„Hver vill útbrunna konu orðna fjörutíu og eins…“

Leikkonan, leikstjórinn, kennarinn, verkefnastjórinn, forstöðumaðurinn og leiðtoginn Ásdís Skúladóttir er mörgum kunn eftir að hafa komið víða við gegnum árin. Ásdís hefur frá mörgu að segja en við tæpum aðeins á nokkrum atriðum enda konan efni í heila ævisögu.

Öðruvísi félagsstarf

Ásdís Skúladóttir

Ásdís Skúladóttir

Margir tengja nafn Ásdísar við Frístundahópinn Hana-nú í Kópavogi sem hóf göngu sína þar að frumkvæði Hrafns Sæmundssonar á síðari hluta áttunda áratugarins og varð  hópurinn þekktur fyrir blómlegt starf og mikla virkni fólksins. Hópurinn átti fyrst að vera venjulegur gönguhópur fyrir 50 plús en þróaðist út í allskonar hópa, til dæmis bókmenntahóp, tónlistarhóp og framsagnarhóp. Einnig voru alls kyns fræðslukvöld, stutt og löng ferðalög heima og erlendis að ógleymdum kleinukvöldunum og öðrum dýrðlegum skemmtunum. Frístundahópurinn óx hratt og Ásdís Skúladóttir var starfsmaður hans og studdi við og leiddi starfið. Þegar hæst lét voru liðlega 600 manns á útsendingarlista.

Gönguhópur  „Hana –nú“  gengur enn  þann dag í dag og Bókmenntahópur Hana-nú er í fullu fjöri undir handarjaðri Hrafns Harðarsonar í Bókasafni Kópavogs.

„Hana-nú var í rauninni merkileg byrjun að allt öðruvísi félagsstarfi en vaninn hafði verið hjá eldra fólki. Við lögðum mikið upp úr því að fólkið sjálft væri virkt og réð ferðinni með stuðningi frá starfsmanninum. Hann var sá sem studdi við það sem fólkið vildi gera. Þetta var brautryðjendastarf hjá Kópavogsbæ og vakti mikla athygli meðan það var. Félagar í Hana-nú tóku sig til og stofnuðu leikhóp sem var mjög virkur á tímabili og starfaði meðal annars í samvinnu við Leikfélag Kópavogs. Sá hópur fór til dæmis hringferð í kringum landið á ári aldraðra með verkið Smellurinn – bland í poka. Þar var sko ekki slegið af í þá daga. Algjörir ellismellir og mikið hæfileikafólk þar á ferð,“ segir Ásdís.

Hugmyndafræði til höfuðborgarinnar

Kolrassa krókríðandi

Kolrassa krókríðandi

Í framhaldi af  uppbyggingu  Hana-nú stofnaði Ásdís til verkefnisins „Kynslóðir mætast 2000“ sem var samvinnuverkefni Grunnskóla og félagsmiðstöðva fyrir fullorðna í Reykjavík. Upp úr því verkefni var hún ráðin verkefnisstjóri um að þróa breytta stefnu í félagsstarfi fullorðinna í Reykjavíkurborg að tilhlutan Láru Björnsdóttur, þáverandi félagsmálastjóra borgarinnar. Lára vildi fá sem mest af hugmyndafræði Hana-nú inn í starfsemi borgarinnar. Ekki var hægt að nota Kópavogsmódelið beint í Reykjavík því að borgin var náttúrulega miklu stærri en Kópavogur og lýtur öðrum lögmálum sögulega, skipulagslega og landfræðilega séð. Þetta endaði með því að Ásdís var ráðin forstöðumaður Félagsmiðstöðvarinnar í Hæðargarði 31 í Reykjavík og það var í fyrsta sinn sem hún réð sig í vinnu til lengri tíma þá orðin 60 ára gömul og hafði alltaf verið lausamaður á vinnumarkaði. Hún var forstöðumaður í Hæðargarði í tíu ár. „Ég fastréð mig aldrei til lengri tíma. Ég tók að mér verkefni og verkefnastjórn í ákveðinn tíma og fastréð mig í afmörkuð verkefni eða til skemmri tíma hjá RÚV, RKÍ, Húsnæðismálastofnun, var kennari í Melaskóla, Kvennaskólanum, Leiklistarskólanum og vann fyrir sveitarfélög, til dæmis tillögu að heildarskipulagi öldrunarþjónustu í Neskaupstað,“ segir hún.

