Tengdar greinar

Ferð um innhöf sálarlífsins, ellismánun og ævintýraleg brúðkaupsferð

Fjöldi pistlahöfunda hefur komið við sögu hjá Lifðu núna, sem segja má að sé komið á grunnskólaaldur, en vefurinn hefur verið í gangi síðan í júní 2014, í rúm átta ár. Pistlarnir þessara höfunda hafa gætt síðuna enn meira lífi og fjölbreytni sem er ómetanlegt og þeir eiga þakkir skildar fyrir sitt framlag. Nýir pistlar birtast vikulega og við tókum til gamans saman lista yfir þá pistla sem voru mest lesnir árið 2022.

1.Fley og fagrar árar. Höfundur: Hlín Agnarsdóttir.

Í pistlinum sem er skrifaður í tilefni búferlaflutninga frá Íslandi segir Hlín meðal annars.

Ég hef reynt að sigla mínu litla fleyi eftir veðri og vindum en stundum hefur þó óvæntur stormur kollsiglt mínu skipi og ég svona rétt komist lífs af. Snemma lærði ég að bjarga mér sjálf. Fyrir það ber að þakka foreldrum mínum eða guði. Og mér skilst að guð hjálpi aðeins þeim sem hjálpa sér sjálfir. En nú seldi ég semsagt seglin mín og er að leita mér að nýjum sem eiga að endast mér langt inn í þessa síðustu siglingu.

Segl eru líka vængir og aðalatriðið er að þeir geti borið mig og mitt litla hafurtask það sem eftir er um innhöf sálarlífsins. Ég hirði ekki lengur um úthöfin og undiröldurnar, þær mega eiga sig úr þessu, ég er nefnilega á leiðinni inn á við, á vit ævintýranna sem ég rataði aldrei almennilega í.  Ég var allt of upptekin við að halda kúrs á úthafinu, að farast ekki.

Smellið hér til að lesa pistilinn.

2.Þegar við hringdum í lögguna útaf mömmu. Höfundur: Inga Dóra Björnsdóttir.

Fjölskyldan komst í mikið uppnám þegar mamma keyrði elstu systurina heim eitt kvöldið og var ekki búin að skila sér aftur heim eftir 45 mínútur. Það var auðvitað byrjað á því að hringja í systurina sem sagði að mamma væri löngu farin heim. Hér kemur stuttur kafli úr þessari „örlagasögu“.

Ég skellti á systur mína og hringdi í ofboði í lögregluna og spurði hvort appelsínugul fólksvagen bjalla hefði lenti í slysi á Hringbrautinni eða á Miklubrautinni. Konan á lögreglustöðinni svaraði mér sallaróleg, að engin slys né árekstrar hefðu orðið í Reykjavík enn sem komið væri á þessu kyrrláta síðsumarkvöldi.

Ég róaðist um stund við hennar orð, en þegar ekkert bólaði á mömmu fylltist ég örvæntingu á ný og tókst að sannfæra sjálfa mig og systur mínar um, að fyrst mamma hefði ekki lent í slysi, þá  hlyti hún að hafa ákveðið að fara að heiman og væri nú komin út úr bænum á leiðinni út í buskann.

Hér má sjá pistilinn í heild.

3.Hvað kostar peysan ef lögfræðingur prjónar? Höfundur: Sigrún Stefánsdóttir.

Hún veltir í pistlinum fyrir sér kaupinu sem konur fá greitt fyrir ýmiss konar handverk og segir meðal annars.

Á undanförnum árum hef ég ferðast um landið með ameríska ferðamenn. Margir þeirra koma með þau áform að kaupa íslenskar lopapeysur. Um leið og þeir sjá verðið verður of heitt í heimalandinu fyrir slíkar vörur! Vinkona mín í bransanum gaf mér ráð við þessu. Hún hafði reiknað út tímakaup prjónakvennanna. Svo hafði hún reiknað út hvað peysa myndi kosta ef píparinn prjónaði peysu á venjulegu tímakaupi iðnaðarmannsins og loks verðið ef lögfræðingurinn hennar prjónaði peysuna. Ég hef notað þetta reikningsdæmi og það er eins og við manninn mælt. Farþegi í síðustu ferð haustins fór t.d út með fjórar lopapeysur, alsæll.

