Björg Þórarinsdóttir ákvað árið 2003 að fara að spila golf og byrjaði á því að fara á golfskóla á Spáni. Þegar hún kom heim og tók fyrsta hringinn á vellinum hjá Golfklúbnum Oddi, hitti hún Örn Arnþórsson „Og síðan höfum við verið saman“ segir hún og brosir. Þau búa saman í fallegri íbúð á Laugarnesveginum, en Björg var fráskilin þegar þau kynntust og Örn ekkjumaður. Örn var keppnismaður í bridge í áratugi og var í heimsmeistaraliðinu í bridge, sem vann Bermudaskálina í Yokohama árið 1991. Allar hans frístundir fóru í að spila bridge, en að lokum lagði hann það á hilluna og sneri sér að golfi.
Of seint að verða heimsmeistari
Hann byrjaði í golfinu um síðustu aldamót og segist spila ánægjunnar vegna. „Ég byrjaði of seint til að verða heimsmeistari í golfi“ segir hann kíminn. Björg og hann eru nýkomin úr golfferð til Spánar og hafa hugsað sér að fara til Flórída að spila golf í haust. Þetta gera þau til að lengja golftímabilið. Örn segir að flestir í Golfklúbbnum Odda, sem var stofnaður af fólki í Oddfellow reglunni tilheyri eldri kynslóðinni. „Ég myndi telja að um 70% félaganna séu komnir yfir fimmtugt“, segir hann.
Eldra fólk hefur meiri tíma
Þau segja að golfið sé mjög gott fyrir alla, en þeir sem eldri eru hafi betri tíma til að stunda það. „Það er erfiðara fyrir ungt fólk með lítil börn að vera í golfi“ segir Örn. Það tekur rúma fjóra tíma að fara einn hring á 18 holu velli og svo bætist við kaffi eða öl með félögunum og spjall á eftir eins og gengur. Björg segir að helstu kostirnir við golfið, séu hreyfing, útivist og samskipti við annað fólk. „Golfið er til dæmis gott fyrir einhleypa og þá sem hafa misst maka eða eru einir einhverra hluta vegna“.
Hægt að spila við hvern sem er
Golfið fær menn til að sýna sínar bestu hliðar“, segir Örn. „Menn eru líka kurteisir. Allir hafa einhvern tíma verið byrjendur og sýna því skilning þegar aðrir eru að stíga sín fyrstu skref“. Menn spila saman fjórir í „holli“. Björg segir ekkert mál að skrá sig í hvaða holl sem er og spila með hverjum sem er. Þannig fylgi golfinu mikil samskipti og þeir sem fari eina umferð á 18 holu velli, gangi samanlagt 10 kílómetra.
Spila golf á níræðisaldri
Þau segja að ALLIR geti spilað golf. Björg telur mjög gott að kynnast golfinu í golfskóla eins og hún gerði, þannig sé fólk leitt inní íþróttina. Þau segjast þekkja fólk sem enn spilar komið á níræðisaldur. „Það er hægt að spila langt fram eftir aldri ef þú heldur heilsunni“, segir Örn. Björg segir að þegar fólk eldist og það verði því erfitt að draga golfkerruna, geti það fengið sér rafknúna kerru og dugi það ekki til sé hægt að keyra um völlinn í litlum golfbíl. Þannig sé hægt að halda áfram að spila fram eftir öllu.
Varla hægt að slasa sig í golfi
„Okkur líður vel í golfinu“ segir Björg. Hún segist eiga erfitt með að sitja og gera ekki neitt. Það eigi ekki við sig að sitja í sumarbústað og lesa bók. Hún vilji hafa eitthvað fyrir stafni. „Og þá er æðislegt að fara í sumarbústaðinn og geta skroppið í golf í leiðinni“. Þau hafa líka mikla ánægju af golfferðum til útlanda. „Þetta er svipað og að fara í skíðaferð“, segir Örn. Menn fari í skíðaferð og geri ekki mikið annað en renna sér á skíðum. Svipað sé uppi á teningnum í golfferðunum sem séu fyrst og fremst farnar til að spila golf. „En menn þurfa ekki að vera hræddir um að brjóta sig í golfinu“, segir Björg. „Þú getur varla slasað þig í golfi og það er líka einn af kostunum við það“, segir hún.