Námskeið í tæknilæsi festa sig í sessi

Um tvö ár eru nú liðin frá því farið var af stað með fyrsta námskeiðið í tæknilæsi á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Þessi námskeið, sem haldin eru reglulega í félagsmiðstöðvum og eru opin öllu fullorðnu fólki án endurgjalds, hafa hjálpað mörgum að ná tökum á að nýta sér snjalltæki – snjallsíma og spjaldtölvur – til að sinna hinum margvíslegustu erindum sem þessi tæki nýtast nútímafólki til. Dæmi um slík erindi er að skiptast á skeytum og myndum (við afkomendur), skoða YouTube-myndbönd, fletta upp stöðunni á lífeyrisréttindum sínum eða skila skattframtali.

Tæknilæsi heyrir undir Velferðartæknismiðju Reykjavíkurborgar og er verkefnið einn þáttur í því yfirlýsta markmiði að rjúfa félagslega einangrun eldri borgara og bæta aðgengi þeirra að samfélagsþátttöku. Tæknilæsi byrjaði sem sumarverkefni sem var fyrst farið af stað með árið 2020, en það fellur fullkomlega að átaki sem stjórnvöld boðuðu í lok síðasta árs (og Lifðu núna greindi frá). Með hinu boðaða átaki vilja stjórnvöld stuðla að því að auka tæknilæsi hjá eldra fólki. Í nafni átaksins hefur verið óskað eftir tilboðum í slíka kennslu og markmiðið er að hjálpa eldra fólki um allt land að nýta sér þjónustu og rafræn samskipti á netinu. Með þessu er stefnt að því að draga úr félagslegri einangrun, gera fólki kleift að njóta afþreyingar og nota þjónustusíður á netinu.

Námskeiðin skulu vera miðuð að fólki sem er eldra en 60 ára og hefur þörf á námskeiði í tæknilæsi á snjalltæki á borð við spjaldtölvur og snjallsíma. Á tímum COVID-19 heimsfaraldursins hefur komið betur í ljós mikilvægi tölvu- og tæknilæsis fyrir alla. Samkomutakmarkanir og sóttvarnaraðgerðir hafa varpað ljósi á hversu mikilvægt það er fyrir eldra fólk að fá öfluga og sérsniðna kennslu og þjálfun í tölvu- og tæknilæsi til að geta nýtt sér tæknina.

Vert er að taka fram að Tæknilæsisnámskeið velferðarsviðs Reykjavíkurborgar eru ótengd þessu útboðs-átaki ríkisins. Það á eftir að koma í ljós hvaða ávexti það átak mun bera utan borgarmarkanna.

Námskeiðin sem fara fram undir yfirskrift Tæknilæsis hafa mælzt mjög vel fyrir og því hefur verið boðið uppá þau með litlum hléum síðan þau fóru fyrst í gang í tengslum við Velferðartæknismiðju Reykjavíkurborgar. Þátttaka er ókeypis og þátttakendum býðst að fá lánaðar spjaldtölvur, hafi það ekki sínar eigin meðferðis.

Þátttakandi: Vill framhaldsnámskeið strax!

Blaðamaður Lifðu núna leit inn í kennslustund í einu svona Tæknilæsis-námskeiði, sem haldið var í Árskógum, félagsmiðstöð aldraðra í Neðra-Breiðholti í Reykjavík. Fimm áhugasamar konur á aldursbilinu 67 ára til áttræðs nutu þar leiðsagnar Veru Óskar Guðjónsdóttur og samstarfsfólks. Það vantaði því ekkert uppá að þátttakendur í námskeiðinu fengju góða þjónustu við að finna út úr hlutunum.

Þegar kennslustundinni lauk tjáði ein konan sem sat námskeiðið blaðamanni að sér hefði þótt það vera mjög gott. Það hefði hjálpað sér að átta sig á því að það væri í raun miklu auðveldara að gera það sem maður þyrfti og vildi á þessi tæki en hún hefði sjálf óttast eða haldið fyrirfram. „Nú vil ég helzt fá framhaldsnámskeið strax,“ segir hún ákveðin. Með því myndu líkur aukast á því að þekkingin sem hún hefði bætt við sig festist henni í minni.

