„Hún lendir á fótunum þessi stelpa“

 

Eldhúsið hjá Sössu er matarlegt og minnir á spænskt eldhús þar sem matarástin ræður ríkjum.

Sassa hefur átt viðburðaríkt líf, fullt af gleði en jafnframt gengið í gegnum ýmis áföll í lífinu, nú síðast að missa vinnuna um sama leyti og hún gekk í gegnum skilnað. Hún hefur tekist á við krabbamein og fór í meðferð við því meini en síðan eru liðin 10 ár. Hún segir að sú dýfa hafi kennt sér margt og sýtir það ekki þótt hún hefði auðvitað kosið að veikjast ekki. Hún stendur nú á fimmtugu sem er viðkvæmur tími til að verða atvinnulaus en þrátt fyrir allt stafar lífsgleði af þessari konu sem kemur auga á tækifæri þar sem þau birtast.

Þegar einar dyr lokast…

Sassa er iðjuþjálfi og hefur starfað sem slíkur í 25 ár. Hún starfaði  lengi á barna- og

Hvar sem litið er í eldhúsi Sössu er uppstilling fallegra og matarlegra hluta.

unglingageðdeildinni og nú síðast í Hagaskóla þar sem hún hefur sannarlega lagt hjartað í starfið. Foreldrum barna sem hún hefur sinnt ber saman um að betri manneskja til að fást við vandamál unglinga sé vandfundin. Svo skrýtið sem það hljómar komst kerfið  að því að lækka ætti laun Sigríðar Ástu. Það ferli segir Sassa að hafi verið óskiljanlegt og hún hafi fengið á tilfinninguna að það hafi verið farið eftir röddinni “the computer says no” og enginn getað tekið af skarið og sett börnin í fyrirrúm. “Þetta var rosalegt áfall en ég þurfti að sætta mig við þetta svo nú er ég hætt og ætla að snúa mér að öðru,” segir Sassa og brosir uppörvandi en á bak við brosið er sorg yfir orðnum hlut. “Ég var alls ekki tilbúin til að hætta því í Hagaskóla hefur alltaf verið falleg stefna varðandi vellíðan barnanna sem þar stunda nám. Þau eru að fara í gegnum umbrotatíma á þessum aldri og mjög margt getur komið upp, allt frá ástarsorg upp í alvarleg veikindi og kvíði er sívaxandi vandamál meðal þeirra. Mig langaði ekki til að segja skilið við börnin mín í skólanum en ég vildi ekki láta bjóða mér launalækkun. Ég veit sjálf hversu mikið gagn ég var búin að gera en báknið er svo þungt að þegar starf mitt var metið af utanaðkomandi fólki komst einhver að því að þarna væri hægt að spara.” En þegar ljóst var að Sassa var að hætta í fyrrverandi vinnu fóru hlutirnir að gerast. Alls konar skemmtilegt fólk hafði samband við hana og tækifærin voru úti um allt. “Það var bara mitt að velja og ákveða hvaða skemmtiatriði yrði næst í lífinu,” segir hún og hlær. “Ég ákvað eftir nokkra umhugsun að fara í meistaranám í skapandi kennslu í Listaháskóla Íslands. Þar ætla ég að byrja í hálfu námi í haust og stækka mengið mitt svolítið. Síðan hef ég tekið að mér að kenna kúrs í lýðháskólanum á Flateyri sem er dásemdarstaður og ég ber miklar taugar til. Svo er ég að fara að taka verkefni fyrir Rauða krossinn í sambandi við flóttabörn með vinkonu minni. Ég er líka að vinna fyrir frábært fyrirtæki sem heitir KVAN þar sem ég er m.a. fengin inn í skólana þegar koma upp erfið mál. Ég tek þátt í að búa til námskeið fyrir nemendur, kennara og foreldra, allt til að auka lífsgæði og gleði og hamingju hjá alls konar fólki. Ég fer meira að segja til útlanda með hópa í námskeiðsferðir.” Sössu bíða gríðarlega skemmtileg verkefni í haust og hún er augljóslega eftirvæntingarfull. “Og svo langar mig að breiða út boðskapinn með paellurnar,” segir hún og hlær og vonandi fáum við hin að njóta góðs af því.

Kynnti sér spænska matargerð

Rósmaríngreinar eru látnar malla með í lokin.

Sassa er alin upp í fjölskyldu þar sem matargerð hefur verið í hávegum höfð. Forfeður hennar í báðar ættir var mikið áhugafólk um matargerð. Hún segir að hún hafi byrjað ung að bjóða öllu hverfinu í mat og man eftir að hafa boðið vinum sínum í spaghetti eða fiskibollur sjö ára gömul. Alltaf í rétti sem henni þótti sjálfri sérlega góðir sjálfri. Nú hefur matarsmekkur Sössu þróast enda fengu bragðlaukar hennar að þroskast vel þar sem hún ferðaðist mikið með foreldrum sínum og segir að þau hafi í raun borðað sig í gegnum ólíklegustu lönd.

