Tengdar greinar

Vinsælustu pistlarnir á Lifðu núna 2023

Á hverju ári skrifa nokkrir pistlahöfundar fyrir Lifðu núna og hérna kemur listi yfir mest lesnu pistla ársins 2023.

1.Elti engan á fastandi maga. Höfundur Jónas Haraldsson

Jónas skrifaði hér pistil eins og honum einum er lagið, enda varð hann mest lesni pistill ársins sem nú er að kveðja.  Umfjöllunarefnið voru samskipti hans við laganna verði í umferðinni. Grípum niður þar sem hann þurfti að aka frá heimili sínu niður í miðbæ að sækja dóttur sína sem þar var stödd.

Eitthvað var ungu konuna tekið að lengja eftir föður sínum svo hún hringdi um það bil sem ég renndi til hennar. Sími minn var ekki tengdur bílnum svo ég sótti hann í vasann og svaraði. Blá ljós lýstu í sömu andrá upp tilveru mína. Lögreglubíllinn var á sama horni og ég. Glæpamaðurinn var gripinn glóðvolgur. Ung lögreglukona sótti mig yfir í lögreglubílinn. Það var ekki eins dramatískt og í amerískri kvikmynd og mér var ekki ýtt með sveiflu í aftursætið. Lögreglukonan var prúð – og símaglæponinn silfurhærður og ekki líklegur til átaka. „Þú gerir þér grein fyrir brotinu,“ sagði lögreglukonan. Ég þrætti ekki fremur en fyrri daginn, fékk 1 punkt í kladdann, kvittaði á sektarpappírana og yfirgaf valdsins vagn. Dóttir mín tók á móti sakamanninum, miður sín vegna uppákomunnar, taldi hana sér að kenna sem alls ekki var rétt. Það var ég sem tók upp símann.

Til að lesa pistilinn í heild, smellið hér.

2.Taktur tilverunnar. Höfundur Gullveig Sæmundsdóttir.

Það er ótrúlegt hvernig hversdagslegir hlutir geta orðið kveikja að pistli sem um 10.000 manns sjá ástæðu til að lesa.

Ég viðurkenni að stundum er ég óþolinmóð og finnst hlutirnir ekki ganga jafn hratt og greiðlega fyrir sig og ég hefði helst kosið. Kennitalan segir mér hins vegar að ég verði að átta mig á því að takturinn í tilverunni breytist með árunum og mikilvægt að læra að aðlaga sig staðreyndum sem við fáum ekki breytt. Fyrir skömmu átti ég erindi á heilsugæslu. Miðað við umræðuna undanfarin misseri var ég viss um að ég myndi þurfa að bíða rosalega lengi og mér myndi leiðast mjög mikið 😊. Ég hafði því vaðið fyrir neðan mig, stakk símanum í handtöskuna og hafði bók með mér. Fyrr en varði beindist öll mín athygli hins vegar að auglýsingaskilti sem prýddi einn vegg biðstofunnar og öll óþolinmæði var á bak og burt.

Undirskriftin var: Heilsueflandi samfélag – Heilsueflandi framhaldsskóli – Embætti landlæknis – Heilsueflandi grunnskóli – Heilsueflandi leikskóli

Smellið hér til að lesa allan pistilinn.

3.Er virkilega hagkvæmt að við gerum allt sjálf? Erna Indriðadóttir skrifaði.

Það verður stöðugt algengara að  viðskiptavinir þurfi að afgreiða sig sjálfir, að hluta eða alveg. Um það fjallaði þessi pistill.

Ég skipulagði nýlega ferð til Bandaríkjanna, nánar tiltekið til New York og Tampa í Flórída. Ég gat flogið með íslensku flugfélagi til New York og síðan með ódýru bandarísu flugfélagi  þaðan til Tampa og aftur tilbaka til New York, þar sem ég ætlaði að dvelja í tvo daga á leiðinni heim. Ég þurfti að búa til reikning „account“ hjá báðum flugélögum með notendanöfnum og lykilorðum.  Og það má geta þess að ég er orðið með alls kyns reikninga og óteljandi lykilorð til að nálgast hitt og þetta á netinu. Allt gekk þetta vel, þar til að því kom að ég þurfti að aflýsa ferðinni af óviðráðanlegum ástæðum.  Ég  reyndi að fylgja öllum leiðbeiningum, þó þær væru ekki sérlega skýrar og svo var bara að vona, að mér hefði tekist að afpanta öll flugin og gistingu á tveimur hótelum. Ég sat þarna milli vonar og ótta, kófsveitt, því þarna var um töluverðar fjárhæðir að tefla og mikilvægt að gera allt rétt.  Allt tók þetta ótrúlegan tíma, líklega 1-2 daga allt í allt.

