Lesendum Lifðu núna fjölgar ár frá ári og hér er listi yfir þær greinar sem voru mest lesnar á árinu sem er að líða.
- Missti 20 kíló hjá Báru á þremur mánuðum. Það var Björg Óttarsdóttir sem náði þessum frábæra árangri á TT námskeiði hjá Báru. Hvað gerðirðu? spurði blaðamaður Lifðu núna Björk, sem byrjaði á TT- námskeiði hjá Báru í JSB í lok janúar og missti 6-7 kíló á mánuði. „Ég veit það ekki, en ég er svo ánægð með hvað þetta hefur gengið vel“, sagði hún. „Ég er mjög skipulögð í þessu. Ég hef tekið mataræðið algerlega í gegn. Ég borða einungis þrjár máltíðir á dag. Morgunmat – sem er hafragrautur alla virka daga, en rúgbrauðssneið um helgar. Hádegismat – sem er aðalmáltíð dagsins. Það er mjög gott að borða aðalmáltíðina í hádeginu í stað þess að gera það á kvöldin og svo er það léttur kvöldverður“. Þetta sagði Björk meðal annars í viðtalinu við Lifðu núna, en hún tók hreyfinguna líka í gegn og með því að smella hér, má sjá viðtalið við Björk í heild.
- Voru að hugga hvort annað og giftust. Þau Regína og Guðberg voru lengi samstarfsmenn hjá Reykjavíkurhöfn. Hún var ritari hafnarstjóra en hann verkstjóri í véladeildinni í Örfirisey. Þau þekktust því vel. Þau misstu maka sína um svipað leyti, Regína eftir 36 ára hjónaband en Guðberg eftir rúmlega 40 ára hjónaband. „Þetta þróaðist stig af stigi“, segir Guðberg. Þau fóru að fara saman út að borða og fundu út að þau áttu vel saman og börnin þeirra samlöguðust vel. Í viðtalinu við Lifðu núna lýsa þau lífi sínu á 12 hæð í blokk í Árskógum þar sem þau búa saman í dag. Sjá viðtalið í heild hér.
- Hafnaði skurðaðgerð við blöðruhálskirtilskrabbameini. Þetta er mein sem margir karlar fá þegar aldurinn færist yfir. Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri hafnaði því að fara í hefðbundna meðferð við blöðruhálskirtilskrabbameini og valdi þess í stað meðferð sem kallast virkt eftirlit. „Læknar voru ekki sáttir við mig fyrir að fara gegn ráðum þeirra og ég skil það. Þeir voru að hugsa um mína velferð. Þegar ég valdi leið Virks eftirlits fyrir 13 árum, voru fáir sem völdu þá leið að fara ekki í meðferð. Fyrir 10 árum var talið að í Bandaríkjunum hafi innan við 10% þeirra sem greindust með BHKK gert það. Núna er hlutfall þeirra sem velja Virkt eftirlit í stað meðferðar talið vera yfir 50% og fer vaxandi. En til að fara þessa leið, þurfa menn að vera vel upplýstir um sjúkdóminn“, sagði Þráinn í viðtalinu sem sjá má hér í heild.
- Hvar eru þau nú? Á þessu ári hefur Lifðu núna leitað uppi þekkta einstaklinga sem voru í áberandi störfum um tíma, en hafa margir snúið sér að öðrum verkefnum fjarri sviðsljósinu. Greinaflokkurinn ber yfirheitið, hvar eru þau nú?Ólöf Rún Skúladóttir fyrrverandi fréttamaður Sjónvarps var ein þeirra sem rætt var við. Viðtalið við hana var mest lesna viðtalið í þessum nýja greinaflokki. Reyndar hefur hún unnið á flestum fjölmiðlum nema dagblaði og vefmiðli. Nú eru komin hátt í 8 ár frá því hún hætti að mestu á þeim vettvangi þótt enn skrifi hún stök viðtöl í tímarit og dagblöð, en segist samt seint losna við fréttabakteríuna. Eftir að Ólöf Rún lét af daglegum störfum á fjölmiðlum skrifaði hún meðal annars viðtalsbók með eldri dóttur sinni, Hjördísi Hugrúnu, og ber bókin nafnið “Tækifærin” og er nokkurs konar hvatningabók . “Þetta voru viðtöl við fjölda íslenskra kvenna sem farið hafa í háskólanám í raungreinum og fjallað er um þau fjölbreyttu störf sem þær sinna í kjölfar þess, og um leiðina sem þær völdu til að láta drauma sína rætast,” segir Ólöf Rún og segir þetta hafa verið skemmtilegt og krefjandi verkefni. Þeir sem hafa áhuga á að vita meira um hvað Ólöf er núna að gera, geta smellt hér.
-
Vorum við blekkt til að greiða í lífeyrissjóði? Þessi pistill eftir Wilhelm Wessman vakti gríðarlega athygli á árinu en flestar greinar sem birtast um lífeyrismál og eftirlaun fólks eru mikið lesnar. Margir eldri borgarar hafa það gott, en flestum svíður það óréttlæti sem felst í svokölluðum skerðingum almannatrygginga og telja það ganga þvert á loforðin sem gefin voru í árdaga lífeyrissjóðanna um að þeir ættu að vera viðbót við ellilífeyri almannatrygginga. Þetta er harðorður pistill eftir Wilhelm sem sjá má með því að smella hér.