Sassa féll algerlega inn í spönsku matarmenninguna þegar hún bjó þar í nokkur ár en hún og eiginmaður hennar fluttu til Spánar fyrir 14 árum og dvöldu þar í þrjú ár. “Það var búið að vera streitutímabil hjá okkur og þegar ég veiktist af krabbameini í ofanálag ákváðum við að nú skyldum við láta drauma okkar rætast og flytja tímabundið til útlanda. Upprunalega ætluðum við bara að vera í eitt ár en þau urðu þrjú. Foreldrar mínir komu með okkur fyrsta árið. Maðurinn minn og pabbi störfuðu saman og voru með útflutningsfyrirtæki og þeir gátu tekið starfsemina með til Spánar. Þetta var tvímælalaust besti tími lífs míns,” segir Sassa dreymin á svip. “Ég veiktist reyndar aftur af krabbameini þegar við komum heim en síðan eru liðin 10 ár svo lífið gengur vel. Ég notaði tækifærið og kynnti mér spænska matargerð í Valencia þar sem við dvöldum og við urðum ástfangin af paellugerð en paelluhefðin er mjög sterk í því héraði,” segir Sassa en nú hefur hún kennt allmörgum Íslendingum listina að gera góða paella og flytur nú inn pönnur og grjón til að nota við paellugerð.

Paella er samverumatur

Fjölskylda Sössu kynntist paelluhefðinni á Spáni og nú koma þau reglulega saman og borða þennan dásemdarrétt.

“Fyrst skildum við ekki lætin sem okkur fannst í kringum þennan rétt sem í okkar augum var bara hrísgrjónapottréttur,” segir Sassa og hlær. “Við höfðum smakkað paellu á veitingastöðum víða þar sem voru fallegar myndir af réttinum á matseðli en okkur fannst rétturinn ekkert sérstakur. Við tókum fljótlega eftir því þegar við vorum flutt til Valencia að spænskar fjölskyldur fóru gjarnan út að borða saman á sunnudögum og allir fengu paellu sem var pöntuð með dags fyrirvara. Samveran er Spánverjunum greinilega mikils virði og paella var sameiningartáknið. Við ákváðum að lokum að gefa þessum rétti séns og heilluðumst snarlega af honum. Eftir það leið engin helgi öðruvísi

en að borðuð væri ein paella þar sem setið var lengi og notið með vinum. Í litlum samfélögum borðar fólk paelluna gjarnan beint af pönnunni, allir í einu sem er tákn um nándina sem er Spánverjum mikilvæg.”

Ástarmaturinn

Hraustlega var tekið til matarins en mamman hélt eftir afgangi fyrir elsta soninn sem var ekki mættur í matinn. Allir höfðu fengið tvisvar á diskinn. Það segir sína sögu.

Upprunalega segir Sassa að paella hafi verið matur sem var eldaður fyrir vinnumennina á hrísgrjónaökrunum sem eru allt í kringum borgina í Valencia. “Þá voru notaðir allir afgangar og rétturinn var fyrst og fremst hollur og seðjandi. Með tímanum þróaðist rétturinn úr seðjandi rétti yfir í að verða heimsins besti sælkeraréttur,” segir hún brosandi. “Kúnstin er að vita hvernig maður eldar hráefnið á sérstakri paellupönnu eins og þessari,” og hún sýnir mér pönnu sem er stór og víð með sléttum botni en hún er hituð á sérstökum brennurum sem fylgja pönnunum. “Maður þarf að vita hvað á að setja á pönnuna og hvenær og allt þarf að gerast í réttri röð. Þessir brennarar fylgja pönnunum því það skiptir máli að pannan hitni jafnt en á gaseldavél er hætta á að hluti pönnunnar hitni meira en annar. Þegar paella er rétt elduð þá festist hráefnið örlítið við botn pönnunnar og karamellast svolítið án þess að brenna. Þá verður útkoman dásamleg.”

 

Hefðbundin kjúklingapaella  fyrir 5

1 kg kjúklingur (mér finnst best að nota lærakjöt úrbeinað)

3-4 hvítlauksrif

2 dl ólífuolía

1 smátt skorin græn paprika

2 msk. paprikukrydd

1/2 msk. colorante

salt

1 dl tómatmauk (Passat)

500 gr. hrísgrjón (kringlótt helst paella grjón eða grautargrjón)

kjúklingasoð ca. 2 lítrar

ferskar snjóbaunir

ferskt rósmarín á grein 2-3 greinar

(má setja sveppi, rauða papriku eða brokkólí saman við á seinni stigum eldamennskunnar ef þið viljið grænmeti með)

 

Olían er hituð og hvítlaukurinn brúnaður. Paprikunni bætt við, steikt í 1 mínútu og ýtt til kantanna á pönnunni. Kjúklingurinn brúnaður og því næst settur út á kantana. Kryddin rétt brúnuð á pönnunni og tómatmaukinu bætt svo við og brúnað í 1 mínútu. Kjúkling og papriku blandað vel saman við krydd og tómatblönduna og svo fært aftur út á kantana. Hrísgrjónin að lokum steikt í 1 mínútu og svo öllu blandað vel saman og dreift jafnt um pönnuna. Soðið sigtað og 2/3 hlutar hellt yfir pönnuna. Rósmaríngreinum komið fyrir á 2-3 stöðum á pönnunni. Þegar allt er farið að sjóða er hitinn lækkaður. Baununum er komið fyrir á víð og dreif um pönnuna þegar aðeins er liðið á suðuna. Síðustu 2-3 mínúturnar er hitinn aftur hækkaður og svo þarf paellan að standa í 2-3 mínútur áður en hún er borin fram.

Gott að bera fram með alioli, sítrónum og góðu brauði og tómatmauki sem Sassa býr til þannig að hún saxar niður innihald þriggja tómata, tekur hýðið frá, mer eitt hvítlauksrif, kreistir hálfa sítrónu og bragðbætir með salti og pipar.

Sólveig Baldursdóttir blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn júlí 5, 2019 07:57