Talaði við sjónvarpið til að verða ekki vitlaus

Það fylgja því bæði kostir og gallar að vinna heima. Danielle Lim framkvæmdastjóri og frumkvöðull skrifaði nýlega grein um þetta efni á  á vef Huffington Post. Lifðu núna endursagði og stytti greinina.

Danielle vann heiman frá sér í áratug og hún sagðist hafa fengið  tvennskonar viðbrögð frá fólki. Guð hvað það hlýtur að vera frábært og svo hinir sem spurðu; hvernig í ósköpunum ferðu að því að vera heima allan daginn. Hún segir að þó það hafi verið orðið nokkuð hversdagslegt fyrir hana að vinna heima  hafi hver dagur verið  áskorun.

Danielle segir að allar sjálfshjálparbækur séu uppfullar af því að þeir sem vinni heima eigi að koma sér upp ákveðinni rútínu. Það sé grunnurinn að velgengni. En hvar er rútínan þegar þú eyðir allri vikunni í sama rýminu. Þegar þú sefur nánast við hliðina á skrifborðinu þínu. Allir fundir sem maður þurfi að mæta á séu haldnir á mismunandi kaffihúsum út um alla borg því það þyki ekki faglegt að funda heima. Það sé því hægara sagt en gert að koma sér upp rútínu.

Þegar maður þarf ekki að fara út úr húsi til að fara á fund er engin ástæða til að halda sér til. Ég var yfirleitt í síðum bol eða náttfötum þá daga með hárið í lausum hnút, ómáluð. Mér finnst það ekki þess virði að vera að halda mér til þegar ég gat rúllað mér fram úr rúminu á morgnana og opnað tölvuna. Þess vegna héngu fínu vinnufötin mín ónotuð inn í skáp, gallabuxur voru það sem ég smellti mér í þegar ég ætlaði að dressa mig upp.

Þegar vinir mínir sem vinna utan heimilis fá leyfi til að vinna heima dag og dag, gorta þeir af því hvað þeim takist að gera mikið af heimilisverkum samhliða vinnunni. En þegar heimilið er vinnustaðurinn eru heimilisverkin það sem eyðileggur allan daginn fyrir manni. Mér finnst oft að ég heyri tauið í óhreinatauskörfunni kalla á mig og matardiskarnir óhreinir eða hreinir biðja stöðugt um athygli. Maður getur ekki flúið þetta. Draslið kallar á mann. Við erum tvö í heimili ég og maðurinn minn, ég skil ekki hvernig þeir sem eiga börn fara að því að vinna heima. Ég gæti það aldrei, skortur á næði og stöðugar truflanir myndu koma í veg fyrir að ég kæmi nokkru í verk.

Þögnin, þegar maður vinnur einn heima er ærandi og maður einangrast. Ég saknaði hávaðans af gömlu skrifstofunni minni. Að heyra samræður annarra. Að geta talað við einhvern. Stundum þegar ég var ein horfði ég á heilu þáttaraðirnar á Netflix. Stundum talaði ég við sjónvarpið, það kom í veg fyrir að ég yrði vitlaus.

Að vinna með öðrum og fyrir aðra örvar sköpunargáfuna. Maður getur rætt vandamál sem uppkoma við aðra og prófað nýjar hugmyndir á þeim. Maður fær stuðning sem maður fær ekki þegar maður er einn heima.

Suma daga afkastaði ég helling en aðra daga engu. Þegar þú vinnur utan heimilis þarftu að fara á fætur á ákveðnum tíma og koma þér á staðinn. Það myndi líklega enginn vinnuveitandi líða það að þú sætir aðgerðalaus heilu dagana. Erfiðustu dagarnir heima eru þegar manni dettur ekkert í hug.

Fartölvan mín og síminn voru límd við mig. Ég get ekki farið neitt nema vera með annaðhvort meðferðis. Sama á hvaða tíma sólarhrings ég þurfti alltaf að vera í sambandi svo ég missi ekki af einhverjum tækifærum. Það var enginn sem tók skilaboð fyrir mig eða svaraði tölvupóstinum,“ segir Danielle.

Þetta voru ástæður þess að hún ákvað að gefast upp á því að vinna ein. Þess fór hún að leigja vinnuaðstöðu með öðrum. Hún og félagi hennar stofnuðu fyrirtæki sem leigði skrifstofuhúsnæði sem þau framleigðu til annarra einyrkja. Danielle segir að eftir það hafi lífið orðið mun skemmtilegra.

Ritstjórn janúar 12, 2018 10:20