Það er mikið rætt um holdarfar í hinum vestræna heimi, þar sem ofgnóttin af öllu hefur leitt til þess að margir missa heilsuna vegna offitu. Íslendingar hafa líka verið að þyngjast. Margir velta ugglaust fyrir sér hvað þeir eigi að vera þungir, hver sé hin rétta þyngd. Bára Magnúsdóttir hjá JSB segir að það fari eftir hæðinni. Ef manneskja er 1.70 m á hæð, er þumalputtareglan sú að hún eigi að vera 70 kíló. „En þá er hæsta tala sem hún má fara í 75 kíló“ segir Bára. Lægsta tala sé hins vegar 60 kíló. Ef menn fari undir það séu þeir farnir að fara illa með líkamann. En flestir finni hvaða þyngd hentar þeim og finni við hvaða aðstæður líkaminn starfi best. „Allir þurfa að missa 10-15 kíló. Allir. Námskeiðin hjá mér eru þjónusta, alveg eins og við kaupum þá þjónustu að lita rótina á hárinu. Fólk kemur aftur og aftur og það ber að líta á þetta sem þjónustu. Þó þú missir 50 kíló, er ekki hægt að lofa því að þú fitnir ekki aftur. Það er enginn vandi að fitna aftur, við skulum horfast í augu við það. Þetta er allt undir okkar stjórn. Ef við eyðum hálfri ævinni í yfirþyngd, þá er allt betra en að gera ekki neitt“. Bára áréttar við konurnar, sem koma til hennar, að þær hafi það algerlega í hendi sér hvort þær léttist eða ekki. Það sé þeirra ákvörðun. Enginn þurfi að vera í yfirþyngd nema sá sem vilji það. Meginmálið er að innibyrða ekki fleiri en 14000 hitaeiningar á sjö dögum og styrkja líkamann til að koma sér í gott form.