 

Frílansið gekk ekki lengur

Hún bætir við til gamans að hún hafi unnið við síldarsöltun heima á Eskifirði „í den“ og vann á bensíndælu og í sjoppu Kaupfélags Eskifjarðar, var á fullu að salta síld ofan í tunnur í síldarævintýrinu fyrir austan, vann í Hraðfrystihúsinu og „seinna vann ég hjá Bæjarútgerðinni hér í Reykjavík. En ég var fyrst og fremst leikari og leikstjóri og vildi halda mig við leikhúsgyðjuna Thalíu og geri það enn. Ég er með leiklistarskólapróf, kennarapróf, BA-próf og diplóma í stjórnsýslu og bílpróf – má keyra 12 manna rútu. Með svo fjölbreytta menntun og reynslu hafði ég mikla möguleika á því að vera frílans en þar kom að það gekk bara ekki upp lengur,“ útskýrir Ásdís og  bætir við að það hafi verið ákveðið öryggi fyrir sextuga konu að fastráða sig því „„Hver vill útbrunna konu orðna fjörutíu og eins“, eins og skáldið sagði.“ „Ég sá fram á að síminn hlyti að hætta að hringja. Gífurlega vel menntað, hæfileikríkt og spennandi ungt fólk var komið upp að hliðinni á mér á öllum sviðum bæði í ranni Thalíu og félagsfræðunum. Samkeppnin er mikil í leiklistinni,“ segir hún.Ásdísi fannst frábært að starfa með fólkinu  í Hæðargarði. Það að stuðla að virku félagsstarfi fólks sé ekki allsendis ólíkt því að vera leikstjóri í leikhúsi. Í leikhúsinu sé það leikarinn sem skipti máli, hans sköpun og vellíðan á sviðinu. Það sama gildi í félagsstarfi, þar sé það fólkið sem sækir félagsstarfið sem sé mikilvægast og að það fái að njóta hæfileika sína. Án leikara sé ekkert leikhús, án fólksins sé ekkert félagsstarf.

Lífið er lærdómur

Ásdís í eldhúsinu

Ásdís í eldhúsinu

Ásdís hefur leikið mikið. Hún tók þátt í fjórum Herranóttum á sínum tíma og lék síðan hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó þar sem hún lék í Saumastofunni, Spanskflugunni, Skáld-Rósu. Seinna fór hún að leikstýra í Iðnó, svo Borgarleikhúsinu, á Akureyri og hjá fjölmörgum áhugamannaleikfélögum. Verkin eru mörg en þeirra á meðal eru til dæmis Ljón í síðbuxum og Ronja ræningjadóttir í Borgarleikhúsinu. Hún leikstýrði nokkuð oft í Færeyjum, Þórshöfn og Klaksvík og einnig í Vasa í Finnlandi. Síðan var hún um skeið með eigið leikhús, ÁS leikhúsið. Nú síðast setti hún á svið fyrsta opinbera fyrirlestur  kvenmanns á Íslandi. Það var Bríet Bjarnhéðinsdóttir sem flutti hann í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík 30. desember 1887. Fyrirlesturinn hét „Fyrirlestur um hagi og réttindi kvenna“. Sjö leikkonur fluttu fyrirlesturinn og Hlín Gunnarsdóttir gerði leikmynd og sá um búninga sem auðvitað voru peysuföt.

Þegar hún er spurð um hvað hafi  standi upp úr eða verið lærdómsríkast getur hún ekki svarað. „Lífið er allt einn lærdómur, sama hvað maður fæst við. Allt er þetta lærdómur og tvinnast saman í eina heild,“ svarar hún þó  og ákveður að lokum að draga út atburð. Henni finnst nefnilega merkilegt að hafa tekið þátt í að kjósa Vigdísi Finnbogadóttur forseta Íslands

„Það var æðisleg upplifun, stórkostlegt að hafa upplifað þann tíma. Hún var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur þá og ég sat með henni í leikhúsráði. Hópurinn í Iðnó vann allur að hennar gengi á ýmsan hátt og var stoltur af. Svo er það auðvitað Kvennafríið árið 1974. Þá var magnað að vera niðri á Lækjartorgi. Þvílík dagur,“ segir Ásdís.

