Ekki er langt síðan farið var að rannsaka ofbeldi gegn öldruðum. Líkt og kynbundið ofbeldi og ofbeldi inni á heimilum töldu menn að það væri fátítt og því ekki ástæða til að leita það uppi. Annað kom í ljós. Ofbeldi gegn eldra fólki er algengt og það getur verið bæði andlegt og líkamlegt. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur að 16% einstaklinga yfir sextugu verði fyrir ofbeldi af einhverjum toga af hálfu einhvers eða einhverra aðstæðna í umhverfi sínu.
Aldraðir verða fyrir andlegu, fjárhagslegu og líkamlegu ofbeldi. Í daglegu lífi eru þeir oft beittir margvíslegum þvingunum, sérstaklega á það við í stofnanaumhverfi þar sem fólk er neytt til að taka lyf, stundum án þess að vita um hvaða lyf er ræða eða verkun þeirra, fara í bað á vissum tímum eða borða þótt það sé lystarlaust. Rútína starfsfólks og viðhorf ráða þar mestu. Sigrún Huld Þorgrímsdóttir öldrunarhjúkrunarfræðingur telur að þetta eigi rætur í menningu okkar og sú æskudýrkun sem ríkt hefur í samfélaginu valdi því að eldra fólk njóti ekki virðingar og mannréttindi þeirra séu fótum troðin. Hún hefur skrifað bók um þetta efni og flutt fyrirlestra víða. Hún hefur tvisvar rætt þessi mál við Lifðu núna, https://lifdununa.is/grein/a-morgun-gaeti-thetta-verid-eg/ og https://lifdununa.is/grein/afgangsstaerd-og-olnbogaborn-i-samfelagi-okkar/
Andlegt ofbeldi og vanræksla af hendi nánustu aðstandenda eru algengustu form ofbeldis gegn eldra fólki og þótt flesta hnykki við að heyra slíkt geta legið ýmsar ástæður að baki. Mikið álag getur verið á maka, börnum eða öðrum nákomnum aldraðar manneskju sem þarf á umhyggju að halda. Viðkomandi getur verið að gera sitt besta en það er einfaldlega ekki nóg og meiri stuðningur væri nauðsynlegur frá umhverfinu. Við slíkar aðstæður getur einnig verið freistandi að grípa til meiri stjórnunar og jafnvel kúgunar til að tryggja að verkefni klárist fljótt og vel. Þótt þetta sé vissulega ekki afsökun er það skýring og segir okkur að í samfélagsgerðina vanti skýra sýn og reglur hvað þetta varðar. Sigrún Huld kemur einmitt inn á að lög hafa verið sett um barnavernd og réttindi fatlaðra en engin sambærileg um réttindi og vernd elstu kynslóðanna í samfélaginu.
Ofbeldið á heimili hins aldraða
Á fyrri tíð var umönnun eldra fólks á ábyrgð heimilanna. Algengt var að eldra fólk afsalaði sér búsforráðum til hinna yngri og þeir í staðinn sáu um viðkomandi fram í andlátið. Á miðöldum urðu klaustrin griðastaður eða elliheimili fyrir efnaða einstaklinga og nokkuð um að menn arfleiddu þau að hluta eða öllum eigum sínum og í staðinn fengu þeir athvarf í ellinni. Vonandi hefur auðurinn tryggt þeim virðingu og vellíðan á síðustu árum lífsins og miðað við hve algengt þetta var, er líklegt að í klaustri hafi verið betri vist en á eigin heimili.
Í íslenskum dómabókum er að finna nokkuð mörg andstyggileg mál þar sem aldrað fólk var hreinlega svelt í hel af börnum sínum og tengdabörnum. Stundum voru merki um alvarlegt líkamlegt ofbeldi einnig að finna á líkömum þeirra svo þessi vandi er sannarlega ekki nýr af nálinni. Á undanförnum áratugum höfum við séð stórkostlega breytingu á viðhorfum fólks til hvers kyns ofbeldis. Þol manna gagnvart ofbeldi hefur minnkað og fræðsla um gagnkvæma virðingu í mannlegum samskiptum aukist. Hingað til hefur hins vegar lítið farið fyrir því að gerð sé sú krafa að öldruðum í samfélaginu sé hlíft við ofbeldi.
