Gangandi inn á kaffihúsið kom kona sem bar með sér ákveðna vissu. Hún var ungleg í fasi, með derhúfu og virtist meðvituð um útlit sitt enda var hún ung þegar staðfesting fékkst á að hún hefði unnið í því happdrætti. Þarna var komin María Guðmundsdóttir, fyrrverandi ljósmyndafyrirsæta og ljósmyndari, sem hefur notið mikillar athygli í gegnum tíðina. María starfaði mest í tengslum við tískuheiminn á meðan hún var á vinnumarkaði. Hún hitti aldrei blóðforeldra sína en blóðmóðir hennar gaf hana í fóstur þegar María var á öðru ári. Hún eignaðist dásamlega fósturforeldra, Ragnheiði Hansen og Guðmund Guðjónsson og var einkabarn þeirra. Þau studdu hana þegar kom að því að hún veldi sér framtíðarstarf en Ísland hefur alltaf verið akkerið í lífi Maríu og hér vill hún verja tímanum sem eftir er. María er nú orðin 78 ára gömul og nýtur líðandi stundar í ríkum mæli eftir erilsama ævi.
“Ég vakna á morgnana, svona bara þegar ég er útsofin,” segir María og brosir. “Það getur verið allt frá sex til níu, þá les ég fréttir í rólegheitum og nýt þess að vera til. Þegar ég er spurð hvað ég sé að gera þessa dagana segist ég vera að “ganga frá”. Ég tók mig til fyrir allnokkru og safnaði saman myndum og úrklippum sem eru til af mér í gegnum tíðina. Og þar sem ég er barnlaus þótti mér ekki góð tilfinning að hugsa til þess að eftir minn dag yrði þessu öllu hent,” segir María og hlær svolítið feimnislega. “Mér þótti upplagt að ég myndi dunda mér við að koma skipulagi á þetta allt saman nú þegar ég hef tíma,” segir hún.
María á dagbækur allt frá 1957 fram til 2019, upp á hvern dag. Í þær skrifaði hún niður upplifanir sínar í gegnum tíðina og límdi inn myndir. Hún segir að líf hennar sé, þrátt fyrir allt, í skipulagðri óreiðu vegna þessara dagbóka. Ingólfur Margeirsson studdist við þær þegar hann skrifaði bókina um Maríu 1995 og nefndi hana María – konan bak við goðsögnina. Þar tekur Ingólfur saman sögu þessarar merkilegu konu á 312 síðum en kemur auðvitað fyrir aðeins broti af viðburðaríkri ævi Maríu en bregður upp forvitnilegri mynd. Á baksíðu bókarinnar segir: “María Guðmundsdóttir, fyrrverandi fegurðardrottning og ljósmyndafyrirsæta, komst á hátind tískuheimsins beggja vegna Atlantsála. En hvaða verði keypti hún frægðina, framann og hið ljúfa líf?” Ingólfur varpar ljósi á söguna af þessari mögnuðu stúlku frá Djúpavík sem reyndi að fóta sig í hörðum og firrtum heimi. Bókin seldist upp á sínum tíma og fæst nú einungis lánuð á bókasöfnum. Í bókinni koma ástir allnokkuð við sögu en þar segir jafnframt að María hafi hafnað manninum sem hún unni mest og skýrir það með ótta ættleidda barnsins og hræðsluna við að verða yfirgefin.
Í upphafi sjöunda áratugarins var María um tvítugt og segir að þá hafi orðið breyting í tískuheiminum. Þá hafi háar og grannar fyrirsætur leyst fyrirsætur með mýkri vöxt af hólmi en hún segir sjálf að hún hafi verið há en brjósta- og rasslaus. Myndir frá þessum tíma sýna óskaplega fallega skapaða konu og María hitti einmitt á þessa nýju bylgju og þar með var hún komin á hringekju tískuheimsins og lífið þaut áfram. Hún kynntist meðal annars Kennedy Bandaríkjaforseta og afþakkaði boð hans um nánari kynni. Hún lifði stórfenglegu lífi en gætti þess alltaf að halda dagbók og geyma myndir. Nú, þegar því tímabili er lokið, er hún að fara í gegnum líf sitt og skoða hvað er þess virði að rifja upp og halda til haga en sumu hendir hún. Hún segist hafa þá trú að þessar bækur sem hún sé að búa til um líf sitt muni hafa töluvert heimildagildi þegar fram í sæki. Hún muni því líklega fara með þær á Þjóðminjasafnið þegar þar að kemur og fá álit fagmanna þar.