 

Með kakó og teppi í rúgbrauði

Við leiðum talið aftur að Kópavogi. Ásdís vann mikið með unglingum og henni finnst ánægjulegt þegar vel gekk og tókst að styðja nemanda áfram. „Ég vann mikið með unglingum í Kópavogi. Við, ég og Tolli myndlistamaður, vorum saman með unglinga í Kópavogi, stóðum að fyrstu unglingaráðstefnunni á Íslandi og ég var líka í útideildinni í Kópavogi. Þá var mikið um að krakkar voru að djamma í bænum og gengu heim frá Reykjavík því þá voru ekki strætóar sem gengu á milli nógu seint fyrir krakkana. Þau voru greyin að brölta þarna gangandi heim í Kópavoginn misjafnlega á sig komin. Við vorum á stóru rúgbrauði með heitt kakó og teppi handa krökkunum aftur í rétt hjá Austurvelli en þar var alltaf aðalhasarinn á þessum árum. Þau vissu af okkur og leituðu mikið til okkar þó ekki væri nema til að kjafta smá. Ég held að hjá mörgum þeirra hafi þetta skapað öryggiskennd. Þetta var afskalega gefandi starf en gat verið mjög erfitt, maður lenti í ótrúlegum aðstæðum í næturlífinu. Upp úr þessu varð fyrsta ráðstefna unglinga sem haldin hefur verið hérlendis það ég veit og þar á ofan fyrsta félagsheimilið fyrir unglinga í Kópavogi,“ segir Ásdís. „Einu sinni var ég með með hóp atvinnulausra unglinga í Kópavogi á viku námskeiði í Ölfusborgum og á allt öðrum tíma var ég með námskeið í heila viku á sama stað með málm– og  skipasmiði sem voru hættir að vinna eða að undirbúa verkalok. Þeim þótti mörgum lítið til þess koma sem þá var almennt boðið upp á í félagsheimilum fyrir fullorðna! En þetta var námskeið sem beindist að því að benda þeim á ýmsa aðra möguleika sem hugsanlega gætu staðið þeim til boða,“ rifjar hún upp.

 

Lítill sem enginn skilningur

Ásdís er fædd á Eskifirði en fluttist á unglingsaldri með foreldrum sínum til Reykjavíkur. Hún hefur næstum alla tíð síðan átt heima í Reykjavík, í kennarablokkinni frægu í vesturbænum. Vesturbærinn er minn

Ásdís heima

Ásdís heima

„heiðardalur“ en margir halda að hún búi í Kópavogi þar sem hún starfaði þar lengi auk þess að vera framvörður Frístundahópsins. Hana-nú. Það var ekki algengt að fólk væri í lausamennsku þó að í dag þyki það sjálfsagt. „Það skildi mann enginn eða afskaplega fáir. Menn luku námi og fóru svo í fast starf eða ekki, konur giftu sig og urðu húsmæður eða fóru í hálft starf. Það var í lagi að þær færu í fullt starf ef mennirnir þeirra voru í námi. Það var stundum erfitt að vera lausamaður á vinnumarkaði, til dæmis þegar maður tók að sér of mörg verkefni í einu og óttaðist að ekki byðist neitt á næstunni. Þetta voru oft gríðarlegar tarnir en svo gat komið hvíld inn á milli. Það kallaði ég alltaf „sumarfrí“. Ég fór ekki í hefðbundin sumarfrí í fjöldamörg ár. Svo var það skatturinn. Það var ekki nokkur leið fyrir skattinn að skilja að það kostaði peninga að vera með allar græjur og atvinnurekstur/skrifstofuhúsnæði á eigin heimili. Menn höfðu engan skilning á fólki sem ekki réð sig í fast starf frá níu til fimm,“ segir hún.

 

Út í garði

Út í garði

Aldursfordómar

Ásdís er 71 árs og er hætt „formlegri“  vinnu en alls ekki af baki dottin enda berast henni ennþá spennandi verkefni eða hún skapar þau sjálf því hún er einn af stofnendum U3A á Íslandi sem er félagsskapur sem varð til fyrir tilstuðlan Ingibjargar Rannveigar Guðlaugsdóttur til að virkja fólk betur á efri árum og gefa því tækifæri til að lifa lífinu betur en ella og undirbúa þetta æviskeið. U3A stendur fyrir The University of the Third Age og eru alþjóðasamtök upprunnin í Frakklandi og vel þekkt á norðurlöndum, flestum Evrópulöndum, Kína og Bandaríkjunum svo eitthvað sé nefnt. Ef einhver vill vita meira um U3A þá er  heimasíðan u3a.is. Ásdísi finnst ömurlegt að fólk sé gert útrækt af vinnumarkaði 70 ára gamalt og bendir á að þannig viðmiðanir séu löngu úreltar.Nú lifi fólk miklu lengur og geti átt mörg virk og góð ár eftir sér og samfélaginu til „auðlegaðar“. Það  sé fáránlegt að ýta því út úr samfélaginu vegna aldurs burt séð frá hæfni og getu. „Þetta eru aldursfordómar og að mínu mati hreint mannréttindabrot á okkur eldra fólkinu“ segir hún „og Hana-nú“!

Viðtal og texti: Guðrún Helga Sigurðardóttir

Ritstjórn maí 15, 2015 12:39