Miðaldra öryrkjum fjölgar hratt

Örorkulífeyrisþegum á aldrinum 55 til 66 ára fjölgaði um 1132 á árunum 2009 til 2013. það svarar til þess að allir íbúar Snæfellsbæjar á aldrinum 16 til 66 ára eða Dalvíkurbyggðar séu á örorkubótum. Konum á örorkubótum  fjölgaði um 698 en körlum um 434. Árið 2009 voru 5684 á þessu aldursbili á örorkubótum en í lok árs 2013 voru þeir orðnir 6816. Í prósentum talið nemur heildarfjölgun öryrkja á þessum aldri 20 prósentum  á tímabilinu.

Ekki til pengingar fyrir rannsóknum 

Sigríður Lillý Baldursdóttir

Sigríður Lillý Baldursdóttir

Hjá Tryggingastofnun ríkisins vita menn ekki af hverju þessi fjölgun öryrkja á miðjum aldri og eldri stafar. Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, segir í svari við fyrirspurn Lifðu núna að stofnunin hafi ekki haft tök á að greina þessar staðreyndir þó starfsmenn Tryggingastofnunar hafi vissulega velt þeim fyrir sér.„Reksturinn hefur ekki leyft að við sinntum slíkum rannsóknum. Það er afar miður. Við leggjum því áherslu á að gera staðreyndirnar aðgengilegar fyrir aðra til rannsóknar, túlkunar eða almennt til að fjalla um á almennan hátt,“ segir Sigríður Lillý, hún bendir jafnframt á að norrænar systurstofnanir TR séu reknar með þremur til fjórum prósentum af útgreiðslum á meðan Tryggingastofnun sé rekin fyrir eitt prósent af útgreiðslum, stofunin hafi því ekki fjárhagslegt bolmagn eða svigrúm til að sinna rannsóknum.

Langtímaatvinnuleysi leiðir til heilsubrests

Ellen Calmon

Ellen Calmon

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands segir að sífellt hækkandi tölur um fjölda öryrkja á miðjum aldri og eldri komi ekki á óvart. Það hafi verið mikið atvinnuleysi í þjóðfélaginu og þeir sem verði langtímaatvinnulausir eigi oft á hættu að missa heilsuna.  „Fólk fer að finna fyrir depurð sem leiðir til þunglyndis. Karlar og konur verða óvinnufær og fara þar að leiðandi á örorkubætur,“ segir hún. Ellen bendir líka á að margir hafi í gegnum tíðina þurft að vera í fleiru en einu starfi til að sjá sér farborða. „Íslendingar vinna fram í rauðan dauðann, sérstaklega konur, þær eru oft í tveimur til þremur vinnum,“ segir Ellen og bætir við að mikil vinna og líkamlegt álag leiði til ýmisskonar stoðkerfisvandamála og fólk verði óvinnufært af þeim sökum langt fyrir aldur fram.

Ritstjórn janúar 28, 2015 12:04