- Annars flokks „útileguborgarar“ í eigin landi, sló öll lestrarmet í sumar. Landsmenn voru á ferðinni um landið í sumarleyfum og voru greinilega ekki á eitt sáttir um það fyrirkomulag að tjaldstæðin taki frá stór svæði á tjaldstæðunum, fyrir erlenda ferðamenn. Það var Þráinn Þorvaldsson sem skrifaði þennan vinsæla pistil, hér.
- Get ekki hugsað mér að flytja aftur heim. Viðtal við Sigurveigu Eysteinsdóttur sem flutti til Noregs, en margir sem komnir eru á miðjan aldur segja að það sé þrautarganga að fá vinnu hér á landi. Gefum henni orðið: „Á meðan ég bjó á Íslandi sótti ég um fjölda starfa. Ég sótti um allt sem var laust, vinnu sem ég taldi að ég hefði menntun til að sinna en ég lét ekki þar við sitja, ég sótti líka um á leikskólum og frístundaheimilum. Ég komst stundum í viðtöl og mér fannst þau yfirleitt ganga vel. Það var allavega ekki að sjá að þeim sem voru að ræða við mig leiddist á meðan á viðtalinu stóð. Ef ég vissi hjá hvaða fyrirtæki ég var að sækja um, fylgdi ég umsókninni eftir og þegar var búið að ráða hringdi ég og spurði hvers vegna ég hefði ekki verið ráðin. Svarið var oft að ég væri allt of hæf og menntuð í starfið eða þá að allir sem störfuðu hjá fyrirtækinu væru mun yngri en ég og því passaði ég ekki í hópinn. Kennitalan mín er bara handónýt,“ segir Sigurveig sem líkar vel að búa meðal frænda okkar Norðmanna. Sjá viðtal.
- Ragnheiður Ríkarðsdóttir fyrrverandi alþingismaður, er annar einstaklingur í greinaflokknum Hvar eru þau nú, sem mörgum lesendum fannst forvitnilegt að vita meira um. Ragnheiður segist alls ekki sjá eftir að hafa hætt í pólitíkinni. „Ég fylgist alveg með, en ég get lofað þér því að ég sakna þess ekki að sitja á þingi. Þegar maður tekur sjálfur ákvörðun um að hætta, er það allt annars konar viðhorf sem ræður för hjá manni, en ef maður hefði til dæmis fallið í prófkjöri. Það er gott að finna sinn vitjunartíma sjálfur og taka þessa ákvörðun. Ég hef núna annars konar tíma fyrir mig og manninn minn, börn og barnabörn, þó það hafi farið svolítið forgörðum nú á haustdögum. Þetta er bara nýr kafli í lífinu og dásamlegur“ segir hún. Sjá viðtalið við hana hér.
- Enginn veit hvað átt hefur fyrr en flutt hefur. Þetta kannast áreiðanlega margir eldri borgarar við, sem hafa minnkað við sig húsnæði. Greinar um ýmsar hliðar þess að flytja í minna húsnæði, hafa ævinlega verið mikið lesnar á þessari síðu. Í þessu viðtali var rætt við hjónin Thomas Möller og Bryndísi Tómasdóttur sem réðust í það verkefni að einfalda líf sitt, til að vera tilbúin að mæta efri árunum. Eitt af því sem þau gerðu var að flytja úr húsinu þar sem þau höfðu búið í 30 ár. “Sonur okkar, sem hjálpaði okkur að flytja, hafði á orði að það væri nú ekki alveg í lagi hvað við hefðum safnað miklu dóti,” segja þau Thomas og Bryndís og brosa því þetta hafi auðvitað verið mikið af dóti frá því hann og systur hans bjuggu heima en tóku auðvitað ekki með sér þegar þau fluttu. “Nú getum við hlegið að þessari vitleysu sem söfnunaráráttan er en ég er alveg viss um að fleiri standa í þessum sömu sporum,” segir Bryndís. Þau búa núna í fallegri íbúð í nýju fjölbýlishúsi í Garðabæ með dásamlegu útsýni yfir borgina. “Óhætt er að segja að blokkarlífið sé ljúft,” segja þau. “Hér er allt skipulagt fyrir mann og svo getur maður farið á tónleika í Hörpunni án þess að fara í yfirhöfn, sama hvernig veðrið er,” segja þau hlæjandi því þau fara innanhúss í bílageymsluna og beint í bílastæðahúsið í Hörpunni. Sjá viðtalið við þau með því að smella hér.
- Viltu vita hvaða þjónustu aldraðir foreldrar þínir eiga rétt á? Lifðu núna opnaði Upplýsingabanka á síðunni á árinu, en þar má sjá yfirlit yfir helstu þjónustu sem stendur eldra fólki til boða. Lesendur hafa tekið bankanum vel og með því að smella hér má sjá frekara efni um hann.