Pítsa hefur á mörgum heimilum tengst föstudögum enda ljúft að hittast í lok vikunnar og borða saman. Margir kjósa að kaupa tilbúna pítsu sem er auðvitað mjög þægilegt en aðrir kjósa að gera aðeins meira úr föstudagspítsunni og búa hana til sjálfir. Tilvalið er að kaupa tilbúið pítsadeig í stórmörkuðum en fyrir þá sem vilja búa til deigið þá er hér uppskrift að einu mjög góðu:
3 dl volgt vatn
1 poki þurrger (11 g), t.d. frá vörumerkinu Gestus
1 tsk. sykur
2 msk. olía
450 g heilhveiti
Blandið öllum vökvanum saman við gerið og sykurinn og látið gerilinn vakna. Þegar vökvinn fer að freyða er gerillinn vaknaður og þá er hveitinu blandað saman við og allt hnoðað saman. Þetta er látið hefast í klukkutíma og ofninn hitaður á meðan.
Pítsa með heimaþurrkuðum tómötum
500 g fremur litlir vel þroskaðir tómatar
balsamedik
1 msk. sykur
2 hvítlauksrif, pressuð
1 kúla mozzarellaosur, saxaður
basil, ferskt
salt og svartur, nýmalaður pipar
Hitið ofninn í 230°C í 30 mínútur. skerið tómatana í tvennt á þverveginn. Blandið saman balsamediki, sykri, hvítlauk og 3 msk. ólífuolíu. Raðið tómötunum í eldfast mót þannig að sárið snúi upp og dreypið balsamedikssósunni yfir tómatana. Bakið þá í 40 mínútur og opnið ofninn öðru hverju svo að gufan komist úr og tómatarnir þorni fyrr. Takið tómatana út og látið kólna.
Fletjið pítsudeigið út eins þunnt og hægt er. Dreifið ostinum jafnt yfir deigið og raðið síðan tómötunum ofan á. Bakið pítsuna í 8 – 10 mínútur. Dreifið fersku basil yfir pítsuna þegar hún er fullbkuð, ásamt skvettu af ólífuolíu. Kryddið með salti og pipar.