Augun koma upp um aldurinn því húðin í kringum þau er ævinlega fyrst til að sýna merki. Fínar línur, hrukkur og slöpp húð á augnlokum og fyrir ofan þau eru meðal þess sem flestar konur reyna að vinna gegn með kremum og margvíslegum öðrum aðferðum. Sumar kjósa að leita til lýtalækna til að laga þetta en það verður stöðugt einfaldara.
- Augnháralengingar
Löng og áberandi augnhár opna augun og lyfta þeim. Augnháralengingar er góð leið til að gefa augunum unglegra yfirbragð. Hún er auk þess frekar ódýr og auðveld. Hægt er að velja um mismunandi lengd á hárunum og þau þurfa alls ekki að vera óeðlilega löng.
- Augnlokaaðgerð
Bieoharoplasty eða augnlokaaðgerð er einföld aðgerð. Lýtalæknar hafa lengi lagað sigin augnlok hjá fólki enda geta húðfellingarnar truflað sjón. Það er einnig erfðafræðilegt atriði hversu mjög augnlokin síga og í sumum fjölskyldum er þetta velþekkt vandamál. Skorið er í augnlokið, umfram húð fjarlægð og svæðið í kringum þau lagað. Þetta er mjög áhrifarík aðgerð, sjúklingar finna lítið fyrir henni og flestir eru fljótir að jafna sig. Augnsvæðið er þó oft mjög bólgið og sumir finna fyrir einhverjum þrota og bólgum í allt að tólf mánuði. Þetta er vinsælasta fegrunaraðgerð í heiminum um þessar mundir og það á við hér á landi líka.
- Botox, fylliefni og laser
Hingað til hafa botox, fylliefni og lasergeislar verið notaðir til að lyfta og laga einangruð svæði. CC-augnabrúnalyfting snýst hins vegar um að beita þeim öllum saman. Botoxi er sprautað á nákvæman hátt til að slakni á ákveðnum vöðvum í kringum augnabrúnirnar. Þá er fyllefni komið fyrir til að mýkja og fylla svæðið og að lokum lasergeislum beitt til að þétta og lyfta húðinni. Geislarnir heita Thermage skin tightening therapy (RF) og er beint yfir allt ennið og augnlokin. Þeir örva kollagenframleiðslu í húðinni og flýta öllu viðgerðarferli. Laserlyfting hefur gefið mjög góða raun og fínn valmöguleiki fyrir þá sem ekki kæra sig um að leggjast undir skurðhnífinn.
Nauðsynlegt í baðskápinn
Augnkrem eru mikið auglýst og lofa allir hámarksárangri af notkun sinnar vöru. Þótt augnkrem geti aldrei snúið við merkjum sem þegar eru komin eru þau mjög góð til að fyrirbyggja og halda húðinni heilbrigðri. Kremin veita raka, mörg innihalda sólarvörn og vinna iðulega vel á áhrifum óhreininda og mengunar á húðina. Allir ættu því að eiga gott augnkrem í baðskápnum.
Sólgleraugu eru frábær vörn gegn áhrifum sólarljóss. Þegar mikil birta er píra flestir augun til að draga úr ofbirtu og það dýpkar og skapar línur í kringum augun. Notið því sólgleraugu hvenær sem þörf er á og ekkert síður á veturna en sumrin.
Serum eru virkari krem en önnur. Þau innihalda meira magn af efnum sem rannsóknir hafa sýnt að vinna í efri lögum húðarinnar og gefa árangur. Augnserum eru góð leið til að fyrirbyggja hrukkur og viðhalda fegurð augnanna.
Með árunum dökknar oft húðin undir augunum og dökkir baugar gefa andlitinu þreytusvip. Nú hafa verið hönnuð og framleidd krem sem innihalda efni sem lýsa baugana og hefta framleiðslu litarefnanna sem skapa þá.
Hættu að reykja. Reykingar eru einstaklega slæmar fyrir húðina og sýnt hefur verið fram á að húð reykingafólks eldist þrjátíu sinnum hraðar en húð þeirra sem ekki reykja.
Augnleppar á næturnar geta tryggt góða hvíld. Augun nema birtustig og á sumrin er birtan oft það mikil að líkaminn veit ekki að það er nótt. Augnleppar tryggja algert myrkur fyrir sjónum manna og svefninn verður dýpri og meira endurnærandi. Húðviðgerðarferlið fer fram á næturnar og góður svefn tryggir betra viðhald húðar.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.