Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar
Ég sit í stofunni minni heima á Akureyri. Þegar ég lít út um gluggan blasa við undurfögur glitský eða perlumóðuský. Þau hafa skreytt suðurhimininn alla vikuna og minnt á að daginn er aftur farið að lengja.
Ungur herra fékk að gista í nótt. Hann er mitt glitský innandyra þennan daginn. Ég sagði honum að ég ætlaði að skrifa smá grein en væri ekki búin að ákveða efnið. „Skrifaðu bara um mig“, var svarið hans. Ég ætla að gera það. Reyndar ekki bara um hann heldur um barnabörn almennt. Yngsta barnabarnið mitt er að verða 10 ára og þau elstu komin hátt á þrítugsaldur. Ég er rík kona, en maður gleymir því stundum.
Ég talaði við frænku mína í síma í gær. Hún er í fæðingarorlofi í annað sinn. Sá eldri er í leikskóla en hún er heima með þann yngri. Hún játaði fyrir mér að henni leiddist og að hún hlakkaði til þess að komast aftur út í atvinnulífið. Mín fæðingarorlof voru skorin við nögl en ég man að mér leiddist líka og beið eftir því að lífið yrði aftur eðlilegt. Frænkan sagði að hún áttaði sig alveg á því hve tíminn væri stuttur þegar börnin væru lítil, en samt leiddist henni.
Eitt barn í mínum hópi er í háskólanámi í Reykjavík. Við buðum henni og kærastanum í kvöldmat, sem ekki er í frásögu færandi. Hún er vegan og er í námi í umhverfisfræðum. Hún hefur opnað fyrir mér nýja hugsun í sambandi við daglega neyslu og veganfæðu. Þegar hún kvaddi gaf ég henni norska peysu, oft kallaðar íslendingur. Norska heimilishjálpin sem passaði pabba hennar hafði sent mér hana að gjöf 1975 þegar heim til Noregs var komið. Peysan er eins og ný, tæpum 50 árum síðar og eins og sniðin á umhverfisvæna barnabarnið.
Þessi peysa sem nú er aftur komin í notkun minnir mig á hversu tíminn líður hratt. Ungi maðurinn sem gisti í nótt er að fara að fermast í vor. Við ætlum að leggjast í víking í júní og ferðinni er heitið til Ítalíu. Við höfum farið í fermingarbarnaferð með öll eldri barnabörnin og eigum hafsjó af minningum úr þessum ferðum og höfum byggt upp tengsl sem ekki rofna. Við tölum oft um þessar ferðir og hlæjum saman af skondnum atburðum, sem eru óteljandi, margir á minn kostnað.
Ég hef alltaf verið að flýta mér. Ég veit ekki af hverju. Ég þarf stundum að minna mig á hvað skiptir máli og hvað ekki. Barnabörnin skipta máli. Þau eru það dýrmætasta sem maður á og tíminn sem maður fær með þeim gulls ígildi. Og það sem meira er, þá held ég að við skiptum líka máli fyrir barnabörnin. Bestu símhringingar sem ég fæ er þegar stoltur nemandi segir mér frá einkunnum úr prófi eða biður um að fá að koma í heimsókn og fá hjálp í dönsku. Það er heldur ekki slæmt þegar þau koma með poka af fötum til viðgerðar!
Ég er að safna þessum litlu minningarbrotum í perlumóðuskel og ætla að geyma þau og hlýja mér við þau, þegar elli kerling fer að herja harðar á mig.