Ostakaka um helgi
Botn:
50 g smjör, bráðið
200 g blanda af Oreokexi og hafrakexi
Sett saman í matvinnsluvél og keyrt áfram þar til kexið hefur maukast vel. Þrýstið þessu síðan í botn og upp á hliðar á ca 23 cm lausbotna formi. Best er að klæða botninn með bökunarpappír áður en kexblandan er sett í. Geymt í kæli í u.þ.b. 20 mín. eða meðan fyllingin er búin til.
Fylling:
600 g rjómaostur
1 lítil dós skyr
1 dl rjómi
3 egg
125 g sykur
2 msk. maísmjöl
1 tsk. vanillupaste eða góður vanillusykur
1 msk. instant kaffi
Hitið ofninn í 170-180°C. Hrærið saman rjómaostinn og skyrið þar til það hefur blandast vel saman. Bætið rjómanum, eggjunum, sykrinum og maísmjölinu saman við og hrærið vel. Bætið að lokum vanillunni saman við og myljið kaffið milli fingranna og blandið síðan saman við.
Takið formið með botninum út úr ísskápnum. Hellið ostablöndunni yfir kexbotninn. Setjið formið á bökunarplötu og bakið neðarlega í ofni í 40-45 mínútur. Slökkvið þá á ofninum og látið kökuna bíða í ofninum í 45-60 mínútur. Þetta minnkar líkurnar á að það komi sprungur í kökuna.
Bláberjagljái:
fersk bláber
flórsykur
rifsberjasulta
Setjið bláber og örlítið af flórsykri saman í pott og látið suðuna koma upp. Bætið smá rifsberjasultu saman við, má nota annars konar sultu ef vill. Þegar blandan er farin að mýkjast er slökkt undir pottinum. Þegar sultan er aðeins farin að kólna er meiri berjum bætt við og hrært vel saman. Blöndunni er hellt yfir ostakökuna og nokkrum ferskum bláberjum dreift yfir.
Kakan er góð samdægurs en oft betri daginn eftir og jafnvel enn betri daginn þar á eftir. Geymist í kæli.