Annars gæti ég varla losað mig við eina einustu bók

Það vita allir sem hafa flutt hvað það getur verið erfitt að losa sig við bækurnar sínar. Á langri ævi fyllist hver hillan af annarri og stundum hefur hver bók einungis verið lesin einu sinni, eftir það situr hún árum saman í hillunni, engum til gagns.  Lifðu núna heyrði í tveimur mönnum sem fluttu nýlega  í minna húsnæði, þar sem bækurnar af gamla heimilinu rúmuðust ekki allar í nýju íbúðinni. Bogi Ágústsson fréttamaður  giskar á að hann hafi losað sig við milli 400 og 500 bækur þegar hann flutti. „Það var kannski þriðjungur bókasafnsins. Það eru samt enn mjög margar bókahillur á heimilinu og það sem verra er, það eru enn amk  2-300 bækur í geymslu sem bíða þess að ég komi þeim fyrir eða hendi“, segir Bogi.

Enginn vill eiga gamlar bækur

Það vefst fyrir mörgum hvernig á að meta það, hvaða bækur þeir vilja halda í og hvaða bækur þeir geta hugsað sér að losa sig við. Bogi kom sér upp ágætis reglu, sem aðrir geta ef til vill haft til hliðsjónar, sjái þeir fram á að geta ekki komið bókunum fyrir á nýja heimilnu.  Hann lagði fyrir sjálfan sig eftirfarandi spurningar:

Hef ég lesið þessa bók síðustu 5 árin?

Er líklegt að ég lesi  þessa bók næstu 5 árin?

Hefur bókin tilfinningalegt gildi fyrir mig?

Hefur bókin fjárhagslegt gildi?

Ef svarið við öllum þessum spurningum var nei, ákvað Bogi að láta bókina fara.  „Ég bjó til þessa reglu þegar ég áttaði mig á því að annars gæti ég varla losað mig við eina einustu bók“, sagði hann. „Hið sorglega er að enginn vill eiga gamlar bækur lengur svo þær fóru í Góða hirðinn og hefur svo sjálfsagt verið hent degi eða tveimur seinna. Hann segir líka að það sé skiljanlega erfitt að gefa öðrum bækur, eins og til dæmis bókaflokkinn „Lönd og lýðir“.  „Það fer varla  nokkur maður að glugga í hálfrar aldar gamla bók um Írland þó að hann sé á leið þangað. Nú fer fólk á Tripadvisor eða aðra ferðavefi“, segir hann.

Fór með hluta af bókunum upp í háskóla

Gísli Pálsson prófessor minnkaði við sig húsnæði fyrir fimm mánuðum og flutti í íbúð á Seltjarnarnesi sem var helmingi minni en húsið þar sem hann bjó áður.  Eitthvað af bókunum fylgdu þeim á Nesið og hluta þeirra var komið fyrir í sumarbústað sem þau hjónin eiga í Grímsnesinu.  Hann var líka svo heppinn að geta tekið hluta af bókunum og farið með þær á skrifstofuna sína uppi í Háskóla.  „Ég sé að átakið kemur eftir 2-3 ár þegar ég missi skrifstofuna vegna aldurs“, sagði hann og bætti við að hann myndi ráðfæra sig við Þjóðarbókhlöðuna þegar hann þyrfti að losa sig við fræðibækurnar. „Ég veit til þess að þeir hafa ráðlagt fólki. Það kemur líka fyrir að þeir taka einhverjar bækur, ef þær eru fáséðar eða þeir eiga ekki eintak af þeim. En stundum segja þeir bara settu þessa bók á fornbókasölu eða hentu henni“.

Ekki tilfinningasamur þegar kemur að bókum

Gísli segir að fyrir sig, sé ekki sárt að losa sig við bækur. „Ég nota bækur þegar ég er að vinna að ákveðnu verkefni og pára í þær. Svo fæ ég áhuga á öðru og þá má þetta flakka. Ég er ekki tilfinningasamur þegar kemur að bókum, nema þetta sé algert „raritet“ eða fallegt handverk. Obbinn af þessu má fara. Maður heyrir hins vegar af fólki sem hendir ekki einni einustu bók. Ég er hættur að lesa fagurbókmenntir. Ég hef lesið svo mikið af fræðibókum, verið svo þröngur í lestri að ég hef misst hæfileikann til að lesa skáldsögur.  Ég sé því ekki eftir því þó ein og ein skáldsaga fái að flakka“, segir Gísli.

 

Ritstjórn ágúst 16, 2017 10:42