Nóg komið af sálufélögum á netinu

Það er nauðsynlegt að nota góða beitu til að fiska þann rétta eða þá réttu ef fólk er að reyna að veiða í gegnum stefnumótasíður  á netinu. Í grein á vefnum aarp.com eru nokkur góð ráð fyrir þá sem vilja nota netið til að kynnast nýjum vinum eða vinkonum. Erfiðasti hjallinn við komast á stefnumót í gegnum netið er að útbúa góða sjálfslýsingu. Er verið að koma því til skila sem fólk heldur að aðrir vilji heyra eða er verið að segja eitthvað sem fólk heldur að laði að þá sem það telur æskilega en letji þá óæskilegu.

Gott notendanafn gulli betra

Númer eitt er að búa til gott notendanafn, eitthvað sem dregur að rétta fólkið. Ekki notað eigið nafn og heldur ekki eitthvað væmið og kjánalegt. Sumir nota nafn sem dregur dám af einhverju sem þeim þykir mikilvægt og vona jafnframt að framtíðarfélaganum þyki það líka merkilegt. Þá er það lýsingin af viðkomandi persónu. Gerðu lýsingu sem er fyndin og skemmtileg aflestrar. Fólk sem er að leita að félaga á netinu er oft búið að lesa mörg hundruð lýsingar og satt best að segja eru ærið margar þeirra vægast sagt hver annarri líkar.  Hver fær ekki upp í háls ef hann heyrir að enn einn sé að leita að sálufélaga.

Hverju á að koma til skila

Komið því til skila að þið séu ánægð, heilbrigð, fyndin og vel gefin. Reynið að koma því til skila að það sé ekki verið að leita að einhverjum sem á að fullkomna mann heldur sé verið að leita að einhverjum sem gerir lífið ánægjulegra . Sá sem er fullur sjálfstrausts og þokkalega ánægður í eigin skinni er líklegri til að fá svör frá fólki sem er á sama stað í lífinu. Lýstu eiginleikum sem þú ert að leita að í öðrum en ekki það sem þú vilt forðast.

Ekki krefjast hins ómögulega

Það er fráhrindandi að sjá langa lista yfir það sem einhver vill ekki í fari annarra. Á sama hátt er fólk fráhrindandi sem er að krefjast hins ómögulega. Láttu textann þinn innihalda orð sem lýsa því hvernig þú heldur þér í góðu formi, sérstaklega utan dyra. Samkvæmt könnun tímaritsins Wired voru 380 af hverjum 1000 orðum í stefnumótalýsingum  á netinu orð eins og „útivist“, „ferðalög“, „sund“ og „skíði“ og orðið  „jóga“ kom lang oftast fyrir. Svo er gott að sýna einhverjum sem maður treystir lýsinguna og þiggja ráð hjá þeim um hvað betur mætti fara.

Ritstjórn maí 28, 2015 09:55