Tengdar greinar

Heilmikið grúsk en ég hafði gaman af því

Í lok seinni heimstyrjaldar flúðu margir nasistaforingjar til Suður-Ameríku og settust þar að. Aðrir létu sig hverfa og lifðu kyrrlátu lífi meðal almennra borgara í Evrópu og Bandaríkjunum. Sjálfstætt starfandi nasistaveiðarar g ísraelska leyniþjónustan Mossad eltu þessa menn upp um langt árabil og komu þeim í hendur réttvísinnar. Á þessum atburðum byggir bók Skúla Sigurðssonar, Maðurinn frá São Paulo, öðrum þræði.

Sagan hefst í Úkraínu árið 1942. Allir þekkja nafn Josef Mengele, Engill dauðans, var viðurnefni hans í fangabúðum nasista. Hann var þekktur fyrir ómannúðlegar og viðbjóðslegar tilraunir sínar á fólki. Hann var hámenntaður, með doktorspróf í bæði mannfræði og læknisfræði. Hvers vegna verður Dr. Josef Mengele, sjálfur Engill dauðans, persóna í bók þinni?

„Mig vantaði erkinasista og sannkallað illmenni í söguna frekar en minni spámann, svo að segja. Voðaverk Mengele í Auschwitz voru svo ferleg að hann hentaði fullkomlega. Hann slapp auk þess undan réttvísinni og tókst að fara huldu höfði allt til dauðadags og það bauð upp á að flétta hann saman við hugmyndina sem svo varð að Manninum frá São Paulo. Þó að Adolf Eichmann komi líka fyrir þá hefði ekki verið hægt að nota sögu hans á sama hátt því henni lýkur þegar hann var líflátinn árið 1962. Leitin að Mengele hélt hins vegar áfram fram á níunda áratuginn þótt hann hefði dáið árið 1979,“ segir Skúli.

Réttlætið náði ekki fram að ganga

Það var vissulega svo að margir nasistaforingjar flúðu í stríðslok og náðu að koma sér fyrir annars staðar. Sumir fundust og voru dregnir fyrir dóm en aðrir ekki. Josef Mengele var eins og þú segir einn þeirra sem hvarf í stríðslok og fannst aldrei eða ekki fyrr en hann var látinn. Talið er að hann hafi flækst á milli landa í Suður-Ameríku og látist í Brasilíu. Varstu á einhvern hátt að velta fyrir þér réttlæti og því að komast undan réttvísinni þegar þú fórst að skrifa?

„Jú, Mengele fór fyrst til Argentínu og svo til Paraguay og loks Brasilíu þar sem hann lést. Það má segja að öðrum þræði fjalli bókin um réttlæti en ég held að flestallir séu sammála um að hvað Mengele varðar hafi réttlætið ekki náð fram að ganga. Það er þess vegna kannski ekki mikill efniviður í því en aftur á móti er komið inn á hvaða meðulum skuli og megi beita til að réttlætið nái fram að ganga. Ég myndi þó ekki segja að spursmál um réttlæti séu í forgrunni hér, að minnsta kosti ekki eins og í fyrri bókinni minni, Stóra bróður, sem fjallar að miklu leyti um réttlæti og hefnd og hvort það geti farið saman.“

Leitumst við að skilja illskuna

Stundum er gott fólk sett í ómögulega stöðu. Það þarf að taka siðferðilega afstöðu en enginn kostur virðist virkilega góður og þannig aðstæður skapast í bók þinni. Vekja slíkar heimspekispurningar áhuga þinn almennt eða fannst þér þetta bara passa við söguna?

„Já, slíkt vekur óhikað áhuga minn og ég held að það eigi við um fólk flest,“ segir Skúli. „Þegar fólk gerir slæma hluti spyrjum við af hverju, við leitumst við að skilja það. Við, venjulega fólkið, skiljum ekki illskuna og þess vegna heillar hún okkur endalaust. Og vekur hjá okkur óþægindi eða ótta. Stundum gerir gott eða venjulegt fólk hræðilega hluti og það er, held ég, sérstaklega áhugavert. Við getum oft skilið af hverju þetta fólk gerir það sem það gerir og þá vaknar spurningin hvort það sé réttlætanlegt og hvort tilgangurinn helgi meðalið. En þetta passaði auðvitað líka við söguna, það var aðalmálið.“

Í sögunni er leigubílstjóri skotinn í Reykjavík og eiginlega óhjákvæmilegt að þeir sem eldri eru tengi það við raunverulegt morð frá árinu 1968 eða morðið á Gunnari Tryggvasyni. Var það í huga þínum þegar þú skrifaðir þetta?

„Þökk sé Sönnum íslenskum sakamálum held ég að Íslendingar á öllum aldri muni sjá líkindin og ég hafði morðið á Gunnari sannarlega í huga. En líkindin eru í raun yfirborðskennd, hinn myrti er byggður á allt öðrum manni og ég nota málið sem eins konar mótíf til að tengja söguna við raunveruleikann. Morðið á leigubílstjóranum í sögunni er alls ekki sama málið, það er stef sem ég nota því Íslendingar kannast margir við þetta óupplýsta morð.“

Skúli

Sagan kallaði á sönnunargögn

Mannkynssagan er auðvitað þekkt og þá ekki hvað síst síðari heimstyrjöldin og allt sem henni fylgdi. Þú nýtir þér bæði atburði og raunverulegar persónur til að skapa dramatískar aðstæður. Var þetta með ráðum gert?

„Já, vissulega, sagan hefst í orrustunni um Rostov árið 1942, atburðirnir sem er lýst eru í aðalatriðum sannir. Atvik og atburðir í lífi Mengele eru tekin beint upp, einu sinni eða tvisvar er vitnað orðrétt í hann. Fundur sem hann átti á tilteknu kaffihúsi í Buenos Aires með Eichmann ásamt fleiri nasistum átti sér raunverulega stað árið 1952. Öll atvik sem varða Eichmann eru beint upp úr sögubókunum, þó með örlitlum tilfæringum vegna sögunnar sem ég þurfi að vefa saman við. Myrti leigubílsstjórinn er byggður á raunverulegum manni sem átti sér svipaða sögu og persónan í bókinni. Þetta var allt saman heilmikið grúsk, ég hafði gaman af því.“

Ljósmyndir spila stórt hlutverk í sögunni. Er einhver sérstök ástæða fyrir því?

„Ekki beinlínis. Það er aðallega það að á því tímabili sem sagan gerist, 1942 til 1979, eru ljósmyndir og frumrit þeirra mikilvægar heimildir og sönnunargögn. Einkum, í samhengi söguþráðarins, vegna þess að mikið af gögnum Wehrmacht, hers nasista, um lægra setta hermenn glötuðust í lok stríðsins. Þetta var allt öðru vísi en í dag þegar við höfum þennan óhefta aðgang að ljósmyndum og upplýsingum og líka vegna þess hve auðvelt er í dag að falsa þær. Þetta var ekki útpælt en sagan kallaði á þetta og ég hlýddi,“ segir Skúli að lokum en Maðurinn frá São Paulo er bæði spennandi og trúverðug bók.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn nóvember 7, 2023 07:00