Framfærsla umfram fátækramörk

Hrafn Magnússon

Hrafn Magnússon

Skýrslan um „nægjanleika“ lífeyrissparnaðar var unnin á vegum OECD og samkvæmt ákveðinni formúlu. Skýrsluhöfundar telja íslenska lífeyriskerfið gott í samanburði við önnur lönd innan samtakanna,“ segir Hrafn Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.  Umrædd skýrsla var gefin út fyrr á árinu og samkvæmt henni sker Ísland sig  úr að því leyti að nærri 77 prósent af lífeyrisgreiðslum munu koma úr sjóðum sem hafa safnað eignum til greiðslu lífeyris. Í öðrum OECD-ríkjum er hlutfallið á bilinu 5-46 prósent.  Á heimasíðu Landsambands lífeyrissjóða kemur fram að hlutur gegnumstreymiskerfis, þar sem lífeyrir er greiddur af skatttekjum ríkisins hverju sinni, verður því aðeins 23 prósent á Íslandi en fer upp í 95 prósent í Frakklandi.  Þá kemur fram að lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar eru mikilvægt öryggisnet fyrir þá sem fá lágan lífeyri úr hefðbundnum lífeyrissjóðum, til dæmis vegna fjarveru af vinnumarkaði, lágra launa eða minni réttindaávinnslu á fyrstu tveimur áratugum almennu lífeyrissjóðanna.

Skilyrði um 40 ára búsetu

Öllum, sem uppfylla skilyrði um 40 ára búsetu á Íslandi, er tryggður lífeyrir umfram fátæktarmörk að því er fram kemur í skýrslunni. Fátækramörk hafa ekki verið opinberlega skilgreind á Íslandi en í skýrslu OECD eru þau skilgreind sem 60 prósent af miðgildi ráðstöfunartekna. Fátækramörk einstaklinga eru því talin 181 þúsund krónur á mánuði en hjóna eða para rúmlega 271 þúsund krónur. Lágmarksgreiðslur almannatrygginga á mánuði eru rúmlega 201 þúsund fyrir einhleypinga en greiðslur til hjóna eða para nema rúmum 347 þúsund krópnum.

Lífeyrisgreiðslur í framtíðinni
Greiðslur lífeyrissjóðanna munu fara hækkandi á komandi áratugum og samanlagður lífeyrir frá sjóðunum og almannatryggingum verður að meðaltali um þriðjungi hærri en hjá þeim sem nýlega hófu töku lífeyris. Jafnframt mun hlutur viðbótarlífeyrissparnaðar fara vaxandi. Í rannsókninni var megináhersla lögð á útreikning lífeyris sem hlutfalls af meðalævitekjum og lokalaunum, svo og á samanburð við ýmis viðmið. Í rannsókn OECD  kemur fram að um þriðjungur af launafólks nær ekki markmiði um 56 prósent  lífeyrishlutfall af meðalævitekjum og verður því að treysta á greiðslur frá Tryggingastofnun.

Greiddu ekki nógu og lengi
Rannsóknin beindist einnig að því að greina veikleika lífeyriskerfisins og þá einkum hvort einhverjir hópar þjóðfélagsins ættu á hættu að lenda undir viðmiði um nægan lífeyri. Niðurstaðan sýnir að þeir, sem hafa verið virkir á vinnumarkaði í 40-45 ár, sem er algengasta lengd starfsævi hér á landi, munu ná öllum viðmiðum um „nægjanleika“ lífeyrissparnaðar. Hins vegar er allnokkur hópur fólks sem nær ekki viðmiðum, fyrst og fremst vegna þess að það hefur ekki greitt nægilega lengi í lífeyrissjóð.

 

Ritstjórn september 3, 2015 11:36