María hefur að mestu verið heilsuhraust en segir að stoðkerfið sé ekki alveg í lagi eftir langa ævi. Hún hefur þrjóskast við að fara í hnéaðgerð en fyrir um tíu árum var hún búin að fá tíma hjá skurðlækni eftir að hafa verið á biðlista í fimm mánuði. Þá hafi hún hins vegar verið komin í verkefni við að gera heimildarmynd. Hún sagði lækninum þá að hún vissi hvað hún hefði, en vissi ekki hvað hún fengi og bað hann um að leyfa sér að hafa samband síðar. Síðan eru liðin tíu ár og nú segist hún vera hætt við að fara í aðgerð. Hún hefur lært að lifa með þessu lélega hné en hún hætti í ljósmynduninni þegar hún gat ekki lengur hlaupið á fjöll. En hverju þakkar María góða heilsu og gott útlit. “Ég hef ekki mikið kynnt mér genabanka minn,” segir María en blóðforeldrar hennar voru íslensk stúlka og breskur hermaður 1942. Hún talaði einu sinni við blóðmóður sína í síma á meðan hún lifði en María hafði óþægilega á tilfinningunni að þessari konu fyndist sem María hefði brugðist sér á einhvern hátt eins mótsagnakennt og það hljómar. Það sé í raun engin leið að túlka það því konan hafi auðvitað verð minnt reglulega á sig þar sem myndir af Maríu hafi verið mikið í fjölmiðlum.
María kom alkomin til Íslands 2003 en á þeim tíma fékk hún brjóstakrabbamein og fór í langa og stranga meðferð hér heima. Meðferðin bar árangur og María segir að áföll sem þetta geri mann bara sterkari ef maður er svo lánsamur að komast yfir meinið sem sé sem betur fer mjög algengt í dag.
María hefur gefið út ljósmyndabók sem hún nefndi Ferðin heim og einnig heimildamynd sem hún nefndi sama nafni. Ekki er órökrétt að túlka nafngiftina sem löngun hennar til að koma heim eftir mjög svo viðburðaríka ævi. Í bókinni um Maríu er þessi texti: “Heimur tísku og auglýsinga hafði boðið mér upp á stórfenglegt líf. Ég hafði ætt í gegnum veröld glæsimennsku, frægðar og peninga. Nú lá ég ein í stóru, dimmu stúdíói. Hin hliðin á sömu veröld.” Þessi texti segir sögu um að líf Maríu hefur sannarlega ekki alltaf verið dans á rósum frekar en annarra sem hafa lifað þotulífi fræga fólksins. Alltaf skal vera önnur saga undir sykursætu yfirborðinu og ekki allt sem sýnist. Við hin getum aðeins ímyndað okkur ævintýralegt líf þeirra sem fá að prófa. Þotulífið er auglóslega skemmtilegt þegar allt leikur í lyndi. En svo er önnur hlið og María fékk smjörþefinn af þeirri hlið líka en er svo lánsöm að hafa sloppið heil en með minningar sem hún getur yljað sér við og er að því þessa dagana.
Nú býr María með vinkonu sinni Vigdísi Grímsdóttur rithöfundi en þær hafa þekkst í 25 ár. Þær hafa þvælst saman hingað og þangað um heiminn, t.d. til Nýju Mexíkó þar sem María ætlaði að gera heimildamynd um indíána. Vigdís skrifaði þrjár bækur í þeirri ferð en María fann engan indíána. “En ferðin var skemmtileg,” segir María og skellihlær.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.