Pistillinn í heild er hér.

4.Fjórum sinnum Þórarinn. Pistill eftir Sigrúnu Stefánsdóttur.

Nöfn sem börnum eru gefin í dag eru býsna nýstárleg, en í sumum fjölskyldum ganga sömu nöfnin aftur og aftur í gegnum nokkrar kynslóðir. Þannig er það í fjölskyldu Sigrúnar Stefáns sem skoðaði hér tískuna í mannanöfnum.

Ég kíkkaði inn á síður Hagstofunnar og fann þar yfirlit yfir algengust einnefni í dag. Þar trónir Jón enn efstur en vinsældir nafnsins hafa þó dalað eitthvað. Árið 1703 hét fjórði hver karl á landinu Jón. Á eftir Jóni koma Sigurður, Guðmundur, Gunnar, Ólafur og svo framvegis. Hjá konunum hefur Anna skotist upp fyrir Guðrúnu, en þetta sama ár 1703 hét fimmta hver kona Guðrún. Á eftir Önnu og Guðrúnu koma Kristín , Sigríður, Margrét og Helga.

Við vorum sex systkinin og vorum öll skírð í höfuðið á öfum, ömmum og öðrum nánum ættmennum af þeirra kynslóð. Þegar amma Sigrún lést gaf afi mér gullúrið hennar af því að ég var elst af nöfnunum hennar. Mér fannst það mikil upphefð. Þessi nafnahefð gaf mér þá tilfinningu að ég tilheyrði fjölskyldu.

Pistilinn í heild má nálgast hér.

5.Hvenær fer fólk að fá sér „nap“?  Sigrún Stefánsdóttir skrifaði.

Athyglisverð spurning, sem Sigrún reynir að svara í þessum pistli.

Við sitjum á kaffihúsi í iðandi mannlífinu í Róm þegar ungi ferðalangurinn spyr ömmu sína óvæntrar spurningar – Hvenær fer fólk að fá sér „nap“? Í fyrst meðtók ég ekki spurninguna. Jú, hann er að spyrja mig um það hvenær á lífsleiðinni fólk fer að leggja sig og fá sér blund um miðjan daginn.

Ástæðan fyrir spurningunni er örugglega viku ferðalag með afa og ömmu sem leggja sig síðdegis þegar það er hvað heitast og kalla það „síestu“ að hætti heimamanna. Reyndar er það bara hallærisleg afsökun. Undanfarin ár höfum við gjarnan fengið okkur blund síðdegis en ekkert verið að flagga því.  Eina manneskjan sem hefur vitað af þessum veikleika okkar er systir mín. Þegar hún sér að gluggatjöldin eru dregin niður sleppir hún því að líta við hjá okkur. Hún gerir svo grín að mér næst þegar hún hringir. Ég held að henni finnist þetta ellimerki.

Smellið hér til að lesa pistilinn í heild

6.Þetta er fólkið sem reisti Ísland úr örbirgð til alsnægta. Höfundur Viðar Eggertsson.

Viðar Eggertsson er einn þeirra sem stundum skrifa pistla fyrir Lifðu núna og þessi pistill hitti sannarlega naglann á höfuðið.

„Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá“, segir í ljóði Davíðs Stefánssonar. Það má með sanni segja um elsta hluta íslensku þjóðarinnar. Eftirlaunafólkið sem er rúmlega 50 þúsund.

Þetta er fólkið sem fæddist í og uppúr kreppunni, þraukaði af umróti seinni heimstyrjaldarinnar og byggði upp þjóðfélagið frá örbirgð til allsnægta. Fólkið sem umbreytti þjóðfélaginu frá því að vera fátæk þjóð á hjara veraldar í að vera ein af ríkustu þjóðum heims.

Þetta er fólkið sem fær á sig óæskilega og niðrandi stimpla eins og „fráflæðisvandi“. Vandi, sem er í rauninni ekkert annað en kerfisvandi sem núverandi stjórnvöld bera fulla ábyrgð á. Allt önnur kynslóð.

Þetta er fólkið sem talað er um af óvirðingu sem þurfalinga og bagga á þjóðfélaginu, þetta er þó fólkið sem borgar hæstu skattprósentuna af litlum launum sínum til þjóðfélagsins, í formi allskyns skerðinga og jaðarskatta.

Lesið pistilinn í heild með því að smella hér.

 

  1. Fyrir alla muni. Hlín Agnarsdóttir skrifaði
  2. Sextug og hvað svo? Höfundur Inga Dagný Eydal.
  3. Prince Harry: Varadekkið og litli putti speleman… Inga Dóra Björnsdóttir skrifaði
  4. Skrifaðu bara um mig. Höfundur Sigrún Stefánsdóttir.

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn desember 31, 2023 07:00