Hefðbundnir aðventukransar víkja

Fyrsti sunnudagur í aðventu er á sunnudag svo þeir sem ætla að setja upp aðventukrans þurfa að fara að huga að því. Það eru tískusveiflur í aðventuskreytingum eins og öllu öðru. „Nú er mjög vinsælt að velja sér fallegan bakka eða skál og skreyta svo eftir eigin höfði,“ segir Díana Allansdóttir deildarstjóri hjá Blómavali. „Mér finnst eins og hefðbundnu grenikransarnir séu svolítið að víkja,“ bætir hún við. Litur aðventunnar er fjólublár og Díana segir að hann sé alltaf vinsæll, margir velji silfur- og hvítan lit með.  Í ár sé  vinsælt að velja gylltan lit í stað silfurs.  Nature litir eða jarðarlitir eru líka mjög vinsælir í ár. „Það eru margir sem velja sér trébakka og svo jarðliti á móti og nota hvítan og svartan með. Pastellitir eru líka vinsælir. Fólk er að setja saman pastelbláan lit með hvítu og svörtu.“ Hún segir að hefðbundni rauði liturinn sé að víkja fyrir dimmrauðum lit. Hann sé vinsæll í ár. „Það er ótrúleg breidd í þessu og hver og einn velur það sem honum finnst fallegast. Það eru margir sem eru fastheldnir á rauða litinn og finnst ekkert annað koma til greina og segir Díana að það komi alltaf eitthvað nýtt á hverju ári, en það taki tvö til þrjú ár fyrir nýja strauma að ryðja sér til rúms og ná fótfestu.

Hinn hefðbundni aðventukrans er gerður úr grenigreinum með fjórum kertum sem komið er fyrir á hring. Hið sígræna greni á að tákna lífið í Kristi og hringurinn er tákn eilífðarinnar.  Menn eru ekki á eitt sáttir um uppruna aðventukransa en talið er að þeir hafi verið til allt frá miðöldum.  Hinn hefðbundni aðventukrans eins og við þekkjum hann er talinn hafa breiðst út frá Þýskalandi seint á 19 öld. Hingað til lands barst kransinn frá Danmörku skömmu eftir miðja síðustu öld og þykir nú ómissandi á flestum heimilum. Hvert kerti á kransinum hefur sitt heiti. Fyrsta kertið sem kveikt er á kallast spádómskertið, annað kertið nefnist Betleheimskertið, það þriðja hirðakertið og fjórða kertið sem kveikt er á kallast englakertið.

Ritstjórn nóvember 28, 2018 07:11