Nú á dögum býr fólk í eigin húsnæði og ræður sér sjálft mun lengur en áður var. Þeim er gert það kleift með aðstoð frá hinu opinbera og ættingjum. Því miður fylgir þessari þjónustu einnig ákveðin forræðishyggja í sumum tilfellum og aldraðir einstaklingar fá þá litlu ráðið um hvenær hún er innt af hendi, hvort hún sé í samræmi við óskir þeirra og það sem þeir telja sig mest þurfa á að halda í það sinn. Ofbeldi getur falist í því að neita fólki um þjónustuna sé það ekki tilbúið að taka á móti henni á ákveðnum tímum, skapa aðstæður þar sem hinn aldraði er hræddur við að gera kröfur eða mótmæla því sem er í boði og hlusta ekki á og virða ekki beiðnir um breytingar. Gildir hér einu hvort um er að ræða opinbera þjónustu eða þá umönnun sem ættingi veitir. Þess eru dæmi að sá sem sinnir hinum aldraða mest einangri hann frá öðrum fjölskyldumeðlimum og jafnvel neiti þeim um aðgang að honum og málefnum hans. Það skapar mikla tortryggni og togstreitu sem kemur fyrst og fremst niður á þeim sem síst skyldi, gamalli manneskju í viðkvæmri stöðu.
Kúgað til að láta fé af hendi
Fjárhagslegt ofbeldi er skilgreint í mannréttindasáttmálum og það getur meðal annars falist í því að fólki sé gert ókleift af yfirvöldum í heimalandi sínu að lifa með reisn af þeim tekjum sem þeim eru skammtaðar. Inga Sæland þingmaður Flokks fólksins telur að þannig séu aðstæður hér á landi og hún hefur verið óþreytandi að benda á þetta, nú síðast þegar hún fékk frestað gildistöku laga um niðurfellingu persónuafsláttar þeirra sem búsettir eru erlendis. Margir telja einnig að skerðingar á launagreiðslum aldraðra feli í sér fjárhagslegt ofbeldi sem og dvalargjaldið sem fólk á hjúkrunarheimilum þarf að greiða af tekjum sínum.
En fjárhagslegt ofbeldi getur einnig verið nærtækara og persónulegra. Þess eru dæmi að ættingjar beinlínis þvingi aldrað fólk til að láta þá hafa fé eða eignir. Slíkur þrýstingur er ofbeldi en viðkvæm staða hins aldraða gerir það að verkum að hann óttast einsemd og afleiðingar þess að kvarta undan yfirgangi skyldmenna sinna. Nærtækt er að nefna nýlegt mál fyrir dómstólum hér þegar kona var dæmd fyrir að fá aldraðar heilabilaðar systur til að afhenda sér verðmæt málverk og muni. Konan var þeirra helsti umönnunaraðili og hafði einnig fengið umboð til að sjá um fjármál annarrar systurinnar. Þetta nýtti hin dæmda til að kaupa lúxusfatnað, frí fyrir fjölskylduna og fleira og borgaði með kreditkorti systurinnar. Eldra fólk er líklegra en yngra til að verða fyrir barðinu á svikahröppum af þessu tagi og sömuleiðis er það í sumum tilvikum netsvindlurum auðveldari bráð því það þekkir tölvur og tækni ekki nægilega vel til að geta varast.
Alþjóðlegur vandi
Samkvæmt skýrslu WHO er ofbeldi gegn öldruðum alþjóðlegur vandi sem ber að bregðast við vegna þess mikla skaða sem það veldur þolendum og þá um leið samfélaginu. WHO áætlar að tæp 16% fólks sem er 60 ára og eldra verði fyrir ofbeldi annað hvort inni á heimilum sínum eða á dvalar- og hjúkrunarstofnunum. Tekið er fram í skýrslunni að líklegt sé að talan sé talsvert hærri þar sem gögn bendi til þess að aldrei sé tilkynnt um mikinn fjölda brota gegn öldruðum. Andlegt ofbeldi er algengast samkvæmt WHO en næst á eftir kemur fjárhagslegt ofbeldi, þá vanræksla, líkamlegt ofbeldi var í fjórða sæti og kynferðislegt ofbeldi óalgengast. Þess ber þó að geta að margt bendir til að eldra fólk sé mun ólíklegra en yngra til að tilkynna kynferðislegt ofbeldi, en talið er að aðeins um 30% kynferðisbrota séu tilkynnt.