Mér datt þetta í hug þegar ég heimsótti verslun/safn í Funchal á Madeira í vikunni. Þar eru til sölu hefðbundnir, útsaumaðir dúkar af öllum stærðum og gerðum, sem hafa svipað aðdráttarafl og íslenska lopapeysan heima. Þessi vara er partur af portúgalskri menningu. Mér fannst ég hafa dottið í gullnámu og keypti dúk sem ég ætla að breyta í gardínu þegar heim kemur. Konan sem afgreiddi mig afsakaði verðið, sem var ansi hátt.

Hér er hlekkur á allan pistilinn.

4.Hættuleg gamalmenni. Höfundur: Óttar Guðmundsson.

Óttar hefur mikið dálæti á hetjum Íslendingasagnanna, ekki síst þeirra sem sagt er frá í Njálu og Sturlungu auk Egils afa síns. Hann er óþreytandi að bera saman hegðun og hugsunarhátt þeirra og nútímafólks.  Það gerir hann líka í þessum pistli sem endar þannig:

Umræðan á netinu er mjög hatrömm og fæstir virðast óttast meiðyrðalöggjöfina. Þegar netinu mislíkar eitthvað sem ég hef skrifað er ég venjulega kallaður “elliær kallfauskur,” “hálfviti” eða “svokallaður geðlæknir.” Það er lærdómsríkt fyrir eldri borgara hversu fljótir menn eru að grípa til ellismánunar þegar eldri maður á í hlut. Sömuleiðis er þess krafist að ég hætti að vinna enda eiga “karlæg gamalmenni” að halda sig innan veggja skilgreindra stofnana. Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju ummæli sem þessi gagnvart eldri borgurum eru ekki skilgreind sem hatursorðræða eins og sams konar ummæli gagnvart öðrum samfélagshópum.

Þeir sem hæst láta á netinu eiga það sammerkt að vilja þagga niður í “elliærum gamalmennum” með öllum ráðum. Þau eigi ekkert erindi inn í þjóðfélagsumræðuna. Það skiptir því miklu máli að láta ekki deigan síga heldur halda áfram að tjá sig og viðra skoðanir sínar þótt þær falli utan ramma hinnar viðurkenndu pólitísku rétthugsunar.

Meira um hættuleg gamalmenni hér.

5.Eyddu brúðkaupsnóttinni í gömlu flugstöðinni í Keflavík. Höfundur: Ragna Kristín Jónsdóttir.

Hún og eiginmaðurinn létu pússa sig saman sumarið 1964. Tildrög þess voru að þeim bauðst að fara í ódýra Kaupmannahafnarferð og ákváðu í snatri að gifta sig og nota þannig ferðina sem brúðkaupsferð. Þau voru 18 og 19 ára. Þetta var söguleg ferð sem við fáum hér örlítið brot af.

Þegar á Keflavíkurflugvöll var komið og búið að fara í gegnum hermannahliðið, voru allir bókaðir inn, farangurinn tekinn og eftir það mátti enginn fara út fyrir dyr. Mikið vorum við spennt að vera að fara í fyrstu flugferðina okkar, fyrstu utanlandsferðina og í brúðkaupsferð.  Eftir nokkra bið fengum við tilkynningu fararstjóranna um það,  að það yrði líklega nokkuð mikil seinkun því vélin væri enn í Gautaborg – biluð. Viðgerð færi fram á vélinni og síðan myndi hún fljúga til Oslóar  og taka farþega þar, en síðan kæmi hún til Íslands. Það mætti enginn fara út af vellinum af því það væri búið að fara í gegnum hliðið inn á hersvæðið og búið að bóka hópinn inn.

Flugstöðin var ekkert nálægt því að vera eins og við þekkjum flugstöðvar í dag, meira að segja innanlandsflugið hjá okkur er betur búið en þessi flugstöð var.  Það voru bara sæti fyrir brot af hópnum, svo það þurfti að skiptast á að fá að setjast aðeins niður og hvíla sig. Margir settust strax að sumbli á bar sem þarna var, því mjög ódýrt var að drekka þarna  og margir af karlmönnunum kunnu að meta það. Svo upphófst LÖNG bið.

Hér má sjá meira um þessa ævintýralegu brúðkaupsferð.

  1. Maðurinn minn yfirgaf mig vegna nunnu. Höfundur: Inga Dóra Björnsdóttir.
  2. Tvær ömmur fjarverandi. Höfundur: Jónas Haraldsson.
  3. Að búa heima eins lengi og hægt er? Höfundur: Þórunn Sveinbjörnsdóttir.
  4. Gangi þér vel vinur! Höfundur: Þráinn Þorvaldsson.

Hægt er að lesa pistla 6-10 með því að smella á heiti pistlanna.

 

 

Ritstjórn janúar 5, 2023 07:00