Tími til að gera ekki neitt

Hættu að skipuleggja sumarleyfið og slappaðu af segir Kamma Kronborg Heick á vef Danska ríkisútvarpsins. Hættu við að fara í skemmtigarða, sólarstrandir eða í borgarferðir.Heick ráðleggur fólki þess í stað að draga upp púsluspilið og púsla, leggja kapal eða skríða upp í sófa með góða bók til að lesa. Það sé leiðin til að slappa af í fríinu og endurnæra sál og líkama. Hún segir að fólk æði oft beint úr annasamri vinnu í frí sem sé ofskipulagt. Fólk ætli að komast yfir allt á stuttum tíma, sjá óteljandi söfn, kirkjur, nýja áfangastaði og svo framvegis.

Að láta sér leiðast

Margar stofnanir í Kaupmannahöfn vilja þessa dagana vekja athygli fólks á það sé gott að eyða fríinu í rólegheitum. Þá tekur fólk sér tíma til að gera eitthvað óskipulagt þó ekki sé  annað en að elda mat, reita arfa, fara í göngutúr eða hreinlega láta sér leiðast. Lona Jensen fjölskylduráðgjafi tekur heilshugar undir þessar hugmyndir. Hún segir að Danir kunni ekki að taka því rólega.Ef við viljum halda í við nágrannana og vini verður allt að vera á fullu í fríinu, segir hún.

Eykur hættu á hjónaskilnuðum

En ef fríið er ekkert annað en þéttpökkuð dagskrá viðburða verður lítið um afslöppun og fólk upplifir sumarleyfið sem streituvald, sem svo aftur eykur líkurnar á hjónaskilnaði í lok sumars, segir fjölskylduráðgjafinn.Sleppið frekar allri skipulagningu og leyfið tímanum að líða í rólegheitum og heimilinu að fara í svolitla óreiðu ráðleggur hún.Nú er tíminn til að gera ekki neitt.

 

 

Ritstjórn júní 29, 2016 10:51