Rannsóknir annars staðar sýna mun lægra hlutfall ofbeldis gegn öldruðum. Nefna má að norsk rannsókn sýndi að hlutfall aldraðra sem verða fyrir ofbeldi þar er á bilinu 5-7%. Í Bretlandi sýndi sambærileg rannsókn að einn af hverjum þrjátíu í aldurshópnum 60-75 ára hefði orðið fyrir ofbeldi en einn af hverjum fimmtíu eftir sjötíu og fimm ára aldurinn. Það bendir til þess að þar í landi eigi ofbeldið sér frekar stað milli nákominna en inni á stofnunum.
Nokkrar íslenskar rannsóknir hafa verið gerðar á ofbeldi gegn öldruðum hér á landi en engin hefur birt afgerandi tölur um umfang vandans. Þó er hægt að fullyrða að hann er til staðar hér og frekari rannsókna er þörf. Ein ástæða þess að erfitt að segja til um hversu útbreitt ofbeldið er, er að aldraðir segja síður frá og skilgreina oft ekki ofbeldi á sama hátt og yngri kynslóðir. Þeir eru aldir upp við að taka því sem að höndum ber og bíta á jaxlinn í erfiðleikum. Það er því mjög erfitt að fá sumt fólk til að tala um reynslu sína og ekki eru allir tilbúnir til að taka þátt í rannsóknum.
Aukin meðvitund lögreglu og almennings
Sumir telja að þöggun hafi ríkt um ástandið og í skýrslu greiningardeildar lögreglu sem unnin var að beiðni lögreglustjóra og birt árið 2021 er fjallað um hvernig lögreglan getur orðið meðvitaðri um ofbeldi gegn öldruðum einkum þá vanrækslu, sem getur flokkast sem ofbeldi, líkt og skortur á virðingu fyrir reisn og sjálfsákvörðunarrétti viðkomandi. Þar er sagt: „Efla þarf vitund innan löggæslunnar um ofbeldi gegn öldruðum. Lögreglumenn fá ekki sambærilega þjálfun við að greina ofbeldi gegn öldruðum og önnur afbrot. Jafnframt þarf að eiga sér stað fræðsla/þjálfun um birtingarmyndir ofbeldisins sem og samskipti við fórnarlömb. Liður í stefnumótun þarf að felast í fræðslu um hvernig haga eigi samstarfi við aðra sem að málaflokknum koma t.a.m. félagsþjónustu.“
Lögreglan hyggst einnig móta stefnu um hvernig taka skuli á málum af þessu tagi en í skýrslunni er einnig talað um mikilvægi þess að almenningur sé meðvitaður um að vandinn sé til staðar. Sigrún Huld Þorgrímsdóttir hefur lyft grettistaki í þá átt með skrifum sínum og fræðslu um ofbeldi gegn öldruðu fólki og á facebook-síðunni: https://www.facebook.com/farsaeloldrun er að finna gagnlegar upplýsingar og mikinn fróðleik um þetta efni. Hér er einnig slóð á fyrirlestur Sigrúnar Huldar um þetta efni: https://www.youtube.com/watch?v=EHF6SR74dpE&t=9syoutube.com/watch
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.
Í kjölfar birtingar greinarinnar hér að ofan barst Lifðu núna tölvupóstur frá Neyðarlínunni. Þar kemur fram að á vefsíðu þeirra er að finna margvíslega fræðslu um ofbeldi gegn öldruðum og verðmætar upplýsingar um hvert er hægt að leita. Hér að neðan fylgir kafli úr tölvupóstinum.
„Neyðarlínan heldur úti svokallaðri ofbeldisgátt á 112.is [1] þar sem fjallað er um birtingarmyndir ofbeldis og úrræði til að brjóta vítahring ofbeldis. Fjallað er um efnið út frá ólíkum sjónarhólum, bæði ólíkar tegundir ofbeldis (ss. kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum, mansal) og fyrir ólíka áhorfendur (gerendur, þolendur, aðstandendur).“