Elísabet Englandsdrottning hefur „góðfúslega en staðfastlega“ hafnað viðurkenningu tímaritsins Oldie of the Year í Bretlandi með eftirfarandi skilaboðum: „Hversu gömul við erum ræðst ekki síst af áliti okkar sjálfra.“
Drottningin sendi ritstjóra tímaritsins „bestu óskir sínar“ með þessum skilaboðum.
Elísabet II. er 95 ára og hefur setið lengst allra á valdastóli breska konungsveldisins. Hún fagnar 70 ára valdaafmæli á næsta ári.
Með ákvörðun sinni fer drottningin nokkuð á skjön við eiginmann sinn heitinn, Filippus prins, hertogann af Edinborg, sem þáði þessa viðurkenningu með þökkum árið 2011.
Rithöfundurinn og útvarpsmaðurinn Gyles Brandreth, sem er í fyrirsvari fyrir viðurkenninguna, skrifaði einkaritara drottningar, Edward Young lávarði, til að biðja hana að þiggja titilinn „Gamlingi ársins“.
Í svari sem birtist í nýjasta tölublaði tímaritsins segir aðstoðarmaður einkaritarans, Tom Laing-Baker, m.a.: „Hennar hátign telur að við séum eins gömul og okkur finnst við sjálf vera. Af þeim sökum telur hún sig ekki uppfylla þau skilyrði sem séu forsenda viðurkenningarinnar. Hún vonar að þér finnið verðugri handhafa.“