Máluðu LOVE og PEACE á jakka og skólatöskur

Fyrir hálfri öld átti sér stað mikil gerjun í lífi ungmenna á Vesturlöndum og íslenskir unglingar fóru ekki varhluta af þeirri þróun, sem oft er kennd við árið 1968.  Ný tækifæri voru að opnast fyrir ungt fólk, tækifæri til aukinnar neyslu, menntunar og frjálsara kynlífs. Tónlist þessa tíma endurspeglaði breytingarnar og ungu kynslóðinni fannst sjálfsagt að feta aðrar slóðir en pabbi og mamma höfuð gert. Þessu er vel lýst í bókinni Rokksaga Íslands eftir Gest Guðmundsson, sem kom út árið 1990, en þar segir.

Þessa tilfinningu má að nokkru leyti rekja til þess að skólagangan var að lengjast. Forsendur hennar voru meðal annars síaukin fjárráð unglinga; skólaunglingar áttu ríflega vasapeninga og þeir sem hættir voru í skólum bjuggu heima, borguðu lítið heim og vissu ekki aura sinna tal. Hún byggðist líka á því að unglingunum buðust æ fjölbreyttari vörur sem voru sérhannaðar handa þeim: föt, plötur, farskjótar, skemmtanir og ferðalög.

Alþjóðleg unglingamenning var mjög að skipta um svip á þessum árum, segir í bókinni, og þungamiðja hennar færðist æ meira til ungs fólks í framhaldsnámi. Um leið tók unglingamenningin að blandast margs konar neðanjarðarmenningu sem hafði dafnað meðal ungs lista- og menntafólks, ekki síst í tónlist. Bresk unglingamenning hafði tekið afgerandi forystu með bítlabylgjunni 1963 til 1964 og meðal annars mótað unglingamenninguna í föðurlandi rokksins Bandaríkjunum.  Þar mótaðist svonefnd hippamenning meðal hópa bandarískra ungmenna, einkum í Kaliforníu. Blómasumarið 1967 bar tónlist hljómsveita á borð við Jefferson Airplane, Doors og Love hana um allan hinn vestræna heim, að því er fram kemur í bókinni og angar hennar bárust á sjálfsögðu til Íslands.

Hópar ungmenna lögðust út, prófuðu eityrlyf og reyndu nýja lífshætti í anda amerískra hippa, en miklu stærri hlutar æskunnar urðu fyrir einhverjum áhrifum. Þau voru oft yfirborðsleg í fyrstu og til að mynda nam hippamenningin ekki land á Fróni svo að heitð gæti fyrstu árin eftir blómasumarið 1967, en íslensk æska tók þó upp ýmis ytri einkenni hennar. Litskrúðug föt, blúnduskyrtur og blóm í hári urðu einkennismerki helstu hljómsveitanna hérlendis og hörðustu aðdáendanna.  Hljómsveitirnar stældu lög og stíl hinna nýju hljómsveita sem voru kenndar við sýrurokk og menn máluðu orð eins og Love og Peace á jakka sína, skólatöskur og húsveggi, en daglegt líf íslenskra unglinga var gerólíkt lífi þeirr unglinga sem mótað höfðu þess nýju tónlist og unglingamenningu.

Flestir rekja þessa þróun til upphafs Bítlanna í byrun sjöunda áratugarins, eða bítlaæðisins svokallaða. Fjöldi íslenskra hljómsveita varð einnig afar vinsæll meðal unglinganna hér á landi á svipuðum tíma og má þar nefna hljómsveitir eins og Hljóma, Pops, Dáta, Flowers og Óðmenn, en árið 1969 verður ákveðin uppstokkun í tónlistinni, í takt við það sem var að gerast erlendis. Þá verða til hljómsveitir eins og Ævintýri og Trúbrot og síðar Náttúra. Erlendis ruddi þjóðlagarokkið sér til rúms undir „villtri en öruggri“ forystu  Bob Dylans, segir í bók Gests Guðmundssonar og sú bylgja átt líka eftir að berast hingað, enda unglingamenningin og tónlistin samofin. Bítlakynslóðin streymdi svo inn í menntaskólana  í fyllingu tímans, „án þess að pakka niður plötunum sínum eða skipta um föt og hárgreiðslu“ segir í Rokksögunni og unglingsárin lengdust fram undir tvítugt og jafnvel lengur. Flestir tóku þó bítlamenningunni með töluverðu umburðarlyndi segir í bókinni.

Mæður og vinnuveitendur nöldruðu að vísu yfir útliti og skemmtanafýsn unglinganna og háværri tónlistinni, en enginn verulegur sannfæringarkraftur var í nöldrinu. Það voru uppgangstímar og engin ástæða til að amast við því að æskan nyti lífsins þótt með undarlegum hætti væri.

 

Ritstjórn júní 19, 2018 09:59