buxur þegar ég var í sveit á sumrin í Skagafirði. Ég var heldur aldrei í pilsi né í kjól. Þýðir það að ég hafi verið berstrípuð að neðan allt sumarið í sveitinni?
Nei í Skagafirði gekk ég í nærbrókum og brókum, buxur og nærbuxur voru fyrirbæri sem aðeins linmæltir Sunnlendingar skörtuðu.
Og ég bragaði aldrei brjóstsykur í sveitinni heldur. Brjóstsykur var hvergi að finna í Skagafirði. Þar fengust bara bolsíur. Bolsíu úrvalið var reyndar ekki upp á marga fiska. Í Kaupfélaginu á Króknum fékkst aðeins ein tegund, stórar skærrauðar bolsíur, sem voru seldar í lausu og fylltu munninn og gerðu okkur kjaftstopp.
Á leiðinni heim á haustin þegar rútubíllinn nálgaðist upplýsta Elliðaárbrekkuna þá breyttust nærbrækurnar mínar og brækur snarlega í sunnlenskar nærbuxur og buxur. En norðlensku bolsíurnar héldu áfram að vera bolsíur, alla vega framan af, eða þar til að ég fór eitt haustið nýkomin heim úr sveitinni með vinkonu minni í Árnabúð á horni Lönguhlíðar og Miklubrautar. Mér til mikillar gleði kom ég auga á bolsíur í skál í búðarborðinu hans Árna og þegar röðin kom að mér sagði ég með ákafa ” ‘Eg ætla að fá eina bolsíu.”
Ég hafði varla sleppt orðinu, þegar kona fyrir aftan mig í röðinni tókst á loft og hrópaði yfir sig:
“En yndislegt að heyra sunnlenskt barn biðja um bolsíu.”
Þegar ég leit við sá ég frú Valgerði Briem, gamla myndlistakennarinn minn úr Ísaksskóla. Hún var hávaxin, dökk á brún og brá og var afar dúluðleg þarna með barðastóran hatt og í slá, baðandi út örmunum eins og örn sem var að takast á flug.
Við þessa uppákomu beindust augu allra í búðinni að mér. Ég sem var feimin og uppurðarlítil stokkroðnaði og átti enga ósk heitari en að hverfa í heilu lagi inn í bolsíuna góðu. En í staðinn fór hún upp í mig í snarhasti og ég sjálf sömuleiðis út úr búðinni. Upp frá þessari stundu hét ég því að taka mér aldrei orðið bolsíu í munn nema í sveitinni, og biðja bara í staðinn um brjóstsykur.
Það skrítna var þó, að þegar bolsíurnar urðu að brjóstsykri þá voru þær ekki eins góðar á bragðið og skagfirskar bolsíur.