Og svona lágvaxin

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

Tíminn er dálítill „furðufugl“. Við eldumst en finnst eigi að síður að við séu hið innra alltaf eins. Þessi hugsun er líklega mjög algeng. En sumir sjá aldur og tíma í óvenjulegra samhengi. Um daginn kom kona til mín í heimsókn. Þegar hún kvaddi sagðist hún vera að fara að velja hjól í afmælisgjöf handa tengdaföður sínum.

„Hvað er hann gamall,“ sagði sonardóttir mín 7 ára.

„Hann er að verða sjötíu ára,“ sagði konan og brosti til stelpunnar.

„Vá“, sagði sú stutta.

„Það er nú svo sem ekkert merkilegt. Amma þín á líka bráðum stórafmæli,“ sagði þá konan.

Stelpan horfði á mig stórum augum. Leit á konuna og svo aftur á mig og sagði:

„Virkilega – og svona lágvaxin!“

Þegar tvíburasynir mínir voru fimm ára fór ég með þá í Árbæjarsafn. Við skoðuðum öll gömlu húsin, gömlu húsgögnin og gömlu áhöldin. Eftir þá hringferð alla vorum við svo aftur komin á torgið fyrir framan útgang safnsins. Þá kemur strákur gangandi á svipuðum aldri og synir mínir. Tvíburarnir horfðu með mikill athygli á aðkomustrákinn, sem var í ullarpeysu og stuttbuxum með axlabönd. Svo hvíslaði annar sonur minn að mér: „Mamma – er þetta gamalt barn?“

Svona má líta á aldurinn frá misjöfunum sjónarhornum.

Allir vilja lifa en enginn vill verða gamall, segir einhvers staðar. Það er á vissan hátt satt. Við tökum aldrinum misjafnlega. Einhvers staðar á lífsleiðinni glata ýmsir barninu í sér og líklega er það töluverður missir. Aðrir hafa ferska sýn fram í andlátið. Við köllum þá sem halda barninu fast í sér naívista. Þetta orð á sér listræna skírskotun. Naívismi er dregið af latneska orðinu nativus og merkir einfeldningslegur eða tilgerðarlaus. Naívismi vísar til listamanna sem ekki hafa fengið hefðbundna menntun og fylgja fremur eigin tilfinningu og sannfæringu en listrænum stílum eða aðferðum. Yfirfærð merking er svo notuð um fólk sem er að annarra mati „barnalegt“ í framferði sínu og tali.

Samt er eitthvað heillandi við naívista, barnið í þeim kallast á við barnið sem aðrir einu sinni áttu en hafa glatað eða haldið sofandi, kannski til þess að „mark sé tekið á þeim.“

„Keisarinn er ekki í neinum fötum“, sagði barnið í ævintýri H.C. Andersens. Þetta er orðtak sem oft er notað og vísar til afhjúpunar. Stundum sér maður og heyrir mjög aldrað fólk kasta frá sér viðteknum reglum og segja hlutina eins og barnið í ævintýrinu, – á mjög hreinskilinn hátt. Ekki er einfalt að eldast og halda æskunni í sér. Sumum tekst þetta þó svo vel að ekki gleymist, svo sem Chaplin. Honum tókst að láta barnið í hjörtum áhorfenda finna sárt til með sér. Kannski er „barnið“ í brjósti okkar ein helsta forsenda listar og sannleika.

Tíminn er ekki eitthvað sem hægt er að ganga að vísu. Sumt sem er löngu liðið er eins og það hafi „gerst í gær“, meðan annað, sem sem gerðist í gær er komið í órafjarlægð og varla hægt að kalla það fram í hugann. Tíminn er enda afstæður, sagði Einstein. Hann gat af kennisetningum sínum leitt út að tveir athugendur, sem hreyfast með jöfnum innbyrðis hraða (hvor í sínu tregðukerfi), sjá að jafngildir atburðir virðast ekki taka sama tíma hjá þeim. Þetta þýddi að tíminn væri afstæður, að framvinda hans væri ekki sá algildi og einsleiti eiginleiki sem áður var talið.

Eitt er víst, meðan við erum til höfum við tíma. Þann tíma eigum við sjálf og getum notað að eigin vild. Við skulum ekki „drepa tímann“, við skulum njóta hans.

 

Guðrún Guðlaugsdóttir júlí 31, 2014 10:35