Þessi kjúklingaréttur er sérlega bragðgóður og við allra hæfi, bæði ungra sem aldinna. Ekki of bragðsterkur en tekur samt svolítið í bragðlaukana. Þetta er réttur sem fer í uppáhaldsuppskiftabunkann.
1 kg kjúklingabitar, t.d. læri
1 knippi kóríander, söxuð, líka stönglar
2-3 hvítlauksrif
2 msk. sítrónusafi
2 msk. olía
1 dós kókosmjólk (400 ml)
1 tsk. salt
2 tsk. nýmalaður svartur pipar
Setjið kóríander, hvítlauk og salt í matvinnsluvél og hrærið þar til allt er orðið að mauki. Þetta má líka steyta í mortéli. Hrærið pipar og sítrónusafa saman við maukið og smyrjið því á kjúklingabitana. Látið þetta standa í eina klst. við stofuhita. Hitið olíuna á pönnu og brúnið kjúklingabitana létt á báðum hliðum. Reynið að láta sem mest af kóríandermaukinu sitja eftir á bitunum. Hellið að síðustu kókosmjólkinni á pönnuna og látið kjúklinginn malla í henni við miðlungshita í 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er soðinn í gegn. Hrærið því sem eftir var af kóríandermaukinu saman við þegar um 5 mínútur eru eftir af suðutímanum. Smakkið sósuna til og bragðbætið með pipar og salti efir smekk. Stráið dálitlu af fersku kóríander yfir réttinn þegar hann er borinn fram. Gott er að hafa hrísgrjón með þessum rétti og brauð ef vill.