Um áramót lítur fólk gjanan um öxl og ryfjar upp. Á vefnum Lifðu núna er að finna hundruðir greina og viðtala um hin margvíslegustu mál. Ritstjórn Lifðu núna ákvað að birta brot úr nokkrum þeirra viðtala sem birst hafa á árinu.
Gott að eldast
„Maður verður öruggari með sjálfan sig og sín viðhorf, með aldri og reynslu dregur úr óöruggi, feimni og óvissu um það hvort maður sé að hugsa hlutina rétt og hvort maður sé að gera réttu hlutina. Allt þetta minnkar og þar með verður hann þéttari þessi kjarni, sem mér finnst vera ég. Maður er öruggari um hvað manni finnst raunverulega. Þó það sé mjög fjarri að maður sé viss um alla hluti finnst mér gott að eldast. Líklega er það þetta sem við köllum þroska, hann lætur mér líða betur en áður,“ sagði Kristín Á Ólafsdóttir, söngkona og leikari.
Dansað saman í hálfa öld
Þau byrjuðu snemma að dansa og fóru að dansa saman í Kennaraskólanum á sjötta áratugnum. Þau hafa dansað saman síðan og eru enn að, rúmri hálfri öld síðar. Þetta eru hjónin og kennararnir Jón Freyr Þórarinsson og Matthildur Guðmundsdóttir. Þau tóku þriðjudagskvöldin alltaf frá fyrir dansinn og gera enn, því þau sækja danstíma á þriðjudagskvöldum hjá Jóhanni Erni Ólafssyni danskennara. „Við teljum að þetta hafi verið gott fyrir hjónabandið“ sagði Jón Freyr þegar blaðamaður Lifðu núna leit inn til þeirra hjóna á dögunum. „Þó við værum örþreytt vildum við ekki sleppa dansinum“, sagði Matthildur, „og vorum alltaf minna þreytt þegar við komum tilbaka“. Sjá viðtal.
Skiptum um gír
Maggi Kjartans fékk hjartaáfall í fyrra sem hægt var að laga og það kætti hann enn meira. „Það er erfitt að vera bæði dauður og kátur í einu. En það er voða gaman að vera lifandi og kátur. Ég byrjaði upp á nýtt og finnst ég aftur vera tuttugu. Ég var eiginlega sendur heim í lúdóinu og er að átta mig betur á hversu veikur ég var orðinn,“ segir hann og hlakkar til framtíðarinnar. „Ég og konan mín tókum ákvörðun um að byggja okkur hús á landi sem við höfum nostrað við síðustu 20 ár. Við erum hér á uppáhaldsstaðnum okkar. Við byggðum okkur nýtt hús og tókum þetta mikla skref saman, stigum óhrædd á kúplinguna og skiptum um gír í lífshlaupinu. Þannig viðhöldum við ævintýrinu í lífinu og leikum á als oddi,“ segir Magnús Kjartansson tónlistarmaður.
Móðir bæjarstjórans
Aldís Hafsteinsdóttir er að hefja þriðja kjörtímabil sitt sem bæjarstjóri í Hveragerði, en Sjálfstæðisflokkurinn fékk hreinan meirihluta í bænum í kosningunum í vor. Móður hennar Laufeyju S. Valdimarsdóttur finnst hún hafa staðið sig vel sem bæjarstjóri. „þetta hefur gengið vel hjá henni, bænum er vel stjórnað og hún er ákaflega dugleg. Hún er góð í mannlegum samskiptum og það hjálpar að hún er alin upp hér og þekkir vel til“. Laufey segir að það séu alltaf einhverjir sem gagnrýni eitthvað sem bæjarstjórinn geri, en Aldís taki gagnrýni yfirleitt vel. „ En auðvitað er alltaf eitthvað sem getur sært,“ segir Laufey „þegar menn telja sig hafa gert vel og fá skammir fyrir“.
Borgarstjórinn með plattfót
„Dagur hefur alltaf verið mikil félagsvera, alveg frá í barnaskóla. Hann var inspector scholae í MR þegar hann var þar og tók síðan virkan þátt í starfi Röskvu í Háskólanum og var formaður stúdentaráðs m.a. Hann kom snemma hjá honum, þessi áhugi á félagslífi. Annars var hann virkur á mörgum sviðum, var í handbolta og fótbolta, sló öll met í sölu getraunamiða fyrir félag sitt Fylki, sótti norsku tíma niður í Miðbæjarskóla, var í Lúðrasveit Árbæjar og Breiðholts, reyndi fyrir sér í postulínsmálningu og í heilt ár lék hann í Línu langsokk í Þjóðleikúsinu. Í framhaldi af því fór hann í ballett og væri líklega balletdansari í dag en ekki læknir og borgarstjóraefni ef hann væri ekki með plattfót,“ segir Bergþóra Jónsdótttir, móðir Dags B Eggertssonar borgarstjóra.
