Óttar Guðmundsson geðlæknir skrifar
Guðmundur góði Arason Hólabiskup (1167-1237) er ein mesta trúarhetja Íslandssögunnar. Uppeldi Guðmundar var eins og martröð barnasálfræðings. Hann var alinn upp á flækingi og barinn til bókar af ofbeldisfullum föðurbróður sínum. Guðmundur varð biskup þvert gegn vilja sínum fyrir tilstilli höfðingjans Kolbeins Tumasonar í Skagafirði sem taldi sig fá hlýðinn og prúðan biskup með Guðmundi. En sú var ekki raunin. Guðmundur barðist ótrauður fyrir málstað kirkju og kristni og bauð höfðingjaveldinu byrginn. Kolbeinn rak biskup frá Hólum. En Guðmundur hann líktist einna helst Kristi sjálfum, safnaði í kringum sig lærisveinum og fylgdarfólki og fór um landið og lofaði Guð. Þetta var dýrt fyrir biskupsstólinn og rambaði hann á barmi gjaldþrots sakir eyðslusemi og gæsku Guðmundar. Hann gerði víðreist um landið og blessaði ótal vatnsból og rak alls kyns óvætti út úr klettabeltum og björgum.
Guðmundur tók upp á arma sína fólk sem var utangarðs í samfélaginu og kom fram við það sem jafningja. Konum fannst þær fullgildur hluti af samfélaginu þegar þær voru í fylgd með Guðmundi. Honum tókst að skapa í kringum sig mannlíf þar sem jöfnuður og bræðralag ríkti og vísir að jafnrétti kynjanna.
Í Víðinesbardaga 1208 féll Kolbeinn Tumason í bardaga við menn biskups. Hann varð fyrir steinhnullungi sem kastað var í bardaganum. Enginn vissi nokkru sinni hver kastað hefði steininum svo að líklegast er að almættið sjálft hafi verið að verki.
Fram eftir öldum var Guðmundur biskup eins konar verndardýrlingur íslenskrar þjóðar. Hann vakti yfir hættulegum fjallvegum og fyllti vatnsbólin af guðlegum krafti.
Með tímanum hefur helgi biskups minnkað en stjarna Kolbeins Tumasonar hefur hins vegar risið hratt. Sálmurinn „Heyr himna smiður“ er einn vinsælasti jarðarfararsálmur samtímans. Ljóðið er fullt af auðmýkt og lotningu fyrir almættinu en þá eiginleika sýndi hann ekki í átökunum við biskup.
Ég hef heyrt íslenska kóra syngja sálminn í mörgum höfuðkirkjum Evrópu. Á slíkum stundum hugsa ég alltaf til Guðmundar góða og velti því fyrir mér hvað honum finnist um þessa óvæntu trúarlegu upphefð þessa andstæðings síns sem var margbannfærður.
Þetta er enn eitt dæmið um forgengileika lífsins. Þessir fornu fjandmenn hafa haft sætaskipti í mannvirðingastiganum. Kolbeinn Tumason er orðinn helgur maður en Guðmundur fallinn í gleymsku og dá. Sic transit gloria mundi!