Þegar blaðamaður ætlaði að beina spurningum til leiðbeinandans á þessu nýlokna námskeiði, Veru Óskar, mælti hún eindregið með því að hann talaði frekar við Hugin Þór Jóhannsson, upphafsmann Tæknilæsis-námskeiðanna.

Nokkru síðar náði blaðamaður tali af téðum Hugin Þór. Hann segir að vanalega séu þau fimm manna teymi sem sinni kennslunni á Tæknilæsisnámskeiðunum, og hann sé oftast aðalfyrirlesarinn. Nú sé komin regla á námskeiðshaldið. Reglan er sú að Tæknilæsisteymið hafi viðveru í hverri félagsmiðstöð aldraðra í Reykjavík í tvær vikur í senn. Fyrri vikuna sé kennt á snjalltæki sem nota Android-hugbúnað, hina vikuna á tæki frá Apple.  „Hugmyndin kviknaði upprunalega þegar móðir mín, Rannveig Ernudóttir sem einnig vann á Velferðarsviði borgarinnar, heimsótti ömmu sína og hún kvartaði undan því að vera stöðugt vísað á að sækja sér upplýsingar á einhverja heimasíðu á netinu þegar hún vildi vita eitthvað. Sér þætti sem hún væri ekki lengur læs á hið tæknivædda umhverfi sitt.“

Í öðru nýlegu viðtali tjáði Huginn Þór Guðrúnu Gunnarsdóttur, dagskrárgerðarkonu á Rás 1, að:

Nafnið Tæknilæsi er svar við vanda sem poppar upp meðal fólks sem við þekkjum úr starfinu á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, þar sem fólk var að kvarta undan að vera ekki læst á eigið tæknivædda umhverfi. Umhverfið var búið að breytast svo mikið með tækniþróuninni og það einhvern veginn upplifði að það gæti ekki lengur tekið þátt. Þá komum við þessu Tæknilæsisstarfi af stað. Við erum helzt að sækja í að aðstoða þá sem eru lengst frá þessu í rauninni. Viljum hjálpa þeim að komast almennilega inn í þetta. Það eru aðallega eldri borgarar, já. Og það eru þeir sem við erum búin að vera að þjónusta núna. Þátttakendur hafa verið frá ca. 65 ára og upp í yfir nírætt – mér vitanlega var elzti þátttakandinn hingað til 98 ára.

Þolinmæði nauðsynleg

Sumir hafa verið að fá aðstoð frá fjölskyldumeðlimum, en það gengur misvel, að sögn Hugins Þórs. Yngra fólk átti sig stundum ekki á því hversu mikla þolinmæli þarf til að kenna einhverjum eitthvað alveg nýtt. „Sumir hafa komið til okkar af öðrum námskeiðum, þar sem vandamálið hefur verið að þátttakandanum þótti of hratt farið í sakirnar.“ Spurður hvort framhaldsnámskeið séu í boði svarar Huginn Þór að það sé til skoðunar, en fólki sé líka frjálst að koma aftur og aftur á grunnnámskeiðið. Það geti líka mætt á frjálsa viðverutíma Tæknilæsisteymisins og fengið aðstoð við hvaða vandamáli sem er af þessu tagi. Þau séu líka búin að útbúa stutt kennslumyndbönd sem vistuð eru á opinni YouTube-rás Tæknilæsis, þar sem eitt afmarkað úrlausnarefni er tekið fyrir í hverju myndbandi. Nánari upplýsingar má líka sækja á Facebook-síðu Tæknilæsis.

Huginn Þór tekur líka fram að þótt námskeiðin séu vissulega fjármögnuð af Reykjavíkurborg sé ekki spurt til hvaða sveitarfélags fólk greiði sitt útsvar þegar það skráir sig á námskeið. Þau séu öllum opin. En skráning er nauðsynleg, aðallega vegna þess að ekki er unnt að kenna stærri hóp í einu en tíu manns.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn mars 3, 2022 07:00