Ekki vera fórnarlamb
„Ég held að margir upplifi það þannig, að þeir muni ekki fá vinnu aftur ef þeir eru komnir á ákveðin aldur, en ég held að margir gengisfelli sjálfa sig líka. Ég varð vör við þetta þar sem ég hef unnið, bæði hér og í Kaupmannahöfn. Ég man eftir finnskri konu, sem var orðin rúmlega fimmtug og sló því föstu að hún myndi aldrei fá vinnu framar. Um leið og þú gefst upp ertu orðin fórnarlamb“, segir Sigrún Stefánsdóttir forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri.
Hárunum hefur fækkað
Guðjóni Þórðarsyni finnst hann ekki vera að eldast. Hárin á hausnum segir hann að séu kannski heldur færri en áður og kílóin of mörg en hann segist hafa driftkraftinn og eldinn ennþá. „Ég finn ekki að ég sé kominn með hátt hrörnunarstig en auðvitað lít ég ekki út eins og þrítugur. Ég er ekki sama stálfjöðrin og ég var en ég hef reynslu og hugurinn er í meira jafnvægi. Ég er í miklu betra standi að mörgu leyti. Það er óhemjumargt sem maður hefur fengist við í gegnum tíðina, reynslan kemur ekki nema maður upplifi hlutina,“ segir hann.
Ferðalangurinn Kári
Eftir 45 ára feril í fjölmiðlum söðlaði Kári Jónasson fyrrverandi fréttastjóri Ríkisútvarpsins og ritstjóri Fréttablaðsins um, og fór í Leiðsöguskóla Íslands í Kópavogi. Þá var hann 67 ára gamall. Þaðan fór hann í ferðamálafræði í Háskóla Íslands, sem var fjarnám frá Hólum og útskrifaðist árið 2011. Þegar Lifðu núna hitti hann, var hann á leið í 10 daga ferð um landið með 16 Bandaríkjamenn. Hann segist alltaf hafa haft áhuga á ferðalögum og hafa átt jeppa til að fara á um landið árið 1963. Hann segir að bakgrunnurinn úr fyrri störfum hafi nýst sér vel í leiðsögninni. Hann hafi fylgst vel með landhelgisdeilunum sem fréttamaður, eldgosum, stjórnmálum og fleiru. Það hafi komið sér vel að hafa fylgst svona vel með í þjóðlífinu.
Bölvað rugl
Bogi Ágústsson á RÚV bendir á að það sé í tísku að segja að allt hafi verið betra áður fyrr en það sé „bölvað rugl. Stundum er sagt að myndirnar hafi verið miklu betri í sjónvarpinu í gamla daga en þegar kíkt er á þær þá sér maður að það er ekki rétt. Ef maður kíkir í gömul blöð þá er íslenskan betri nú en þá. Blaðamenn eru svo miklu meðvitaðri um nauðsyn þess að skrifa vandað tungumál og gera hlutina eins vel og mögulegt er. Þar að auki er ungdómurinn miklu heilbrigðari að nánast öllu leyti en þegar ég var unglingur.“
Aldurinn réði óháð frammistöðu
„Þegar ég komst ekki inn í skólann á sínum tíma þá fannst mér það erfitt. Ég hafði lagt hart að mér og fengið 10 í einkunn úr fornáminu og verið sú eina í hópnum sem fékk svo háa einkunn en komst samt ekki inn. Ég treysti því að fagnefndin sem valdi inn í skólann hefði rétt fyrir sér en mér var ráðlagt að spyrjast fyrir um af hverju ég hefði ekki komist inn og fékk þau svör að þegar valið hefði staðið milli tveggja einstaklinga þá hefði aldurinn ráðið hvor færi inn óháð einkunnum og frammistöðu,“ segir Þuríður Sigurðardóttir söngkona og lýsir því að hún hafi farið að skæla þegar hún vissi ástæðuna en þetta hafi allt endað vel og hún komist inn.