Viltu vita hvaða þjónustu aldraðir foreldrar þínir eiga rétt á?

Margir standa frammi fyrir því að foreldrar þeirra eru farnir að eldast og þarfnast aðstoðar. Aðrir sem sjálfir eru að eldast þekkja ekki nægilega vel hvaða réttindi þeir hafa og hvaða þjónusta stendur þeim til boða.  Vefritið Lifðu núna hefur opnað Upplýsingabanka, sem er ætlað að greiða lesendum síðunnar leið að helstu upplýsingum sem snerta daglegt líf og réttindamál eldra fólksins í landinu. Upplýsingum, sem finna má á vefsíðum stofnana og fyrirtækja víðs vegar, en hagræði er af að hafa á einum stað, ekki síst fyrir þá sem eru minna tölvuvanir.

Gestir við opnun Upplýsingabankans

Erna Indriðadóttir sagði þegar upplýsingabankinn var formlega opnaður í gær, að það hefði alltaf verið hugmyndin að koma upp banka af þessu tagi á vefsíðunni. Hún sagði það hafa komið sér á óvart við vinnslu hans, hveru mikil þjónusta væri fyrir hendi við eldri kynslóðina í landinu, án þess að hún legði mat á hvort þessi þjónusta væri næg, eða nógu aðgengileg. En í Upplýsingabankanum væri stutt yfirlit yfir hana, þó bankinn væri engan veginn tæmandi.  Hún benti á að margar stofnanir haldi af miklum metnaði úti vefsíðum með upplýsingum fyrir þennan aldurshóp. „Við viljum leggja okkar af mörkum til að auka enn við þá upplýsingamiðlun með því að safna þessum upplýsingum saman á einn stað“, sagði hún.  Í Upplýsingabankanum er að finna stutt yfirlit yfir þjónustu sem til dæmis heilbrigðiskerfið og velferðarkerfi sveitarfélaganna veita.

Smelltu hér til að komast inná upplýsingabankann.

Vefritið Lifðu núna var stofnað árið 2014. Markmiðið er að bæta lífsgæði þeirra sem eldri eru og stuðla að aukinni umræðu um málefni þeirra. Smellirnir á síðuna jukust um 74% á síðasta ári. Eigendur vefritsins eru Erna Indriðadóttir og Jóhanna Margrét Einarsdóttir, sem báðar störfuðu sem fréttamenn á Ríkisútvarpinu á árum áður.

 

Ritstjórn maí 9, 2018 11:44