Vísindarannsóknir sýna að gæludýraeign eldra fólks eykur lífsgæði þess og lengir lífið. Gæludýraeigendur halda virkni lengur og sjá má augljósar heilsubætur af því þegar fólk með ýmsa kvilla tekur að sér dýr. Sumir vísindamenn vilja meira að segja ganga svo langt að mæla með því að fólk yfir fimmtugu fái sér dýr.
Augljósasti kosturinn við að halda dýr er að þau krefjast umönnunar. Gæludýraeigendur þurfa að sjá til þess að dýrin fái að borða, þá hreyfingu sem er þeim nauðsynleg og að þrífa í kringum þau. Vegna þess að þeim þykir vænt um dýrin leggur fólk sig fram um að sinna þeim vel og það getur verið hvati til að gera meira en viðkomandi telur sig geta. Það er einmitt það sem menn þurfa til að halda sér í þjálfun að gera alltaf örlítið meira en þeir telja sig geta.
Dýr draga einnig verulega úr einmanaleika þeirra sem eru einir á báti. Rannsóknir hafa sýnt að eldra fólk tengist dýrunum sínum sterkari böndum en hinir yngri og er háðara þeim á margan hátt. Vegna þessa hefur t.d. í Bretlandi verið brugðist við með því að gera undanþágur á reglum í húsfélögum húsa með íbúðum fyrir aldraða og á hjúkrunarheimilum til að gera fólki kleift að flytjast þar inn án þess að skiljast við dýrin sín.
Mælingar sýna bætta heilsu
Að umgangast dýr, strjúka mjúkan feld, hlusta á málið, finna hlýjuna frá þeim dregur úr streitu og hjálpar fólki að slaka á. Það er ein ástæða þess að víða á sjúkrahúsum er gæludýrum leyft að koma í heimsókn því heilbrigðisstarfsfólk hefur séð verulegan mun á heilsufari sjúklinga eftir heimsóknir dýra og batinn kemur hraðar fái sjúklingurinn að heimsókn dýrs. Þetta á jafnt við um eldri sem yngri sjúklinga. Það hefur einnig verið sýnt fram á að gæludýraeigendur komu betur út úr einangrunartímanum meðan á COVID19 faraldrinum stóð. Þeir voru andlega sterkari og fundu mun minna fyrir innlokuninni. Meðal þess sem mælingar í rannsóknum sýna að batnaði verulega hjá eldra fólki eftir að það tók að sér gæludýr var:
Blóðþrýstingur lækkaði
Kólesteról í blóði lækkaði
Kvíði varð minni
Heilastarfssemi varð virkari á mörgum svæðum
Betra minni
Betri svefn
Það er því sýnt að gæludýr uppfylla bæði félagslegar og tilfinningalegar þarfir manna. En auk þess hafa þau í þónokkrum tilfellum bjargað eigendum sínum frá heilsufarslegri vá. Vitað er til að mynda að hundar finna lykt af krabbameini og hvernig þeir hafa þefað og látið í námunda við eiganda sinn hefur orðið til þess að viðkomandi fór til læknis og æxli fundust í tæka tíð til að bjarga lífi manneskjunnar. Hundar hafa einnog getað látið vita af veikindum eigenda sinna með gelti og þannig orðið til þess að þeim var komið til hjálpar. Það hefur líka vakið athygli nágranna ef ketti eða hundi er ekki hleypt út og það orðið til þess að fólk fær aðstoð eftir byltu eða í veikindum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.